16.05.1929
Neðri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í D-deild Alþingistíðinda. (3747)

100. mál, rýmkun landhelginnar

Ólafur Thors:

Hv. þm. Ísaf. kom fram með till., sem hann hefir oft borið fram á opinberum fundum, en sem jeg hygg, að hann hafi ekki mikla trú á. Jeg vil benda á, að ef Faxaflói væri friðaður fyrir öllum togurum, ætti þar af að leiða þjóðarhag, en ef flóinn er hinsvegar aðeins friðaður fyrir íslenskum togurum, verður þjóðartap, af því að íslenska þjóðin fer þá á mis við feng í þessu efni, án þess að hún njóti þess, að flóinn sje friðaður með öllu. Það eru margfalt fleiri erlendir togarar en íslenskir, sem veiða þar.

Hv. þm. Ísaf. sagði, að þetta gæti haft þann hag í för með sjer, að útlendingar sæju, að okkur væri alvara og við tryðum á málstaðinn og vildum fórna einhverju fyrir hann. En þeir vilja ekki einungis trú, heldur sannanir, af því að þeir eru sömu skoðunar og hv. þm. sjálfur, að sanna þurfi, að ef grunnmiðin eru ekki friðuð, leiði af því eyðslu djúpmiðanna.