13.03.1929
Neðri deild: 21. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í D-deild Alþingistíðinda. (3861)

49. mál, almannatryggingar

Bjarni Ásgeirsson:

Jeg vil nota tækifærið til að minna á það, að síðasta þing samþ. till., sem jeg ásamt öðrum þm. kom fram með í þessari hv. d. Till. okkar gekk í svipaða átt og var svo hljóðandi:

„Neðri deild Alþingis skorar á ríkisstjórnina að láta fram fara rannsókn og undirbúning undir að koma á almennum ellitryggingum í landinu og leggja fyrir næsta þing tillögur í því efni“.

Vil jeg nú leyfa mjer að spyrja hæstv. forsrh., hvað þessu máli líður, og vona, að hann gefi d. upplýsingar um það. Jeg álít fulla þörf á að flýta þessu máli, en álít enga nauðsyn bera til að draga það á langinn, þar til fært verður að koma fullkomnu skipulagi á allar þessar tryggingargreinir, sem hv. þm. Ísaf. mintist á í framsögu sinni, þó að jeg hinsvegar viðurkenni fyllilega hina knýjandi þörf á róttækum aðgerðum í þessum málum.