18.05.1929
Efri deild: 76. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í D-deild Alþingistíðinda. (3781)

148. mál, skólasjóður Herdísar Benediktsen

Flm. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Ræða hæstv. dómsmrh. gefur mjer tilefni til að svara henni nokkrum orðum. Það hefir fyr verið vitnað í afskifti fyrv. stj. í þessu máli. Jeg hefi ávalt — einnig við fyrv. stj. — haldið því fram, að ekki mætti með nokkru móti ráðstafa dánargjöf frú Herdísar Benediktsen á nokkurn þann hátt, sem ekki væri í fyllsta samræmi við arfleiðsluskrá hennar. En það er ekki fyr en nú, að tilraun hefir verið gerð til að verja gjöfinni á ólöglegan hátt

Jeg skal ekki fara inn á það hjer, hvað Jón heitinn Magnússon hefir haft mikinn þingvilja bak við sig, er hann tók við Staðarfellsgjöfinni. En hvergi verður sjeð af Alþt., að Alþingi hafi löglega samþ. þá samninga.

Jeg verð að undirstrika það, að jeg get ekki talið það viðleitni til að fylgja fyrirmælum tilsk., ef ekki er leitað samþ. sýslunefndanna, þegar taka á ákvörðun um, hvar Herdísarskólinn verður reistur. Huggunarorð hæstv. ráðh. um, að jeg gæti treyst því, að ekki verði gerð frekari breyt. á Staðarfellsskólanum án þess að borið verði undir sýslunefndirnar í Vesturamtinu, eru eins og nú standa sakir lítils virði. (Dómsmrh.: Þetta sagði jeg aldrei. Jeg sagði, að fullnægt mundi verða þeim lögum og reglum, er þá verða í gildi). Hæstv. ráðh. talar um, „að fullnægt skuli þeim lögum og reglum, er þá verða í gildi“. Þessi lög og þessar reglur eru og verða jafnan hin sömu, og er þau að finna í erfðaskrá frú Herdísar Benediktsen og tilsk. frá 2. mars 1908. En þetta hvorttveggja er brotið með þeirri ráðstöfun, sem hæstv. stj. nú ætlar sjer að gera um fje Herdísarsjóðs.

Tilgangur minn með þáltill. var sá, að fá um þetta skýr svör hjá hæstv. stj., og jafnvel þótt að sú tilraun mín beri ekki þann árangur, sem jeg helst mundi kjósa, þá er það þó jafngott, að alþjóð manna fær að sjá það í þingtíðindunum, að gerræði því, sem hjer á að beita, hefir verið mótmælt.