17.05.1929
Sameinað þing: 6. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í D-deild Alþingistíðinda. (3725)

144. mál, gengi gjaldeyris

Haraldur Guðmundsson:

Það er ekki annað hægt að segja en að þessi till. sje sæmilega stuttorð, en hún er engu að síður býsna efnismikil og bindur ærið stóran bagga á bak hæstv. stj., ef hún verður samþ., svo stóran, að jeg tel óvíst, hvort hún muni geta risið undir honum. Það er svo sem ekki verið að klípa neitt utan af kröfunum, þar sem ríkisstj. er falið hvorki meira nje minna en að „sjá um“, að gengið haldist óbreytt. Því einkennilegar kemur till. þessi fyrir sjónir, þar sem hún er flutt af mönnum, sem hefðu mátt muna, hvað gerðist árið 1925. Þá lögðust allir á eitt, ríkisstj., bankar og gengisnefnd, og gerðu alt, sem hægt var að gera, til að halda krónunni niðri, en þrátt fyrir alla þessa viðleitni hækkaði hún og hækkaði svo ört, að hún myndi hafa komist upp í gullgildi á skömmum tíma, ef það óhapparáð hefði ekki verið tekið, að stöðva hækkun hennar á óhentugasta tíma og á hinn óviturlegasta hátt. Hv. 3. landsk., sem þá var fjmrh., tók í taumana með því að veita út yfir landið nýju seðlaflóði, og það á hinum óheppilegasta tíma. — Nú er skorað á stj. að halda genginu óbreyttu, og hv. flm. virðast ekki efast um, að hún geti það, þótt þeir hljóti að muna hækkunina árið 1925, og þótt þeir hafi enga tryggingu fyrir því, að hið sama geti ekki endurtekið sig. Eins og einhver hv. þm. drap á, þá var stj. falið á síðasta þingi að gera ráðstafanir til þess að koma endanlegri skipun á gengi íslenskra peninga. Það hefir nú sýnt sig við umr. um stýfingarfrumvarpið, að stj. hefir engan slíkan undirbúning gert. Það er til einskis gagns, þótt menn hafi verið sendir út um lönd til að spyrja um, hvort það myndi spilla áliti hinnar íslensku þjóðar, ef gjaldeyririnn yrði verðfestur, þar eð þeir hafa ekkert gert til þess að leita upplýsinga um, hvernig unt sje að halda genginu föstu, ef verðfesting er lögleidd, og enn síður reynt að framkvæma nokkurn slíkan undirbúning.

Jeg mun ekki halda langa gengislæðu að þessu sinni, en hitt get jeg ekki látið vera, að minnast á kosningarnar síðustu og öll þau fögru loforð, sem gefin voru í sambandi við þær. Íhaldið lofaði þá kjósendum sínum, að það skyldi róa að því öllum árum, að krónan næði sínu gamla gengi, og allur þorri kjósenda þeirra mun hafa gengið til kosninga í þeirri trú. En hvað skeður? Nú á öðru þingi eftir kosningarnar hafa tveir hv. íhaldsþm. undirritað nál., þar sem þeir lýsa yfir því, að þeir álíti hagkvæmast, að núv. gengi skuli haldast óbreytt, m. ö. o. að krónan sje stýfð, og allur þorri flokksbræðra þeirra virðist nú vera orðinn sömu skoðunar. Þetta eru svik við kjósendur. Ef Íhaldsfl. hefði viljað standa við kosningaloforð sín og leita samvinnu við okkur jafnaðarmenn, hefði sennilega mátt gera ráðstafanir til að koma krónunni í gullgildi. Um Framsóknarflokkinn er það að segja, að hann lofaði kjósendum sínum að verðfesta krónuna í því gengi, er hún var þá, en nú er þetta 2. þingið síðan, og enn hefir flokkurinn ekkert gert til að efna þessi loforð sín. Kjósendur framsóknarþingmanna hafa áreiðanlega vænst meiri aðgerða frá þeirra hálfu í þessu máli en að þeir ljetu sjer nægja að afgreiða það með einfaldri þál. Framsóknarfl. hefir því líka brugðist kjósendum sínum í þessu máli. En þessi framkoma flokkanna beggja sýnir, að málið hafa þeir notað sem kosningabeitu, án þess að nokkur hugur fylgdi því.

Jeg mun svo ekki lengja umr. frekar um þetta mál, en vil að endingu lýsa yfir því, að jeg mun greiða atkv. á móti þessari þáltill., þar eð jeg vil, að unnið sje að því, að krónan nái fullu gullgildi. Á þann veg einan er hægt að bæta meginþorra þjóðarinnar upp það tap, sem hann hefir orðið fyrir sökum gengislækkunarinnar.