18.05.1929
Neðri deild: 72. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í D-deild Alþingistíðinda. (3881)

126. mál, þjóðaratkvæðagreiðsla um samkomustað Alþingis

Hjeðinn Valdimarsson:

Hv. 1. þm. S.-M. játaði og virtist vera frekar hreykinn af því, að hann hefði vakið upp þennan gamla draug, sem Jón Sigurðsson hafði komið fyrir í sinni tíð. Hann hefir bersýnilega búist við andstöðu og hefir því búið sig vel undir, og heldur nú l1/2 klt. ræðu, en það er einkennilegt við þessa ræðu hv. þm., að hann snýr sjer aðallega gegn ímynduðum mótbárum, en gerir lítið að því að sýna rök fyrir flutningi Alþingis. Það er skiljanlegt, að þessi hv. þm. aðhyllist flutning þingsins, af því að hann er nú kominn fram á efri ár og lifir í forneskjunni, en skilur lítið í nýja tímanum og breytingum þeim öllum á þjóðháttum, sem honum eru samferða. Því hefir hann einn fengist til að verða frsm. þessa máls, en hinir flm. láta sig hvergi sjá hjer í deildinni. Jeg get ekki skilið, hvað er meiri ljettúð en þetta, að koma fram með slíka till. nú á síðasta degi þingsins, enda mun þetta ekki vera flutt af brennandi sannfæringu þeirra, sem ljá nöfn sín á það, heldur vegna hins, að hv. flm. óttast nú þennan draug, sem vakinn hefir verið upp af þeim í hugsunarleysi og ætlar nú þá sjálfa lifandi að drepa.

Ef menn athuga þetta mál í alvöru, sjá þeir, hve þetta er ákaflega vitlaust. Hjer er risinn upp bær, Reykjavík, sem í eru 25000 manns og uppfyllir öll skilyrði höfuðstaðar. Hjer er æðsta stj. landsins og stofnanir og allir þeir sjerfræðingar í hverri grein, sem Alþingi verður að leita til og fá umsögn um í ýmsum þeim vandamálum, sem að höndum ber. Við skulum nú hugsa okkur, að þetta frv. yrði samþ. og Alþingi væri flutt til Þingvalla. Hvernig ættu þessir 42 þm. þá að hafa samband við hjarta og heila þjóðarinnar og fá allar nauðsynlegar frjettir og upplýsingar, þegar þeir eru orðnir einangraðir á Þingvöllum eins og munkar í klaustri? Þm. hefðu það raunar ekki eins gott og munkarnir, því að samkv. tilætlun hv. 1. þm. S.-M. eiga þeir víst að búa í tjöldum, sem að vísu er óhugsandi til frambúðar. Fyrir utan þá líðan vil jeg leggja áherslu á það, að jeg hygg, að hvorki hafi hv. 1. þm. S.-M. nje aðrir flm. þessa frv, alt það í höfðinu, sem þeim er nauðsynlegt við löggjafarstarfið, og er þá hætt við, að þeir yrðu að leita til annara, eins og nú gerist. Þegar Alþingi væri flutt á Þingvöll, yrði altaf að hafa þessa menn við hendina, sem nefndir þingsins nú leita til um margvíslegar upplýsingar. Ennfremur þyrfti að flytja stjórnarráðið, þinghúsið og heimavistir handa þm. þangað, og hús handa öðrum stofnunum, því að tjaldbúðir mundu fljótt gera út af við eldri þingmennina a. m. k., og er hætt við, að þeir mundu þá varla horfa í kostnaðinn við byggingarnar til að bjarga lífi sínu. Hvenær ætti þingið að starfa? Hvernig yrði um flutninga, ef það stæði nú um háveturinn? (SE: Það væri hægt að leggja járnbraut. — ÓTh: Já, úr þjóðarmetnaðinum). Sú járnbraut þyrfti þá að hafa öflugan snjóplóg, því að hún yrði altaf að vera á ferð millum Reykjavíkur og Þingvalla. En segjum nú, að ekki yrði horfið að þessu ráði, en sumarþing væri haldið á Þingvöllum; þá má gera ráð fyrir því, að ýmsir þeir menn, sem nú eiga sæti á þingi, yrðu að láta af þeim starfa, en gæti svo farið, að í þeirra stað yrðu kosnir menn, sem væru andvígir bændum, — og hvað segðu bændurnir þá? A. m. k. hefir þingið fyr verið haldið að vetri til vegna þess að sumarannir bænda mundu gera þeim ómögulegt að sækja sumarþing. Þegar búið væri að koma öllum þeim umbótum á, sem þyrfti að gera, væri risinn upp bær á Þingvöllum, með 4000–5000 íbúum, fyrir utan ferðafólkið, sem myndi streyma þangað. Þá hygg jeg, að næðið myndi fara af og að hv. 1. þm. S.-M. muni hafa litla ró til að hugsa, þegar hann væri kominn út í gjálífið á Þingvöllum. Jeg er hissa á því, að hv. flm. skuli hafa svo mikið ábyrgðarleysi til að bera, að þeir geti verið þektir fyrir að bera þessa till. fram. Við sjáum það, að nú er gert ráð fyrir, að þing verði haldið á Þingvöllum í einn eða tvo daga sumarið 1930, og það er stórvandamál fyrir undirbúningsnefnd 1000 ára hátíðarinnar að koma þessu stutta þinghaldi fyrir, en þó er þetta á besta tíma, sem hugsast getur og aðeins hugsað í eitt sinn.

Hv. þm. vjek að því, að hjer í Rvík væri ýmislegt, sem truflaði þingfriðinn, eins og t. d. kröfugöngur og annað þessháttar, og svo væri nú komið, að hver tískudrós talaði um þingið með lítilsvirðingu. Jeg hygg nú, að hvaða lög, sem út væru gefin, gætu ekki þaggað niður í öllum þeim, sem litla virðingu hafa á þinginu og störfum þess eins og það er skipað nú, en jeg álít hinsvegar, að nauðsynlegt sje að hafa þingið í Reykjavík, sökum þess að þau áhrif, sem borgarlífið hefir á þingmenn, geta verið mjög sterk, og kröfugöngurnar geta ýtt við gömlum og afturhaldssömum bændum, sem fylgjast ekki lengur með tímanum, svo að þeir finni þó a. m. k. að þeir sjeu ennþá lifandi.

Hv. þm. taldi upp ýmsa merka menn, sem hefðu verið því fylgjandi, að Alþingi væri háð á Þingvöllum, en jeg hygg, að ef þeir hafa ekki verið aðrir en þeir, sem hann taldi upp, sje ástæðulaust fyrir þingið að beygja sig undir vilja þeirra.

Jeg vænti þess, að hv. þm. hafi aðgætt það atriði, hvort hann bryti ekki í bág við stjórnarskrána, en jeg vil þó lesa upp fyrir honum 33. gr. hennar, ef ske kynni, að hún hefði farið framhjá honum eða hann hefði ekki skilið innihald hennar. Þar segir svo:

„Samkomustaður Alþingis er jafnaðarlega í Reykjavík. Þegar sjerstaklega er ástatt, getur konungur skipað fyrir um, að Alþingi skuli koma saman á öðrum stað á Íslandi“.

Þetta ætti hv. þm. að vita og skilja, og því má hann ekki álíta, að þetta mál sje klappað og klárt, þótt meiri hluti þings yrði með því, þegar stjskr. stendur á móti. Fyrst þyrfti að rjúfa þingið og samþ. lög að nýju af hinu nýkosna þingi. Jeg sje, að hv. þm. er að svipast um eftir stjskr. og vil jeg hjer með lána honum mitt eintak, svo að hann geti gengið úr skugga um, hvort leyfilegt sje að flytja þingið. Það má kallast mikil hræðsla við kjósendur, er þessi hv. þm. vill fá þjóðaratkvæðagreiðslu um það, hvort þingmenn eigi yfirleitt að samþ. slíkt frv., sem þó gæti ekki orðið að lögum, nema með þingrofi og nýjum kosningum, sem er sama sem önnur þjóðaratkvæðagreiðsla. Ef heilindi væru í málinu af hálfu flm., mundu þeir vilja láta þingið samþ. till. tafarlaust og fá svo kosningar um málið, en jeg legg til, að hún verði feld, en sje enga ástæðu til að vísa henni til stj.

Jeg vil svo ekki eyða fleiri orðum að þessu endemismáli.