11.05.1929
Efri deild: 66. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í D-deild Alþingistíðinda. (3798)

137. mál, rannsókn brúarstæðis á Lagarfljóti

Fjmrh. (Einar Árnason):

Þar sem þetta mál heyrir aðallega undir hæstv. atvmrh., sem nú er veikur, geri jeg ráð fyrir, að jeg geti ef til vill ekki komið með þau svör, er hv. flm. geti við unað.

Þegar jeg sá, að mál þetta hafði verið tekið á dagskrá, bað jeg vegamálastjóra að gefa mjer nokkrar upplýsingar um það. Hefi jeg nú fengið frá honum brjef, sem jeg vil leyfa mjer að lesa upp, því að jeg hefi svo ekkert frekar um málið að segja en í brjefinu stendur. Það hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Á síðastliðnu sumri rannsakaði Hannes Arnórsson aðstoðarverkfræðingur brúarstæði á Lagarfljóti, á svæðinu frá Steinboga og upp að Steinsvaði. Utar eða ofar mun ekki koma til greina að brúa fljótið.

Koma aðallega til greina tvö brúarstæði, annað á Steinboga, en hitt skamt (um 200 m.) fyrir ofan Lagarfoss.

Á Steinboga hagar svo til, að þar mun hentugast að gera hengibrú, 100 metra langa, sbr. meðlagðan uppdrátt, og mun hún kosta 80 þús. kr. Straumur er svo mikill í fljótinu, að naumast mun tiltækilegt að koma þar fyrir stöplum. Ofan við fossinn er fljótið mjóst, og mun brú verða þar 60–62 metrar að lengd. Virðist einnig aðstaða þar á þann veg, að heppilegast verði að hafa hengibrú, en þó gæti steinsteyptur, járnbentur bogi komið til greina (sbr. meðl. uppdrátt). Hengibrúin mun kosta nálægt 50 þús. kr. Bogabrúin e. t. v. eitthvað dálítið minna.

Milli Steinboga og Lagarfoss er smáhólmi í fljótinu, og gæti e. t. v. komið til mála að brúa það þar, mun þar þurfa um 100 metra langa brú og kostar brúin 60–70 þús. kr. Samkvæmt skýrslu verkfræðingsins virðist mjer brúarstæðið ofan við fossinn líklegast, enda er það talið liggja vel við umferð, og þar verður brúin einnig áreiðanlega ódýrust“.

Með þessu brjefi hefir vegamálastjóri sent mjer teikningar af þessum brúm, sem nefndar eru í brjefinu, sem sje tveim járnbrúm og einum steinboga, og fylgir áætlun um brýrnar. Hefi jeg svo ekki fleira að segja, en jeg veit ekki, hvort hv. flm. gerir sig ánægðan með þetta svar mitt.