09.04.1929
Neðri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í B-deild Alþingistíðinda. (38)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Þó að brtt. hv. landbn. sjeu í 5 liðum, eru það bara tveir, sem jeg ætla að minnast á. Sá fyrri fjallar um verkfærakaup. Það var boðað við 2. umr. frv. um sveitabanka, að brtt. þess efnis mundi koma fram, og jeg hefi ekkert við það að athuga, hvernig hv. n. hefir sett hana inn í þetta frv.

Um hina brtt. skal jeg taka það fram, að jeg get alveg fallist á hana. Það er í aðalatriðunum gengið frá henni eins og gert var á búnaðarþingi með atkvæðum allra bænda þar. Jeg sje enga ástæðu til að úrskurða hana frá. En jeg álít, að á þessu sviði sje aðeins um byrjun á löggjöf að ræða og að varla verði farið af stað með stærra spor. Þegar svo búið er að framkvæma ýmislegt, sem nú er í undirbúningi, t. d. búfjártryggingar og aukna lækning búfjársjúkdóma, þá mætti fara að stíga enn stærra spor á þessu sviði.