02.03.1929
Neðri deild: 12. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í C-deild Alþingistíðinda. (3913)

48. mál, vegalög

Benedikt Sveinsson:

* Mæli jeg sem aðrir mæla, og býst jeg við að flytja fleiri en eina brtt. við þetta frv. áður en lýkur. Jeg hefi á nokkrum undanförnum þingum komið fram með smávegis brtt. á vegalögunum, en afdrif þeirra kafa jafnaðarlega orðið þau sömu, að hv. samgmn. hefir sjeð fyrir þeim. Um eina af þessum till. stendur svipað á og um frv. hv. þm. A.-Sk., því að þar er um að ræða vegarspotta, sem liggur frá þjóðvegi til næsta kauptúns, sem mjög er fjölsótt af hjeraðsbúum. Er þar og viðkomustaður aðalpósta. Þessi vegarspotti er eigi langur, en erfitt að halda honum við sökum bleytu, og er hann nokkur byrði og allórjettlát á viðkomandi hreppi. Mælir öll sanngirni með því, að ríkið taki hann að sjer, en ekkert á móti, neina sú tiltölulega litla fjárupphæð, sem til þess mundi fara. Vegarspotti þessi er á Langanesi í N.-Þingeyjarsýslu og liggur af Brekknaheiðarvegi til Þórshafnar.

Eins og jeg gat um í upphafi máls míns, hefi jeg áður komið fram með brtt. um smávegis endurbætur á vegalögunum. Hefir þeim ætíð verið vísað til hv. samgmn., en aldrei átt þaðan afturkvæmt. Álit þeirrar hv. nefndar hefir að jafnaði komið fram rjett fyrir þinglok, eða svo seint, að ómögulegt hefir verið að taka tillit til þess. Vil jeg nú skora á þessa hv. nefnd að bregða vana sínum og hrista af sjer slenið og jafnframt að mynda sjer sjálfstæða skoðun á málinu. Er mjer eigi ljóst, að brýna nauðsyn beri til þess að bíða heimkomu vegamálastjóra, áður en ákvörðun er tekin. Er mjer það kunnugt, að verkfræðingur sá hefir ferðast um mestan hluta landsins á undanförnum árum, og munu liggja fyrir athuganir frá þeim ferðum. (LH: Auk þess hefir hann aðstoðarverkfræðing.) Vil jeg svo enda mál mitt með því að heita enn á ný á hv. nefnd, sem mjer hefir líkað miður vel við undanfarið, að taka sjer fram, og leggja sig fram til að gjöra alt sem má til að bæta akvegi landsins. Hin nýju samgöngutæki, bifreiðarnar, valda því, að vegamálin horfa nú alt öðruvísi við en áður. Áður fyr voru eingöngu lagðir vegir fyrir hesta og smávagna, en nú ryðja bifreiðarnar öllum öðrum samgöngutækjum úr hugum manna, jafnvel sjálfum járnbrautunum.

*Ræðuhandrit óyfirlesið.