16.05.1929
Neðri deild: 70. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í D-deild Alþingistíðinda. (3749)

100. mál, rýmkun landhelginnar

Haraldur Guðmundsson:

Jeg vil ekki efast um, að trúin megi sín mikils í þessu máli. En jeg er ekki viss um, að stórþjóðirnar líti svo mikið á trúarsannfæring hv. þm. Borgf., og er hræddur um, að honum verði ekki að trú sinni um vilja þeirra.

Hv. 2. þm. G.-K. taldi, að það mundi verða þjóðartap að friða Faxaflóa fyrir íslenskum togurum, meðan ekki væri hægt að banna útlendum togurum líka veiðar þar. Jeg hygg, að þessi fullyrðing hv. þm. sje röng. Jeg veit ekki, hversu mikill hluti aflans hjer í flóanum er veiddur af íslenskum botnvörpungum, en vjelbátar og smærri skip fá þar venjulega mikinn afla. Það er alment álitið, að ef Faxaflói væri friðaður fyrir veiðum togaranna, þá myndi fiskigangan þar aukast mjög, og um leið afli línubátanna. Það er að vísu ekki nema hálfur fengur að friða flóann aðeins fyrir íslenskum togurum, en áreiðanlega myndi það muna miklu að losna við þá. Um það geta línubátamenn borið. Íslensku togaraskipstjórarnir eru kunnugastir og því oft einskonar leiðsögumenn hinna erlendu, sem elta þá á miðin. Hitt er þó aðalatriðið, að með þessu sýndu íslenskir útgerðarmenn í verki, að þeir tryðu því, að nauðsyn væri að friða þetta svæði fyrir botnvörpuveiðum, svo að ungviðið gæti vaxið þar upp í friði; yrði þá auðveldara að fá erlendu fiskveiðaþjóðirnar til að fallast á að færa út landhelgina, ef við sjálfir riðum á vaðið, því að það er þeirra hagur eins og okkar, að ungfiskurinn sje ekki drepinn eða hrygningarsvæði eyðilögð, — Þetta væri að sýna í verkinu trúna, sem hv. þm. Borgf. talaði svo fagurlega um áðan.

Jeg heyrði fyrri ræðu hv. þm. Borgf., og var auk þess sjálfum kunnugt um, að það er verið að vinna hjer að rannsóknum á vexti og þroska fisksins. Hv. þm. segir, að niðurstaðan af þeim rannsóknum fáist árið 1930. Jeg dreg það þó mjög í efa. Mig minnir, að í sambandi við „Dana“-leiðangurinn hafi verið gert ráð fyrir framhaldandi rannsóknum. Meðan vísindin eru að kveða upp fullnaðardómsúrskurð í þessum efnum, er það aðeins eitt, sem við getum gert til þess að herða á kröfum okkar til erlendra þjóða um rýmkun landhelginnar, en það er, að við friðum sjálfir t. d. Faxaflóa fyrir íslenskum botnvörpuskipum. Það væri að sýna trú sína í verkunum. Trú, sem sýnd er í verkum, getur flutt fjöll, en varatrú og meiningarlaust bænahjal gerir hvorki til nje frá. — Jeg vil skjóta því til hæstv. stj., hvort hún sjer sjer ekki fært að leggja fyrir næsta þing frv. um friðun Faxaflóa fyrir veiðum íslenskra botnvörpunga, jafnframt því, sem hún reynir að vinna að máli þessu á annan hátt.