08.05.1929
Neðri deild: 64. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 3039 í B-deild Alþingistíðinda. (3908)

4. mál, rekstur verksmiðju til bræðslu síldar

Fors- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Þess var getið við 2. umr., að fara mundu fram tilraunir á milli umr. til þess að ná samkomulagi um nokkrar breyt. Þetta hefir verið reynt og hefir orðið samkomulag um brtt. mínar á þskj. 567. Þær brtt. eru fyrst og fremst við 2. og 8. gr. Það kom fram í umr., að rjettara væri að láta ekki slíkt ákvæði sem er í 8 gr. vera í lögum, og hefir því orðið að samkomulagi, að 8. gr. falli niður, en bætt sje þeim ákvæðum í 2. gr., að verksmiðjan kaupi ekki síld af framleiðendum nema með sjerstöku leyfi atvmrh. og að með reglugerð verði nánar ákveðið um, að hagnaðurinn af þeim kaupum renni í varasjóð. — Aðrar brtt. mínar eru þrjár smábrtt. við 3. gr. 1. brtt. er til að tryggja það, að þeir menn, sem eru samningsbundnir við verksmiðjuna, gangi fyrir Öðrum um viðskifti. Þetta er skýring á atriði, sem átti að felast í gr., en er hjer tekið ljóst fram. Ennfremur hefir verið breytt tímatakmörkum fyrir því, hvenær áætlun um viðskiftamagn skuli vera komin til verksmiðjunnar ár hvert. Var í fyrstu til ætlast, að það væri 15. júní, en þar sem síldveiðar byrja oft um mánaðamótin júní–júlí, þótti heppilegra að láta frestinn renna út 1. júní. Ráðh. á að ákveða innan viku frá þeim tíma, hvort verksmiðjan skuli starfa eða ekki. Þetta eru aðalbrtt., sem samkomulag varð um.

Hinsvegar varð ekki samkomulag um 4. gr., því að sumir töldu, að of miklar kvaðir væru lagðar á útgerðarmenn í henni, en aðrir töldu hæfilegt, eftir því sem nú verður sjeð, og mega athuga að fenginni reynslu.

Veit jeg ekki, hvað í breytingatill. þeim felst, sem eru á leiðinni, og bíð jeg því með að taka afstöðu til þeirra. Vænti jeg þess, að samkomulagstill. nái fram að ganga og svo látum við reynsluna skera úr. Við munum hvort sem er þurfa að leiðrjetta ýmislegt, og vil jeg gera ráð fyrir því, að samkomulag geti orðið um þær breyt. í framtíðinni, þegar til kemur.