17.05.1929
Neðri deild: 71. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í D-deild Alþingistíðinda. (3813)

134. mál, Borgarnesbátur

Jón Ólafsson:

Jeg get verið hv. flm. sammála um það, að meginþorri allra vöruflutninga milli Borgarness og Reykjavíkur muni verða sjóleiðis. Eins og getið hefir verið um undir umr., verður sjóleiðin til Borgarness og höfnin þar bætt stórlega á næstu árum, og þá munu strandferðaskipin og milliferðaskipin sigla með vörurnar beint til Borgarness. Þá eru ekki eftir aðrir flutningar en póstur og farþegar. En á hinn bóginn verður þess varla langt að bíða, að fullkomið vegasamband falst á milli Borgarfjarðar og Reykjavíkur, þegar Kjósarveginum verður haldið áfram. Þetta verður sennilega komið í kring eftir fá ár. Jeg get því ekki betur skilið en hjeraðsbúar sjálfir verði fyrst að segja til um, hvernig þeir vilja hafa skipið, hve stórt og af hvaða gerð o. s. frv. Ætti þeim ekki að verða skotaskuld úr slíku, því þeir hafa margra ára reynslu að baki í þeim efnum. Þetta mál er því fyrst og fremst hjeraðsmál, og það er hjeraðið, sem verður að bera hitann og þungann af þessu fyrirtæki, og eins allan veg og vanda af því, þegar það er komið á fót. Það eru því hjeraðsbúar, sem eiga að leita tilboða í bygging skipsins, enda vita þeir best, hverjar kröfur þeir gera um stærð þess, gerð og útbúnað. Jeg get ekki sjeð, að ríkinu beri sjerstök skylda til að hafa forgönguna í þessu máli, enda ekkert vitað um, hve mikinn styrk það vill veita til byggingar og rekstrar slíks skips. Einnig verður ríkið að fara varlega í þessar sakir, því annars koma önnur hjeruð og heimta tilsvarandi samgöngubætur á sjó. Að þessu athuguðu væri eðlilegast, að málinu væri nú vísað til nefndar, ef hv. deild sjer sjer annars fært að sinna því nokkuð að svo komnu máli. Hinsvegar er í sjálfu sjer gott, að þessum málum sje haldið vakandi, en á þessu stigi málsins verð jeg að telja óráð að leita samninga um bygging þess. Ríkið hefir enn ekki sjeð sjer fært að ráðast í að byggja hið nýja strandferðaskip, en óneitanlega ætti það þó að ganga fyrir. Mjer virðist liggja beinast við, að hjeraðsbúar framkvæmi þessa umtöluðu rannsókn upp á eigin spýtur, enda hafa þeir tiltölulega besta aðstöðu til þess. Mun jeg því greiða atkv. gegn þessari till.