16.05.1929
Neðri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í D-deild Alþingistíðinda. (3745)

100. mál, rýmkun landhelginnar

Flm. (Pjetur Ottesen*):

*) Ræðuhandr. óyfirlesið. Jeg vil taka það fram út af því, að jeg áfeldist hæstv. stj. fyrir að vera ekki viðstödd, að jeg undanskil auðvitað hæstv. forsrh., sem er veikur. En eins og meðstjórnendur hans koma fram fyrir hans hönd í öðrum málum, hefðu þeir líka gert það í þessu máli, ef þeir hefðu haft skilning á nauðsyn þess.

Það er alveg rjett hjá hv. 2. þm. G.-K., að það er ekki jafnnauðsynlegt að friða öll svæði. Við bíðum misjafnlega mikið tjón af botnvörpuveiðum á hinum ýmsu stöðum. Þær eru miklu skaðlegri á einu svæði en öðru. En við verðum að forðast að valda reipdrætti á milli manna innanlands og kaupa friðun á einum stað með ófriðun á öðrum. Hinsvegar er ekki útilokað, að við getum fengið frekari friðun á einum stað án þess að við þyrftum að láta nokkuð á móti, og jeg býst við, að hv. 2. þm. G.-K. hafi átt við það.