15.05.1929
Neðri deild: 69. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í D-deild Alþingistíðinda. (3704)

132. mál, dýpkunarskip

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Það má segja, að ekki sjeu nema fá ár síðan tekið var að ráðast í hafnargerðir hjer á landi svo nokkru nemi. Það mun mega telja, að það, sem unnið hefir verið að hafnarmannvirkjum hjer á landi, hafi verið gert á síðustu 20 árum. Á þessum tíma hafa verið framkvæmd mörg stór hafnarmannvirki, t. d. í Reykjavík, Akureyri og Vestmannaeyjum. En stöðugt eru kröfur uppi um áframhaldandi hafnarbætur í þessum stöðum og annarsstaðar á landinu. Til merkis um það er, að nú liggja fyrir þessu þingi ekki færri en 5 frv. um hafnarmannvirki. Þessi hreyfing, sem komin er á hafnarmál vor Íslendinga, er eðlileg afleiðing af auknum siglingum, aukinni útgerð, aukinni verslun og meira fjöri í atvinnulífi þjóðarinnar.

Það er öllum ljóst, hver nauðsyn er á að hafa góðar hafnir, en sennilega þó engum eins vel og þeim, er sjálfir eiga við örðuga aðstöðu að búa, þar sem sjósókn er mikið stunduð, siglingar tíðar og hafnarkostir örðugir.

Það mun að vísu vera rjett, að hafnarkostir munu óvíða hjer á landi samsvara kröfum þeim, er nú eru gerðar til góðra hafna. En sem betur fer er náttúran okkur hjálpleg í þessum efnum, svo að víða eru hjer allgóðar hafnir af náttúrunnar völdum, sumstaðar svo, að ekki þarf neinna umbóta annara en að gera bryggju eða eitthvað þvílíkt, svo skip geti afgreitt sig við land.

Sökum þess að hafnarsjóðir flestir eru fátækir og sökum þess, hve ríkissjóður hefir enn getað veitt litlu fjármagni í hafnargerðir, þá erum við neyddir til að taka óvenju há hafnargjöld til að standa straum af viðhaldi hafnarmannvirkjanna víðast hvar og aukningu þeirra. Há hafnargjöld koma sumstaðar beint niður á landsmenn sjálfa, t. d. vörugjald, sem lagt er á flutning, eða óbeint, eins og t. d. skipagjöld, sem valda hærri farmgjöldum. Þessi gjöld rjettlæta það, að meiri athygli verði veitt endurbótum á hafnarmannvirkjum en ella væri.

Við því nær allar hafnargerðir, hvort sem um er að ræða skjólgarða, bryggjur eða hafnarbakka, kemur til greina eitt atriði: dýpkun hafnarinnar. Einmitt það, að þetta atriði hefir setið á hakanum, hefir gert það að verkum, að víða hefir minna gagn orðið að hafnarbótum en ella. Óvíða er hægt að framkvæma nokkrar verulegar umbætur án dýpkunar.

Hjer á landi eru svo að segja engin dýpkunartæki til. Að vísu á Reykjavík góða dýpkunarvjel fyrir sig, sem getur komið til mála að nota hjer í grendinni, svo sem í Hafnarfirði, en ókleift að flytja hana nokkuð að ráði, því hún er ekki haffær. Hún er því öðrum landshlutum ónýt. Vöntun á hentugu dýpkunartæki er mjög bagaleg. Sumarið 1927 var ráðist í ýmsar framkvæmdir, er dýpkunarskip þurfti til, bæði á Akureyri, Siglufirði og í Vestmannaeyjum. Það varð að leita til útlanda til að fá það. Það reyndist allerfitt að fá skip, er væri heppilegt, og reynslan varð sú, að skip það, er leigt var, reyndist bæði dýrt í notkun og ákaflega óheppilegt alstaðar annarsstaðar en þar, sem er laus sandur í botni. Leðjubotn er ilt að vinna með því, að jeg ekki tali um grjót. Í Vestmannaeyjum gekk verkið einna best, því þar er laus sandur í botni; þar mun kostnaður fyllilega hafa náð áætlun, en annarsstaðar fór hann langt yfir áætlun.

Þar sem svo er nú ástatt, að eina skipið, sem við höfum tök á, er óhentugt og þar að auki í eign erlends fjelags, sem auðvitað rekur það hjer sjer til hagnaðar, þá er það mál athugandi, að landið sjálft eignist hentugt dýpkunarskip, er megi nota við ýmsar þær hafnarbætur, er nú eru á prjónunum. Það er kunnugt, að á mörgum stöðum er þörf á að dýpka hafnir, t. d. á Ísafirði, Siglufirði, Raufarhöfn og Seyðisfirði, fyrir utan í Vestmannaeyjum, þar sem á því er bráð nauðsyn. Alstaðar þar, sem hugsað er um hafnargerðir, verður dýpkun að vera samfara. Vitaskuld er ekki hægt að vinna að dýpkun á öllum tímum árs; það er sumarið, sem nota verður því nær alstaðar.

Yfirstjórn hafnarmálanna er, eins og kunnugt er, í höndum vitamálastjóra, með aðstoð þeirra verkfræðinga, sem vinna í vitamálaskrifstofunni. Einn af verkfræðingum skrifstofunnar, sem hefir mikinn áhuga á hafnargerðum og jafnframt mikla reynslu og verkhygni í þeim efnum, Finnbogi Rútur Þorvaldsson, hefir reynt að ná samkomulagi við ýms bæjarfjelög um að eignast slíkt dýpkunarskip, er hjer ræðir um. Undirtektir voru að vísu misjafnar, en þó er líklegt, að takist að leysa málið á þeim grundvelli, að ríkið og bæjarfjelögin eignist slíkt skip í sameiningu, skip, sem væri hentugt fyrir hvaða botn sem væri. Það skip þarf þá að hafa tæki bæði fyrir sandbotn og leðjubotn og helst fyrir grýttan botn líka. Þetta skip mætti svo líka nota til þess að gera smærri lendingarbætur, þar sem botninn er ekki alt of stórgrýttur. Um þessa málaleitun hefir verið leitað upplýsinga hjá hafnarstjórnum víða á Norðurlöndum, og frá þeim eru fyrir hendi skýrslur og upplýsingar um skip, sem til mála gæti komið að kaupa, þótt notuð væru.

Það liggur í hlutarins eðli, að ef keypt verður dýpkunarskip, þá verður að jafna niður á þau bæjarfjelög, sem fá það til þess að vinna fyrir sig, öllum kostnaði af viðhaldi og rekstri skipsins. Innihald till. minnar er á þessa leið:

„Neðri deild Alþingis ályktar að skora á ríkisstjórnina að undirbúa kaup á dýpkunarskipi sem hentugustu til notkunar við hafnarbætur landsmanna, leita samninga um þátttöku í kaupunum við þá kaupstaði, sem mesta þörf hafa fyrir afnot skipsins, og leggja síðan málið fyrir næsta þing“.

Það á með öðrum orðum ekki að gera annað en að halda áfram þeim tilraunum til samkomulags, sem þegar er byrjað á af áhugamönnum í þessu máli, undirbúa málið fyrir næsta þing og láta þá liggja fyrir upplýsingar um undirtektir kaupstaðanna og tilboð um skip, sem til mála gæti komið að kaupa.

Jeg þykist svo ekki þurfa að rökstyðja þetta frekar, því að það liggur í augum uppi, að okkur ber skylda til þess að taka höndum saman við þá menn, sem hingað til hafa unnið að þessu upp á eigin spýtur.

Ein af ástæðunum fyrir því, að þessi til. var flutt, er sú, að það væri æskilegra, að við gætum látið okkar eigin menn vinna að þessu, svo framarlega sem unt er. Að því er snertir stjórn slíkra skipa, þá er mjer sagt af kunnugum mönnum, að þegar menn sjeu búnir að vinna að þessu svo sem eitt ár með erlendum fagmanni, þá ættu þeir sömu menn að geta unnið með þessu tæki framvegis upp á eigin spýtur. Hvað kostnaðinn snertir, þá finst mjer ekki þörf á að fara neitt að bollaleggja um hann, því að það munar svo miklu, hvort keypt væri nýtt skip eða notað, en mjer er sagt, að notað skip, sem við mundum geta orðið nokkurnveginn ánægðir með, mundi fást fyrir 300–400 þús. kr. Jeg tel það vera hina mestu nauðsyn fyrir okkur Íslendinga að hafa okkar eigin skip til þessara hluta, svo að við getum verið óháðir og þurfum ekki að leita á náðir útlendinga, sem svo láta okkur í tje miðlungi hentug skip, eins og hefir átt sjer stað með það dýpkunarskip, sem nú er hjer við land. Það er alls ekki

hentugt alstaðar. Vona jeg svo, að hv. d. geti fallist á þessa till. mína.