09.03.1929
Neðri deild: 18. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í D-deild Alþingistíðinda. (3829)

34. mál, rannsókn á rekstri togaraútgerðarinnar

Ólafur Thors:

Hv. 1. flm. þessarar till. flutti hjer í gær alllanga ræðu till. til stuðnings. Ýmsar alm. hugleiðingar hans um útgerðina leiði jeg hjá mjer, aðallega af því að þær snerta ekki kjarna málsins, nefnil. hvort nauðsynlegt sje að láta rannsaka hag og rekstur togaraútgerðarinnar, en sný mjer beint að málinu.

Till. er í þrennu lagi, — eða öllu heldur hv. þm. færði þrjár ástæður fyrir því, að nauður ræki til að rannsaka rekstur togaraútgerðarinnar. — Fyrsta ástæðan, sem hann færði, er sú, að hann vill fá upplýst — eins og hann orðaði það —, á hvern hátt unt væri að gera rekstur togaraútgerðarinnar hagkvæmari og ódýrari og tryggja fjárhagsafkomu hennar.

Um þessa ástæðu var hv. þm. allfjölorður. Hann benti á ýmislegt, sumt af fullum rökum, en flest af nokkrum skorti á þekkingu á þessu máli.

Það er alveg rjett hjá hv. þm., að það er hagkvæmt, að stj. útgerðarfyrirtækja verði færð nokkuð saman, en jeg vil leyfa mjer að benda á það, að löggjafarvaldið hefir engin tök á að neyða menn í þessu efni, á meðan eignarrjetturinn og umráðarjettur einstaklingsins yfir eign hans er viðurkendur. Það er ekki hægt að skipa útgerðarmanni að fela öðrum stj. skips síns, fremur en að skipa bónda að fela nágrannanum stj. bús síns. Hinsvegar vil jeg benda á það, að þróunin miðar öll í þessa átt. Fjelögin eru að fækka og stækka. Jeg skal í því sambandi upplýsa það, að hv. 3. þm. Reykv. hefir stj. 2 fjelaga með höndum. Og svo er um fleiri. Alt miðar í þessa átt, og er gert í eiginhagsmunaskyni af eigendum skipanna. En jeg vil leyfa mjer að leiða athygli hv. d. að því, að sparnaðurinn, sem af þessu leiðir, er alls ekki eins mikill og hv. flm. vill vera láta. Því færri sem framkvæmdarstjórarnir eru, því fleiri starfsmenn verður að hafa þeim við hlið, og það verður ekki mikið ódýrara. Framkvæmdarstjórarnir hafa yfirleitt lág laun; flestir hafa þetta 3000–6000 kr. Það má því alls ekki leggja eins mikið upp úr þessu atriði og hv. flm. gerir.

Það er sömuleiðis rjett hjá hv. flm., að heppilegt er að hafa samsölu á aflanum. Þetta hafa útgerðarmenn líka sjeð og gerðu hina fyrstu tilraun um samsölu fiskjar árið 1926. Sú tilraun tókst eftir atvikum vel og varð til þess að árin 1927 og 1928 höfðu flestir togaraútgerðarmenn með sjer sölusamlag. Sama er að segja um Vestmannaeyinga; þeir hafa haft með sjer samsölu nú í tvö ár. Ennfremur má geta þess, að útgerðarmenn hafa nú komið á hjá sjer samsölu á lýsi.

Það er ennfremur rjett hjá hv. flm., að hagnýting aukaafurðanna hefir mikla þýðingu fyrir útgerðina. En það tekur tíma og kemur smátt og smátt. Fyrir tveim árum var t. d. hagnýting lifrar miklum mun verri en hún er nú. Þá var lifrin ekki unnin um borð í skipunum, heldur flutt í land og unnin þar. Með þessu móti hagnýttist hún miklu ver, enda er nú svo komið, að öll lifur er unnin á skipsfjöl. Hvað snertir vinslu hausa og hryggja á skipsfjöl, þá get jeg upplýst það, að þetta hefir verið athugað, en framkvæmdir hafa strandað á því, að skipin eru of lítil til þess að nauðsynlegum vjelum verði komið við. Sömuleiðis hafa verið gerðar tilraunir með vinslu gotu og sundmaga, en það hefir ekki þótt svara kostnaði, vegna þess hve dýr vinnan við það er. Allar þessar leiðir, sem jeg hefi nú rakið, hafa þegar verið athugaðar af útgerðarmönnum og verða athugaðar betur. Hv. flm. hefir því ekki komið fram með neitt það, sem er nýtt fyrir okkur útgerðarmenn. En framtíð togaraútgerðarinnar byggist í mínum augum á því, sem hv. flm. alls ekki mintist á, og sennilega veit ekki um, nefnil., að hætt verði að salta fiskinn, en farið að frysta hann og flytja hann þannig á heimsmarkaðinn. En þetta tekur alt sinn tíma. Því fleygir áfram í umheiminum, en vegna þess, hve dýrt er að reisa slík fyrirtæki hjer á landi, og hinsvegar að ekki er víst, hver frystiaðferð er heppilegust, verðum við Íslendingar að vera varkárir. Við höfum ekki efni á að hagnýta okkur hvert spor, sem stigið er í þessu efni, og verðum því að bíða, þangað til fengin er full reynsla fyrir einhverri ákveðinni frystiaðferð.

Hitt er á misskilningi bygt hjá hv. flm., að útgerðinni væri hagur af að hafa stöðvar á Austur- og Vesturlandi. Hjá honum lá sú eðlilega hugsun á bak við, að hver veiðidagur væri. En eins og jeg benti á í gær — jeg greip fram í hjá hv. flm. —, þá fylgir talsverður baggi þessu skammrifi. Með þessu móti verður stofnkostnaðurinn miklu meiri, og svo verða útgerðarmenn að tryggja það, að nægar vörubirgðir sjeu fyrirliggjandi á þessum stöðvum og nægur mannafli til að annast verkun aflans. En á þessu er sá galli, að áraskifti eru að því, hve mikið veiðist á hverjum stað. Annað árið eru farnar þetta 3–4 ferðir á Austurlandsmiðin, hitt árið ekki nema ein og jafnvel engin. Og sama er að segja um Vesturlandsmiðin. Af þessu leiðir það, að erfitt verður að tryggja, að hæfilegar birgðir af nauðsynlegum vörum sjeu fyrir hendi á þessum stöðvum og nægur fólksafli, og af því að munurinn á notaþörfinni er svo mikill frá ári til árs, hefir þetta mikinn aukakostnað í för með sjer fyrir útgerðina. En þótt að þessu væri nú horfið, væri samt ekki hægt að minka stöðvar útgerðarinnar hjer syðra. Hjer þyrfti eftir sem áður að hafa stór stakkstæði og mikinn vinnukraft, vegna þess hve þörfin er rík á að koma aflanum sem fyrst í peninga. Og afleiðingin af þessu yrði sú, að fyrri hl. sumars hefði fólk hjer syðra mikið að gera, en ekkert síðari hl. sumars. Þá yrði algert atvinnuleysi. Þetta er því hreinasti misskilningur hjá hv. flm.

Hinsvegar er mjer það vel ljóst, að tíminn er dýrmætur fyrir útgerðina og að með þessu móti sparaðist sá tími, sem skipin nú eyða í að sigla hingað til Reykjavíkur. En jeg vil benda á það í þessu sambandi, að jeg hefi aldrei talað um það, að sá tími glataðist, sem skipin eyða í að sigla í höfn. Jeg tók það þvert á móti skýrt fram — í umr. um vökulögin í fyrra —, að jeg teldi nauðsynlegt, að sjómennirnir hefðu þennan tíma til að hvíla sig. Hingað til Reykjavíkur er 36 tíma sigling frá Hvalbak og 18–20 tíma sigling af Vesturlandsmiðunum, og sjómönnunum veitir ekkert af þeim tíma sjer til hvíldar, sjerstaklega þegar skipin hafa verið á veiðum á Hvalbak, því að þar aflast mestmegnis smáfiskur, og er vinna sjómanna þá miklu erfiðari heldur en á vertíð, þegar nær eingöngu veiðist stórfiskur.

Annars vil jeg segja hv. flm. það, að þessar bollaleggingar hans eru gamlir kunningjar okkar útgerðarmanna. Sumar þeirra eru þegar komnar í framkvæmd og aðrar undir athugun. Ekki fyrir atbeina hv. þm. Ísaf., heldur af innri þörf og þróun þessa atvinnuvegar. En það er ekki vansalaust fyrir hv. þm. að vita þetta ekki, úr því hann reisir kröfuna um rannsókn á útgerðinni á þessum grundvelli. Jeg held, að óhætt sje að fullyrða það, að við útgerðarmenn vitum sjálfir best, hvar skórinn kreppir, og hvernig tryggja ber fjárhagsafkomu útvegarins. Við vitum, að í því eru höfuðatriðin samfærsla á stj. fyrirtækjanna, samsala á aflanum og hagkvæm kaup á þeim vörum, sem til útgerðarinnar þarf. Og eftir þessu er farið. Sömuleiðis er okkur það vel ljóst, að ekki má íþyngja útgerðinni með of miklum skattaalögum og að leggja verður áherslu á að efla varasjóðina og borga hluthöfum ekki út arð í góðærum. Það fjelag, sem jeg er riðinn við, hefir aldrei borgað út arð, og jeg held, að jeg megi segja, að sama venja sje höfð hjá því fjelagi, sem hv. 3. þm. Reykv. er fyrir. Enda álít jeg, að það eigi að vera höfuðreglan, á meðan útgerðin stendur ekki fastari fótum.

Þá er okkur það líka ljóst, að afla verður nýrra markaða, enda hefir dyggilega verið unnið að því, og sömuleiðis að hafa verður vakandi auga á hverri framför í tilhögun veiða og hagnýting aflans. En aðalmarkið er þó að breyta til um hagnýting aflans smátt og smátt, og hverfa frá því að salta fiskinn, en snúa sjer að því að koma honum nýjum á markaðinn. En í þessu efni verðum við Íslendingar að vera varkárir vegna fátæktar.

Eins og jeg hefi nú sýnt fram á, hefir þegar verið unnið mikið í þessa átt, og því verður haldið áfram. Það er því blátt áfram broslegt að ætla að fara að skipa þingn. til að rannsaka þessa hlið málsins. Þó að um mþn. hefði verið að ræða, hefði ekki verið hægt að búast við miklum árangri, en þegar þetta á að vera þingn., sem starfar mitt í önnum þingsins, virðist satt að segja alls ekki hægt að gera ráð fyrir nokkrum árangri. Þessi nefndarskipun er því hreinasti barnaskapur.

Þá vildi hv. flm. láta rannsaka það, „á hvern hátt hægt væri að tryggja verkafólkinu lífvænleg kjör“. Í þeim hluta ræðu hans, sem um þetta fjallaði, kendi margra grasa. Hann vildi halda því fram, að útgerðarmenn hefðu yfirleitt grætt á útgerðinni. Jeg verð nú að segja það, að það eru sumir en ekki allir, því það er rjett hjá hv. flm., að margir þeirra, sem lagt hafa fje sitt í útgerð, hafa tapað, og þeir eru áreiðanlega fleiri, sem það hafa gert.

Um það er jeg sammála hv. flm., að alþjóð hefir grætt mikið á togaraútgerðinni, og það ættu menn að virða við þá, sem hleyptu henni af stokkunum. Um þriðja aðilann, verkalýðinn, sagði hv. flm. það, að hann hefði aðeins til hnífs og skeiðar. Þetta kann að vera rjett í mörgum árum um mikla barnamenn, en einhleypir menn hafa með þessu móti fengið aðstöðu til að safna sjer fje, sem síðar varð þeim undirstaða undir sjálfstæðum atvinnurekstri. Jeg þekki mörg dæmi þess, að einstakir menn hafa safnað sjer á þennan hátt þúsundum og jafnvel tugum þúsunda króna. Við útgerðarmenn fylgjumst vel með efnahag þeirra manna, sem hjá okkur vinna. Sumir sækja laun sín jafnóðum og þau falla í gjalddaga, en aðrir einu sinni eða tvisvar á ári til þess að leggja þau í sparisjóð eða eitthvert fyrirtæki, sem þeir eru að koma upp.

Í umr. um launagreiðslur ísl. útgerðarmanna kendi grundvallarmisskilnings hjá hv. flm. Hann hjelt því fram, að hjer á landi væri miklu minni hl. aflans varið til launagreiðslu en hjá nágrannaþjóðunum, og með þessu ætlaði hann að sanna, að hjer væru greidd verri laun en annarsstaðar. Þessi rök eru sjerstaklega ljeleg. Það liggur í því, að afli erlendu togaranna er margfalt minna virði en afli íslensku togaranna. En hinsvegar er tilkostnaður íslensku útgerðarinnar margfalt meiri. Við þurfum að kaupa helmingi dýrari skip, borga háa vexti, bera þunga skattabyrði. Allar vörur, sem til útgerðarinnar þarf, verðum við að kaupa við helmingi dýrara verði. Við eyðum meiri kolum og margfaldri upphæð í veiðarfæri. Og það er margt fleira en þetta, sem stuðlar að því, að okkar útgerðarkostnaður er meiri en erlendu togaranna.

Hv. 4. þm. Reykv. hefir haldið því fram sem rökum í þessu máli, og hv. flm. notað þau rök, að með því að Þjóðverjar greiddu sjómönnunum 28% af andvirði aflans, en við ekki nema 13%, hlytu sjómennirnir að vera ver launaðir hjá okkur en þeim. Í „Alþýðublaðinu“ 6. des. síðastl. er því haldið fram, að ársafli þýskra togara geri 144 þús. mörk, eða 155 þús. krónur. Hjer er miðað við, að hver ferð geri 8000 mörk og að farnar sjeu 4½ ferð að meðaltali á 3 mánuðum. En þetta er ekki rjett. Mjer er kunnugt um það, að þeir erlendir togarar, sem hjer stunda veiðar, eyða þetta 26–30 dögum í ferðina. En segjum, að þetta væri rjett, og að ársafli þýsks togara gerði 155 þús. kr. Af þessari upphæð fá hásetarnir 28%, eða 43400 kr. Jeg get upplýst það, að á íslenskum togurum hefir kaupgjaldið verið alt að 120 þús. kr. á ári, og að meðaltali rúm 80 þús. kr. Af þessu mætti nú álykta, að við borguðum tvöfalt og þrefalt hærra kaup en Þjóðverjar. En það er fjarri því, að þetta sanni nokkuð í því efni. Og hundraðshluti af andvirði ársaflans sannar heldur ekkert um afkomu aðila. Sjómaður, sem hefir 20% af afla 4 manna fars, getur vel borið helmingi minna úr býtum en togaraháseti, sem hefir aðeins ½% af afla togarans.

Þetta sýnir best, að ekki dugir að ætla að sanna afrakstur manna með því að tilgreina, hve miklum hluta aflans er varið til kaupgjalds. Það mætti náttúrlega hinsvegar spyrja að því, hvort íslenskir sjómenn bæru meira eða minna úr býtum en erlendir stjettarbræður þeirra. Jeg vil nú taka það fram, að það er yfirleitt ekki hægt að reisa kröfur á slíkum samanburði. Launakjör verkamanna í Bandaríkjunum eru t. d. margföld við launakjör verkamanna á Ítalíu, að jeg ekki nefni í Kína. í þessum efnum verður og að hafa hliðsjón af því, í hverju hlutfalli launagreiðslan stendur við verðlagið í hlutaðeigandi landi. Mest fer launahæðin eftir „effektivitet“ framleiðslunnar. Ef um iðnað er að ræða, fer t. d. mikið eftir því, hver peningarentan er, hvernig vjelum er fyrir komið og hvernig starfsorkan er hagnýtt. Hjer á landi fer það eftir mörgu öðru, sem erfiðara er að reikna út, ýmsu, sem tæplega verður við komið að reikna hagfræðilega. Jeg get aðeins um þetta til að sýna fram á, að það er alment ekki hægt að gera kröfur til, að Íslendingar eða nokkur önnur þjóð greiði kaupgjald, sem sje jafnhátt eða hærra en annara þjóða, sem líkan atvinnuveg reka. En ef menn annars vilja spyrja um það, hvort við greiðum okkar sjómönnum hærra kaup en venja er til með öðrum þjóðum, þá fullyrði jeg: Við greiðum hærra kaup.

Jeg veit, að það verða deilur um þetta, en til þess að reyna að forðast þær, skal jeg aðeins minna á, að hv. 4. þm. Reykv. getur þess í grein, sem hann skrifaði í Alþýðublaðið í des. f. á., að á þýskum togurum hafi sjómennirnir haft 454 kr. mánaðarkaup, en á enskum togurum 363 kr., en á ísl. togurum, árið 1927, höfðu lægst launuðu hásetarnir kr. 377,54 á mánuði. Síðan hefir kaupið hækkað um 15% og mundi því með þeim kjörum hafa orðið 434 kr. á mánuði. Jeg vil líka geta um það, að auk þessa mánaðarkaups hafa íslensku sjómennirnir mikil hlunnindi. Á síldveiðum eiga þeir allan fisk, sem þeir draga, og fá ókeypis salt í hann; það er ennfremur orðið þegjandi samkomulag, að þeir beri heim til sín fullan poka af fiski eftir hverja veiðiför. Er heimilunum góð hjálp að þessu, en útgerðin bíður ekkert verulegt tap við það. En niðurstaðan verður þá sú, að við Íslendingar greiðum hærra kaup en aðrar þjóðir, og það þrátt fyrir það, þótt við höfum dýrari skip, dýrari kol og veiðarfæri, auk þess sem við verðum að geyma fiskinn áður en við seljum hann, en erl. stjettarbræður koma honum nýjum á markaðinn. Jeg geri samt ráð fyrir, að við þolum þetta, vegna þess að við höfum betri starfsmenn og fiskimiðin nær okkur, en hjer á landi hefir samt verið gengið nær hluthöfunum í þessum fyrirtækjum heldur en nokkursstaðar annarsstaðar.

En annars er það svo, eins og jeg hefi áður getið um, að það er yfirleitt ekki hægt að gera neinar kröfur til íslensku útgerðarinnar um kaupkröfu, sem sje reist á gjaldgetu þeirra útlendinga, er senda skip sín hingað til veiða, því að öll aðstaða er svo gagnólík.

Samanburður sá, sem hv. aðalflm. hefir gert, er þá í raun og veru ekki annað en helber vitleysa. En það er sannanlegt, að íslenskir útgerðarmenn greiða hærra kaup en útlendir.

Um 3. liðinn í till. hv. þm. vil jeg þá segja það, að ísl. sjómenn á togurum eru best launaðir af verkalýð þessa lands; þeir eru betur launaðir heldur en erlendir stjettarbræður þeirra, og þeir hafa skárri vinnu heldur en flestir aðrir, sem sjómensku stunda hjer á landi. Og sönnun fyrir því, að jeg hafi lög að mæla, er sú eftirsókn, sem er eftir þessari vinnu, því hún er ákaflega mikil. Það er því torskilið, að nokkur ástæða sje til, að útgerðin verði rannsökuð fyrir þessar sakir, enda er jeg líka sannfærður um, að þetta vakir ekki fyrir hv. flm., heldur er ástæða hv. flm. til að fara fram á þessa rannsókn sú, sem gerð er grein fyrir í 2. lið till., þar sem talað er um það, „á hvern hátt best verði fyrir komið stjórn og eignarumráðum þessara útgerðarfyrirtækja“. Það er þjóðnýting, sem hv. aðalflm. hefir fyrir augum, enda hefir hann gert þannig grein fyrir þessari till. sinni á fundum í verkalýðsfjelögunum. Það, sem fyrir hv. flm. og öðrum jafnaðarmönnum vakir, er þá þetta: Við höfum ekki aðstöðu til að krefjast þjóðnýtingar á togurunum, meðan allir vita, að okkur skortir gersamlega alla þekkingu á öllum rekstri þeirra, Ef við hinsvegar fáum að hnýsast í reikningana, getum við talað digurbarkalega, jafnvel þótt þekkingin sje grunnfær. Við bætum aðstöðu okkar til að sýnast.

Rannsóknin er því til þess eins gerð að greiða götu þjóðnýtingar, en jeg ætla mjer ekki að fara að rökræða um þjóðnýtingu í þessu sambandi, vegna þess að það hefir þegar komið í ljós, að þessi hv. d. er algerlega andvíg þjóðnýtingu. Jeg tel það þess vegna fullvíst, að hv. d. fari ekki að samþ. slíka till. sem þessa, ef einu rökin fyrir henni eru undirbúningur undir þjóðnýtingu, en fyrir því hefi jeg leitt miklar líkur, jafnvel talsverðar sannanir.

Aðalkrafa hv. flm. hefir undanfarna mánuði verið þessi: Reikningana á borðið! — Jeg verð að halda því fram, að slíkur kröfurjettur sje talsvert hæpinn. Hjer er hann að minsta kosti ákaflega hæpinn, ef það er aðeins tilgangurinn að kynnast útgerðinni, til þess síðar að nota þá þekkingu til árása á útgerðarmenn. En ef það er tilgangurinn að taka afleiðingunum af þeim fróðleik, sem við slíka rannsókn fæst, þá er leiðin þegar opin, því með frv. því um vinnudóm, sem liggur fyrir þessari hv. d., er fengin heimild til slíkrar rannsóknar. Ef hugur fylgir máli, er jafnaðarmönnum hjer í d. því í lófa lagið að ná markinu, með því að fylgja því frv. En annars leyfi jeg mjer að minna á, að þessir menn hafa áður heimtað reikningana á borðið. Það var í deilunni milli Eimskipafjelags Íslands og sjómanna á skipum þess. Reikningar Eimskipafjelags Íslands voru lagðir fram. En þegar þeir báru það með sjer, að fjelagið gat ekki greitt þá kauphækkun, sem farið var fram á, þá neituðu jafnaðarmenn að taka afleiðingunum af þeim upplýsingum. Af þessu mega menn marka, hvað undir býr, þegar jafnaðarmenn krefjast að fá reikninga útgerðarfjelaganna.

Upplýsingarnar nota þeir til þess eins að ráðast á fyrirtækin með útúrsnúningum og offorsi, en tali reikningarnir gegn þeirra kröfum, loka þeir augum og eyrum og virða staðreyndir að vettugi. Jeg tel því, að þessi till. eigi engan rjett á sjer, en vil þó ekki gera það að neinu kappsmáli, að henni verði ekki vísað til nefndar.