11.05.1929
Efri deild: 66. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í D-deild Alþingistíðinda. (3797)

137. mál, rannsókn brúarstæðis á Lagarfljóti

Flm. (Páll Hermannsson):

Svo sem hv. þdm. er kunnugt, er Lagarfljót eitt af stærstu vatnsföllum landsins. Það fellur um víðlent hjerað, bæði langt og breitt bygðarlag, og er mikil umferð yfir fljótið. Skömmu eftir aldamótin var bygð brú yfir fljótið hjá Egilsstöðum, og er það einhver dýrasta brú á landinu. Er það löng trjebrú og mikið mannvirki. Nú hagar svo til um umferð í Fljótsdalshjeraði, að mjög margir þurfa að fara yfir fljótið annarsstaðar en þar, sem brúin er. Jeg hygg, að vegalengdin frá brúnni til sjávar sje um 45 km., en nokkurn veginn miðja vegu þar á milli er dragferja á fljótinu, sem bætir allmikið úr brúarþörfinni á þessu svæði. En þótt þessi ferja sje þarna, hefir einkum í seinni tíð borið talsvert á því, að þeir, sem búa í Fljótsdalshjeraði neðanverðu, hafa fundið til þess, að mikla nauðsyn bæri til að byggja aðra brú yfir fljótið. Umferð yfir hjeraðið utanvert er af ýmsum ástæðum mjög mikil, t. d. þurfa allir þeir, sem búa vestanvert við Lagarfljót, að vitja læknis yfir það, því að læknirinn situr á Hjaltastað. Ennfremur þurfa margir í kaupstað að sækja yfir fljótið, og er umferð því margvísleg. Þörf á brúnni hefir líka verið viðurkend meðal annars á þann hátt, að af hálfu hins opinbera hefir verið látin fara fram skoðun á þessu vatnsfalli sem undirbúningur undir rannsókn á brúarstæði. Jeg veit ekki, hve oft slík skoðun hefir farið fram, en á síðastliðnu sumri athugaði Hannes Arnórsson verkfræðingur brúarstœði.

Hann hefir tjáð mjer, að hann álíti fleiri en eitt allgott brúarstæði þarna, t. d. væri brúarstæði rjett við Lagarfljótsfoss mjög gott. Nú hefir á því bólað, bæði á þingmálafundum og einnig á sýslufundi í Norður-Múlasýslu, að óskað er eftir því, að fram fari rannsókn á því, hvar fyrirhuguð brú ætti að standa og hve mikið fje slík brú myndi kosta. Svo sem mönnum er kunnugt, hefir það átt sjer stað, að bygðar væru tvær brýr á sama vatnsfall. Svo er t. d. um Jökulsá á Dal, Hvítá í Borgarfirði o. fl. Það er því ekki óeðlilegt, þótt óskir væru uppi um það, að bygð yrði önnur brú á Lagarfljót, sem er mjög langt og rennur alt um bygðir. Þess vegna er þáltill. þessi á þskj. 504 komin fram, því að að því hlýtur að reka fyr en síðar, að bygð verði önnur brú yfir Lagarfljót.

Ætla jeg, að jeg þurfi ekki að tala meira fyrir þessari þáltill., en vænti þess, að hv. þdm. sjeu mjer sammála um það, að þessi rannsókn sje þörf.