07.05.1929
Sameinað þing: 4. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í D-deild Alþingistíðinda. (3773)

35. mál, einkasala á steinolíu

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Það má segja, að ræða hv. 1. þm. Skagf. væri veigamikil! Hann upplýsti það, að ástæðan til þess að bensín hækkaði í verði hjer, hafi verið sú, að það hækkaði erlendis. Þetta vissu nú reyndar allir, að er vanasvarið. En ef hv. þm. hefði hlýtt á orð mín, þá hefði hann getað tekið eftir, að það var ekki hækkunin út af fyrir sig, sem jeg var að tala um, heldur hitt, að fjelögin hefðu öll hækkað verðið samtímis og jafnmikið, selt við sama verði öll þrjú, og hefðu ávalt gert. Hvað er þá orðið úr samkeppninni? Samkeppni er það, þegar einn býður vöruna niður fyrir annan. En fjelögin hafa öll sama verð, hækka verðið jafnmikið og á sama tíma. Þar er engin samkepni. — Þessu er hv. 1. þm. Skagf. allra manna best kunnugur, því að hann er einmitt að nafni til formaður þess fjelagsins, sem er meingallaðast frá sjónarmiði allra ísl. manna.

Hv. þm. var að gera gys að því, að jeg hefði sagt, að „Shell“ vildi eignast allan mótorbátaflotann. Vitaskuld sagði jeg ekki neitt slíkt. En jeg benti á, að með því fyrirkomulagi, sem er á lánveitingum til bátaútvegsins, þá væri ekkert líklegra en það, að „Shell“ gæti rígbundið eigendur bátanna á skuldakláfann og trygt sjer með því viðskifti þeirra. Jeg benti á þetta í sambandi við hina óskiljanlega miklu áherslu, sem fjelagið lagði á það, að fá hinn fylsta rjett á við ísl. borgara. Og það stóð ekki á því að fá þennan rjett. Hv. þm. var sporlipur við hið erlenda auðfjelag, lánaði því nafn sitt, og er nú formaður að nafnbót í leppfjelagi þess.

Hv. þm. sagði, að sami rassinn væri undir sjer og hv. 2. þm. Reykv. Þeir um það. En ef hann með þessu á við samkomulag olíufjelaganna um verðið, þá er það einmitt staðfesting á því, sem jeg sagði, að milli þeirra ríkti ekki samkepni, heldur samvinna um að skattleggja landsfólkið.