06.04.1929
Neðri deild: 38. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (412)

106. mál, kynbætur hesta

Frsm. (Lárus Helgason):

Hv. þm. Barð. sagði, að óheppilegt væri að gelda hesta á tímabilinu frá 20. apríl til 14. maí. Þetta sannar einmitt okkar mál Það á að vera búið að því áður. Jeg vil fullyrða, án þess að hrósa mjer af nokkurri sjerþekkingu á þessu sviði, að það mun sjaldgæft, að þeir folar, sem óhæfir eru til vönunar 20. apríl, sjeu orðnir hæfir til þess 14. maí. Til þess þyrftu þeir þá að hafa nógan gróður eða bætt fóður. Þetta sannar einmitt rjettmæti frv. Þá talaði sami hv. þm. um það, að betra væri að vana, þegar hlýindi væru komin. En er það kannske ekki alveg sjálfsagt að hlynna að skepnunum, meðan þær eru í sárum? Og þá er tíminn hentugri fyrir en eftir 20. apríl.

Jeg þarf litlu að svara hv. þm. Borgf., umfram það, sem jeg hefi svarað hv. þm. Barð. Hv. þm. talaði um kostnaðarauka af frv. Jeg geri nú ekki mikið úr honum. En það er líka venjulegt, að umbótum fylgi einhver kostnaður. Víðast verður ekki um neinn kostnaðarauka að ræða. Hv. þm. sagði, að hrossaræktin væri ekki arðsöm, og er jeg honum þar samdóma. En helsta ráðið til að auka arðinn eru kynbætur, sem miða að því, að hver skepna gefi sem fylstan arð. Jeg orðlengi þetta svo ekki meira, en vænti, að frv. verði samþ. óbreytt.