17.05.1929
Sameinað þing: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í D-deild Alþingistíðinda. (3721)

144. mál, gengi gjaldeyris

Jón Þorláksson:

Hv. flm. var að gera sjer það til gamans að tala um stefnubreyt. hjá mjer í þessu máli Sagði hann, að jeg hefði áður viljað hækka pappírskrónuna, en nú vildi jeg eitthvað alt annað. Jeg get alveg með sama rjetti leyft mjer að tala um stefnubreyt. hjá honum, því hann bar fram frv. um myntstýfingu, en hefir nú talað svo sem væri hann fáanlegur til þess að hugsa ekki um annað en að halda genginu föstu. En sannleikurinn er sá, að við höldum báðir fast við okkar stefnu í þessu máli, en erum hinsvegar fúsir til þess að sveigja til um leiðir. Og jeg get tekið undir með hv. þm. Dal. um það, að hvað sem öðru líður, er jeg þó ánægður með það, að krónan skuli vera komin úr 47 aurum upp í 81½, og þannig nokkur rjetting fengin á lággenginu. Get jeg frekar sætt mig við það, þó farin sje nokkuð önnur leið til þess að ná þeirri hækkun, sem eftir er, heldur en jeg hefði helst kosið.