17.05.1929
Neðri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í D-deild Alþingistíðinda. (3811)

134. mál, Borgarnesbátur

Jörundur Brynjólfsson*):

*) Ræðuhandr. óyfirlesið. Það eru aðeins örfá orð. Jeg get að miklu leyti tekið í sama streng og hv. 3. þm. Reykv. um þetta mál. Það er fjarri mjer, að jeg vilji verða til þess að leggja stein í götu bættra samgangna hjer á landi, en þann veg getur þeim till. verið farið, sem fram koma í þeim málum, að engin tök sjeu á því að ljá þeim fylgi sitt. Svo er um þessa till. Að vísa þessu máli til samgmn. tel jeg með öllu þýðingarlaust, þar sem nú er komið að þinglausnum. En jeg get verið hv. þm. N.-Ísf. sammála um það, að slíkt mál ætti að rjettu lagi að athugast í nefnd. Jeg get trúað því, að Borgfirðingar kysu betri samgöngur en þeir eiga við að búa, og svo myndi efalaust vera um fleiri hjeruð landsins. En hinsvegar ber á það að líta, að nú er sú stefna efst á baugi í samgöngumálum vorum, að leggja aðaláhersluna á bættar samgöngur á landi, og til mála hefir komið að leggja veg á næstu árum frá Reykjavík til Borgarness. Að því athuguðu getur eigi talist ráðlegt að ráðast þegar í að bæta sjóleiðina eða sjósamgöngurnar til Borgarness að miklum mun, ef hjá því verður komist með góðu móti. Hinsvegar gæti jeg fallist á, að stj. væri látin athuga þetta og leita álits sjerfræðinga um kostnað við byggingu skipsins. Jeg hefi ekkert við það að athuga út af fyrir sig. En í niðurlagi till. er stj. falið að leita tilboða um bygging skipsins, og skal því lokið fyrir næsta þing. Jeg er till. að þessu leyti algerlega mótfallinn. Í þessum orðum felst alt of mikil bending um það af þingsins hálfu, að það hafi þegar tekið endanlega ákvörðun um málið. En slíkt getur ekki komið til nokkurra mála, að Alþingi taki endanlega afstöðu til þessa máls að svo stöddu, fyr en gengið hefir verið úr skugga um, hvort nauðsynin sje svo brýn sem af er látið. En það vil jeg mjög draga í efa. Hinsvegar tel jeg hjeruðunum meiri þörf á bættum landsamgöngum. Jeg vil því skjóta því til hv. flm., hvort hann væri ekki fáanlegur til þess að breyta till. þannig, að síðasta línan falli niður. Ef hv. flm. vill ekki fallast á það, vildi jeg gera að till. minni, að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.