07.05.1929
Sameinað þing: 4. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í D-deild Alþingistíðinda. (3770)

35. mál, einkasala á steinolíu

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallson):

Þegar ákveðið var, að ríkið færi að versla með steinolíu, þá lá ekki fyrir nein sjerstök áskorun frá Alþingi um það umfram lögin. Til þess að stj. taki aftur upp einkasölu á steinolíu, þá þarf ekki heldur neina sjerstaka áskorun frá Alþingi. Jeg er sammála hv. flm., að það er auðveldara að byrja á versluninni nú á ný heldur en var að hefja hana í fyrstu. Það er því tiltölulega auðvelt nú að taka ákvörðun um, hvort taka skuli upp einkasölu.

Nú er liðið ár frá því fjelögin hófu olíuverslun hjer af fullum krafti. Jeg er einnig sammála hv. flm. um það, að nú sje kominn tími til að taka til rannsóknar verðlag á steinolíu hjer á landi, samanborið við verð annarsstaðar. Ríkisstj. mun sjá um, að það verði tekið til gaumgæfilegrar rannsóknar. Ríkisstj. mun ekki hika við að taka þær ákvarðanir, sem slík rannsókn leiðir í ljós að gera þarf til að gæta hagsmuna landsmanna.

Jeg vænti þess út frá þessari yfirlýsingu, að hv. flm. geti fallist á að draga till. sína til baka. Vilji hann það ekki, þá vil jeg mæla með, að dagskrá hv. þm. A.-Sk. verði samþ.