13.03.1929
Neðri deild: 21. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í D-deild Alþingistíðinda. (3869)

49. mál, almannatryggingar

Pjetur Ottesen:

Hv. flm. þessarar þáltill. gera ráð fyrir, að skipuð verði þriggja manna mþn. af ríkisstj., til þess að fjalla um málið. En það hefir verið venjan, þegar um slíkar n. hefir verið að ræða, að Alþingi hefir skipað þær. Jeg vil því skjóta því til þeirrar n., sem fær mál þetta til athugunar, hvað það er í efni þessarar till., sem mælir með því, að brugðið sje út af fastri venju um skipun mþn. Annars hefði mjer fundist það viðeigandi úrlausn þessa máls, að stj. væri falið að búa það undir næsta þing. Það er vitanlegt, að stj. getur fengið sjer til aðstoðar þá sjerfræðinga, sem um er að ræða, eins og hæstv. forsrh. hefir lýst yfir, að hann hafi gert við undirbúning ellitrygginganna. Það er nú orðið svo mikið um nefndarskipanir yfirleitt til þess að athuga ýms mál, að jeg held, að ekki sje gerlegt að halda lengra á þeirri braut, sökum kostnaðar. Þessar n. eru nú orðnar nær 20.

Jeg man eftir því, að árið 1916, þegar sú breyt. varð á skipun ríkisstj., að þrír ráðh. komu í staðinn fyrir einn, var það gert að miklu leyti með tilliti til þess, að þá stæði stj. betur að vígi um að búa ýms mál undir þingið. Jeg verð að segja, að mjer finst það fullsæmileg afgreiðsla þessa máls, að vísa því til stj.