04.03.1929
Neðri deild: 13. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í B-deild Alþingistíðinda. (369)

8. mál, lendingar- og leiðarmerki

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Sjútvn. hefir haft þetta mál til athugunar, eins og sjá má á þskj. 59. Hefir enginn ágreiningur verið í n. um nauðsyn þessa máls, og get jeg þess vegna verið fáorður, enda vænti jeg, að hv. þd. geti fallist á, að frv. þetta nái fram að ganga.

Jeg vil þó, áður en gengið verður til atkv. um frv., segja nokkur orð um málið í heild, en slæ um leið þann varnagla, að það verða eingöngu hugleiðingar frá eigin brjósti.

Frv. þetta fer fram á, að bundið sje með lögum að viðhalda lendingar- og leiðarmerkjum, en slíkt hefir ekki verið lögbundið áður. Munu þó flestir kannast við, sem eitthvað þekkja til smábátaútvegs okkar, að víða hagar svo til, að þurft hefir talsvert viðhald, og það árlega, á lendingar- og leiðarmerkjum hinna ýmsu verstöðva. Árlega spillast lendingar af sjávargangi á milli vertíða, og er það þá vanalega fyrsta starf sjómannanna í byrjun vertíðar að laga til í lendingunni áður en ýtt er úr vör.

Að vísu hefir smábátaútvegurinn lagst víða niður á seinni árum, en þó eru margir þeir staðir enn, þar sem hann er stundaður, og því full þörf á, að lendingunum og öðrum leiðarmerkjum sje haldið við. Það getur og jafnvel verið brýn nauðsyn að halda við þeim lendingum, þar sem útræði er horfið, því víða háttar svo til, að þar getur verið um nauðalendingar að ræða og líf bátverja í hættu, ef þeir geta ekki lent á rjettum stað. Í því sambandi nægir að benda á, að t. d. hjer nærlendis hefir Þorlákshöfn oft reynst þrautalendingin fyrir þá, sem útræði stunda frá Eyrarbakka og Stokkseyri. Þegar snögglega hefir brimað og hin þröngu sund orðið ófær, hafa margir bátar orðið að flýja til Þorlákshafnar. Mörgum mönnum hefir því þótt ástæða til, að slíkar lendingar legðust ekki niður og að þess vegna væri leiðarmerkjunum haldið við.

Nú er á síðari árum að vaxa upp nýr bátaútvegur, en það eru „trillubátarnir“ svo nefndu. Það eru opnir bátar með hjálparvjel, og er um þá svipað að segja og gömlu árabátana, að þeim er ýtt úr vör. En vegna hjálparvjelarinnar hætta þeir sjer lengra út á miðin og geta í misjöfnum veðrum orðið að leita þar lands, sem hending ein ræður. Getur þá farið svo á stundum, að þeir nái ekki lendingu þangað, sem þeir lögðu frá landi, og neyðast því til að leita þangað, sem lendingarfært er og í mörgum tilfellum hafa verið og geta verið nauðalendingar. Þess vegna er ástæða til og nauðsynlegt að halda öllum slíkum lendingum og leiðarmerkjum við, er áður hafa verið notuð.

Eftir frv. er ætlast til, að hreppsnefndir hafi yfirumsjón með þeim framkvæmdum, sem hjer er um að ræða. Hinsvegar hvílir skylda á jarðeiganda um viðhaldið, þar sem svo hagar til, að hann tekur uppsátursgjöld eða önnur landsleigugjöld af bátshöfninni. En allur slíkur kostnaður hygg jeg, að aldrei verði sjerstaklega tilfinnanlegur. Það reynir meira á árvekni hlutaðeigenda, að þetta sje gert, en jeg geri ráð fyrir, að kostnaðurinn verði í flestum tilfellum hverfandi lítill.

Þetta mál hefir líka aðra og víðtækari þýðingu. Með þessu er meiri trygging og öryggi fengið fyrir því, að lífi ótal manna á þessum litlu og opnu fleytum sje borgið.

Þá er gert ráð fyrir, að öll þessi leiðarmerki verði skrásett og send vitamálastjóra, er lætur birta þau í skrá þeirri, er hann gefur út árlega, eða eins oft og þurfa þykir. Með þessu er því ætlast til, að yfirstjórn þessara mála sje í höndum vitamálastjóra, eins og sjálfsagt er. En þó að rekstur vitamála landsins hvíli á ríkissjóði, þá hefir ekki þótt ástæða til að bæta á hann þeim viðhaldskostnaði, sem hjer er um að ræða, heldur láta hreppsfjelögin annast hann að því leyti, sem hann ekki hvílir á eigendum verstöðvanna.

Með framkvæmd þessara laga verður það trygt, að menn, sem stunda sjó á smáum bátum, geta á hvaða tíma sem er og hvar sem þeir eru staddir leitað neyðarlendinga án þess að hætta lífi manna, þegar fengnar eru glöggar leiðbeiningar um lendingar- og leiðarmerki og þeim við haldið.

Jeg þarf ekki að hafa þessi orð fleiri. Eins og jeg hefi tekið fram, hafði n. ekkert við efni frv. að athuga og telur frv. mjög nauðsynlegt. Vænti jeg því, að hv. þdm. geti fallist á það.