07.05.1929
Sameinað þing: 4. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í D-deild Alþingistíðinda. (3774)

35. mál, einkasala á steinolíu

Magnús Guðmundsson:

Hv. flm. sagði, að ræða mín hefði verið veigamikil, og get jeg þakkað „komplimentin“. Það fanst mjer að vísu ekki sjálfum, en þetta finst nú honum.

Honum fanst það tortryggilegt, að öll fjelögin hefðu hækkað bensínverðið samtímis, og væri það ekki samkepni, efvaran væri seld við sama verði. En getur hann ekki hugsað sjer, að samkepnin komi verðinu niður, þangað sem hægt er? (HG: Nei!). Það var leitt.

Hann sagði, að „Shell“ væri meingallaðasta fjelagið. Það er harður dómur yfir hæstarjetti, því mjer er ekki kunnugt um, að annað fjelag hafi hæstarjettardóm fyrir því, að það sje löglegt.

Þá sagði hv. þm., að „Shell“ væri svo voldugt, að það gæti bundið vjelbátaflotann á klafa sinn með stórlánum. Það hefir ½ milj. kr. höfuðstól. En hvað getur þá „B. P.“ með sínum 66½ milj. kr.? Ef hv. þm. er hræddur við ½ milj. kr., er hann þá ekkert hræddur við þær mörgu? Eða gerir hann sjer dálítinn mannamun hjer?

Hv. þm. fanst ilt, að jeg skyldi hafa „lánað nafn“ mitt, eins og hann orðaði það, erlendu olíufjelagi. En hví finnur hann ekki að þessu líka hjá flokksbróður sínum, hv. 2. þm. Reykv.? Eða er nokkuð verra að lána „Shell“ nafn sitt heldur en „B. P.“? (ÓTh: „Shell“ er fátækara!). Já, það skyldi þá vera af því, að „Shell“ er fátækara, og þá meiri burgeisabragur á hv. 2. þm. Reykv. en mjer. Sannar þetta best heilindin hjá hv. þm. Ísaf., er hann ræðst að mjer fyrir að vera í stj. fjelags, sem hefir ½ milj. kr. hlutafje, en lætur óátalinn flokksbróður sinn, sem er framkvæmdastjóri auðfjelags, sem hefir 66½ milj. kr. hlutafje. Mjer finst, að hv. þm. Ísaf. væri sæmra að þegja um þetta.