09.03.1929
Neðri deild: 18. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í D-deild Alþingistíðinda. (3916)

34. mál, rannsókn á rekstri togaraútgerðarinnar

Sigurður Eggerz:

Það var sjerstaklega annar liður till., sem mjer skilst, að ekki verði gengið þegjandi framhjá. Jeg vildi því, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp það, sem þar stendur. Það á sem sje að skipa nefnd til að rannsaka „á hvern hátt verði best fyrir komið stjórn og eignarumráðum þessara útgerðarfyrirtækja, með tilliti til hagsmuna starfsfólksins alls og þjóðarheildarinnar“.

Nú er að athuga, hvaða ráð eru til þess að breyta eignarumráðum þessara fyrirtækja. Þar mælir 63. gr. stjskr. svo um, að eignarrjetturinn sje friðhelgur og að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína, nema almenningsþörf krefji, og þarf til þess lagafyrirmæli og komi fult verð fyrir. Eftir þessu verður engin breyt. gerð á eignarumráðum þessara fyrirtækja nema að taka þau eignarnámi. (HG: Hægt er það öðruvísi). Og það er enginn minsti vafi á því, að í þeim tilgangi er þessi till. komin fram. Orðalagið virðist benda ótvírætt til þess, að það, sem vakir fyrir flm., sje að láta þjóðnýta togarana. En mjer er nú sem jeg sjái framan í suma hv. þdm., ef fram kæmi till. um, hvernig haga skuli eignarumráðum yfir jörðum. Og þó er margt ólíklegra en að slík till. kæmi fram. Hv. flm. hefir sjálfur haldið því fram, að taka bæri af bændunum eignarumráðin yfir jörðum. Það getur því engum dulist, að þessi þáltill. er til þess ætluð að gefa þjóðnýtingunni byr undir báða vængi, og jeg vil taka það fram, að jeg er, að þessu athuguðu, mjög andvígur þessari till. og óska þess, að hún komist aldrei lifandi út úr þessari hv. d.

Mjer kemur ekki til hugar að neita því, að það kunni að vera einhverjir gallar á togaraútgerðinni eins og henni nú er háttað. Ekkert er alfullkomið í þessum heimi. Og þar eru fyrirtæki þau, sem ríkið lætur reka fyrir sinn reikning, áreiðanlega engin undantekning, og síst standa þau einstaklingsfyrirtækjum alment framar. Ríkisrekstur á þeim fyrirtækjum, sem áður hafa verið í einstökum höndum, hefir ennþá ekki reynst nein fyrirmynd að einu eða neinu leyti, og er því síst um gott fordæmi að ræða þar. En hinu verður ekki neitað, að það er einstaklingsframtakið, sem skapað hefir togaraútgerðina. Það voru nokkrir áræðnir menn, og sumir ekki langt frá mjer hjer í þessari deild, sem byrjuðu með því að lána fje til þessarar atvinnugreinar og koma henni af stað. Þá studdi það og ekki lítið vöxt og viðgang þessarar atvinnugreinar, að við áttum og eigum framúrskarandi duglega sjómenn. Þessu tvennu er það að þakka, að togaraútgerðin hefir náð þeirri framþróun, sem raun ber vitni um. Botnvörpuskipaútgerðin er nú, fyrir framtak og dugnað einstaklinganna, orðin einn stærsti liðurinn í þjóðarbúskap vorum. Þess vegna dettur mjer í hug, hvort einstaklingsframtakið, sem skapað hefir þessa atvinnugrein, muni ekki einnig vera færast um að gera þær umbætur, sem nauðsynlegar eru.

Till. ætlast til, að nefndin sje skipuð samkv. 35. gr. stjskr. En sú gr. gerir efalaust ráð fyrir, að slíkar nefndir starfi einungis meðan þingið situr. Og athugi menn, hvað það er, sem á að rannsaka, verður það nokkurnveginn einsætt, að þingnefnd er ofvaxið að leysa slíka rannsókn af hendi. Að hugsa sjer, ef ætti að taka slíkt alvarlega, að þm. ættu að fara að rannsaka, með hverjum hætti væri hægt að gera rekstur togaraútgerðarinnar ódýrari! Þess væri síst að vænta, að hv. þm., að þeim ólöstuðum, gætu leyst slíka rannsókn sómasamlega af hendi, bæði vegna anna um þingtímann og vegna skorts á sjerþekkingu á þessum málum. Á hinn bóginn er mjer kunnugt um, að margir útgerðarmenn eru sífelt að gera slíka rannsókn. Jeg þekki t. d. útgerðarmann, sem skiftir við Íslandsbanka, sem beinlínis hefir það markmið að endurbæta útgerðarháttu alla, og hann hefir þegar gert margar þarfar nýjungar, og hann er altaf að finna nýtt og nýtt. Jeg verð því að halda, að þótt settir væru til þessa starfa menn úr þessari hv. deild, að slíkt myndi bera fremur ljelegan árangur.

Jeg vil að lokum endurtaka það, sem jeg sagði í byrjun ræðu minnar, að bak við þessa till. liggur þjóðnýtingarhugsunin; um það er ekki að villast. Orðalag greinarinnar og efni bendir skýlaust til þess. Hjer er þjóðnýtingarkenningin á ferðum. Og jeg skal segja það fyrir mitt leyti, að jeg er hræddur við þessa stefnu og jeg vil biðja hv. þdm. vel að athuga það, að því meiri ástæða er til að vera sjerstaklega á verði, þar sem forvígismenn stefnunnar hafa miklu stærri aðstöðu hjer á þingi en alment gerist, ráða miklu um úrslit mála og láta ekkert tækifæri ónotað til þess að læða inn áhugamálum sínum og flokksmálum, án þess að beri mikið á. Og eðlilegt er, að þeir reyni að koma að sínum áhugamálum, en hitt er ásökunarefni, ef hv. d. athugar ekki, hvert er verið að fara. Hv. flm., sem er mjög slyngur ræðumaður, mintist ekkert á þjóðnýtingu í sinni ræðu, en reyndi hinsvegar að læða þessu með lagni inn í huga manna, sem allir eru á móti nema jafnaðarmenn. Hvað sem annars verður um þetta mál, hvort sem það fer í n. eða ekki, þá verður að strádrepa þessa till., því að hún miðar fyrst og fremst að þjóðnýtingu togaranna; svo koma jarðirnar á eftir, og er þá lítið orðið úr friðhelgi eignarrjettarins.