18.05.1929
Efri deild: 74. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í D-deild Alþingistíðinda. (3730)

142. mál, dýralæknissetur í Vestfirðingafjórðungi

Flm. (Halldór Steinsson):

Jeg get verið fáorður um þessa till. Þegar dýralæknisembættin voru sett á stofn, var um leið ákveðið, hvar þeir skyldu sitja. Fyrir Vestfirðingafjórðung var læknirinn settur í Stykkishólmi. Var það talið heppilegast fyrir allra hluta sakir, sjerstaklega vegna hinnar tiltölulega góðu aðstöðu, sem velflest hjeruð fjórðungsins höfðu til þess að vitja hans þar. Við þetta stóð frá 1915 og fram til ársins í fyrra; þá var hann fluttur til Borgarness. Mjer er ekki vel ljóst, hvað hæstv. stj. hefir gengið til með því, enda virðist mjer sú nýbreytni hafa við lítil rök að styðjast. Jeg tel sjálfsagt, að dýralæknirinn eigi heima sem næst miðju hjeraðinu. Í Stykkishólmi er hann að mörgu leyti betur settur en á nokkrum öðrum stað í fjórðungnum. Suðurhluti fjórðungsins á eigi að síður ágætt með að vitja hans, með því að akfær vegur er nú kominn til Stykkishólms þeim megin frá. En Dalirnir og Barðastrandarsýsla og allir Vestfirðir eiga margfalt hægara með að vitja læknisins, ef hann situr í Stykkishólmi en í Borgarnesi. Mjer er líka kunnugt um að talsverð óánægja hefir risið út af þessari ráðstöfun. Ein helsta ástæðan fyrir því að setja dýralækninn niður á svo að segja annan enda hjeraðsins hefir verið talin sú, að Borgarfjörður væri blómlegt hjerað og að miklu væri slátrað í Borgarnesi, sem dýralæknirinn þyrfti að hafa eftirlit með. En þess má þá geta, að meðan læknirinn sat í Stykkishólmi, hafði hann þetta eftirlit á hendi og stimplaði kjötið. Og mjer er ekki kunnugt um, að hann hafi talið eftir sjer að skreppa þann spöl. Aðrar ástæður get jeg ekki sjeð, og vona jeg því, að hæstv. stj. geti fallist á rjettmæti þessarar kröfu og sjái svo um, að dýralæknirinn sitji í Stykkishólmi.

Þess skal getið, að þessi till. er flutt samkv. almennum óskum manna í Snæfellsnessýslu, Barðaströnd og Vestfjörðum. Um Dalina er mjer ekki kunnugt, en jeg hygg þó, að þeir vilji heldur, að dýralæknirinn sitji í Stykkishólmi, því að jafnaði eiga þeir hægara með að vitja hans þar.