07.05.1929
Sameinað þing: 4. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í D-deild Alþingistíðinda. (3771)

35. mál, einkasala á steinolíu

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Hæstv. atvmrh. gat þess, að engin áskorun frá Alþingi hefði legið fyrir, þegar einkasalan var upp tekin árið 1923. Þetta er rjett, en það segir ekkert um það, að Alþingi nú hafi ekki ástæðu til að láta álit sitt í ljós, og að minsta kosti ætti það að vera hœstv. stj. kærkomin vísbending, þótt ekki sje dregið í efa, að hún hafi fullan rjett til þess að gera þetta upp á sitt eindæmi samkv. heimildarlögunum. Tillagan er einmitt fram borin af því að hæstv. stj. hefir ekki notað heimildina, til þess að herða á hæstv. stj., sem nú virðist hafa gleymt sínum fyrri áhugamálum.

Hæstv. ráðh. lofaði — og er það góðra gjalda vert — að láta rannska gaumgæfilega verðlag á olíunni. En það er furðulegt, þar sem stjórnin hefir sverðið í hendi sjer, eins og hv. þm. A.-Sk. orðaði það, ef hún hefir hingað til ekkert gert til þess að kynna sjer þetta. Það var þó tvímælalaus skylda hennar. Það gefur mjer tilefni til að halda, að meira tómlœti ríki hjá stjórninni í þessu efni en ætla mætti af fortíðinni.

Jeg býst við, að það þýði ekki að fjölyrða um málið, enda er örðugt að deila við sjálfan sig, því hæstv. ráðh. fjelst á allar röksemdir mínar. En jeg vil að lokum segja það, að við síðustu alþingiskosningar voru áreiðanlega margir af þeim, sem með atkvœðum sínum komu því til leiðar, að hæstv. forsætisráðherra komst í það sæti, sem hann nú skipar, sem greiddu atkvæði einmitt með tilliti til þess. hvaða afstöðu „Framsókn“ hafði tekið á undanförnum þingum til tveggja mála: einkasölu á steinolíu og einkasölu á tóbaki. Og það er fullvíst, að það var von allra þessara manna, að fengi „Framsókn“ fœri á, þá mundi hún neyta máttar síns og setja upp aftur þessi þjóðþrifa- og nytjafyrirtæki, sem Íhaldsflokkurinn kreisti lífið úr. Og jeg er viss um, að eftir þetta þing, eftir að stjórnin og flokkur hennar hefir tortímt báðum þessum málum, runnið frá fyrri orðum sínum, loforðum og stefnu í þeim, þá skiftir og mjög um hug til hennar og flokks hennar hjá miklum fjölda kjósenda, sem telur þetta bein brigð á kosningaloforðum — og það með rjettu.