18.05.1929
Neðri deild: 72. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í D-deild Alþingistíðinda. (3759)

145. mál, landpóstferðir

Flm. (Sigurður Eggerz):

Eins og kunnugt er, þá hefir legið fyrir þessari hv. d. frv. til 1. um póstmál og símamál. Hafa verið teknar upp í það ýmsar af till. póstmálanefndar um tilhögun póstflutninga og póstleiðir. Fara ýmsar þessar till. í þá átt að gera gagngerða breyt. á ýmsum póstleiðum frá því, sem áður hefir verið.

Jeg efast nú ekki um það, að nauðsynlegt er að rannsaka, hvernig póstflutningum verði best fyrir komið. En viðvíkjandi þeim till., er hjer hafa legið fyrir, hafa komið fram miklar kvartanir um það, að þær væru ekki sem heppilegastar að því er snertir ýmsar póstleiðir. Jeg skal nú ekki fara ítarlega inn á það, en aðeins láta þess getið, að hvað mitt kjördæmi snertir eru till. póstmálanefndarinnar algerlega óviðunandi. Nefndin ætlast til, að aðalhöfnin, sem póstgöngurnar eru bundnar við, verði Borðeyri. Allir vita, að Borðeyri er ótrygg hafíshöfn. Það er mjög óeðlilegt að beina samgöngum míns kjördæmis norður á við. Auðvitað á Borgarnes að verða aðalhöfnin. Nú er líka loks búið að ákveða, að vegurinn skuli lagður yfir Bröttubrekku. Hinsvegar er auðvitað, að ef á að miða póstsamgöngurnar við einhverjar hafnir, er aðalsambandið við Borgarnes. Sem betur fer, er búið að leysa vegamál míns kjördæmis á þann hátt, að byrjað er að leggja bílveg yfir Bröttubrekku.

Það, sem farið er fram á í till., er það, að stj. geri ekki gagngerðar breyt. á póstsamgöngum, fyr en þeir aðilar, sem kunnugastir eru, það er að segja viðkomandi sýslunefndir, hafa gert sínar aths. Sömuleiðis er ætlast til, að þetta verði lagt fyrir samgmn. Alþingis. Jeg býst við, að þetta mál geti orðið afgr. hjer fljótt og umræðulítið, þar sem kröfur þáltill. eru svo eðlilegar og í samræmi við óskir allra þm. Jeg vona, að hv. d. taki vel í málið.