09.04.1929
Neðri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Ingólfur Bjarnarson:

Jeg tek ekki undir þakklæti hv. 2. þm. Rang. til landbn. fyrir till. hennar að fella burt úr frv. ákvæðið um fóðurbirgðafjelögin. Jeg tel þvert á móti miklu lakara, ef það ákvæði er felt burt. Jeg hjelt, að allir væru sammála um það, að ef sauðfjárræktin á að vera í lagi, þá þurfi fullkomin fóðurtrygging að vera fyrir hendi. Og mjer þykir það undarleg skoðun, ef menn álíta, að fóðurbirgðafjelög, sem þá eru meira en nafnið tómt, leiði til djarfari ásetnings, á þann hátt að menn setji á birgðir fjelagsins, eins og hv. þm. hjelt fram, að ætti sjer stað. Þetta er máske reynsla hv. þm. En þannig er því ekki varið þar, sem jeg þekki til. Jeg held, að nefndin hafi haft of ríkt í huga einstök fjelög, þar sem mistök hafa orðið um þessi atriði. Þar, sem jeg þekki til, heimta fóðurbirgðafjelögin ákveðna lákmarksfóðurtryggingu af fjelagsmönnum, en hafa auk þess sameiginlegan fóðurforða. Jeg held, að þar, sem þessi mál eru komin í best og fullkomnast horf, sje fóðrun sauðfjár orðin því nær jafntrygg og nautgripa, enda á það líka og þarf svo að vera. Fyr getur sauðfjárræktin eigi talist vera komin í sæmilegt horf. Tel jeg, að þetta ákvæði í frv. geti og eigi að verða til þess að ýta undir stofnun fóðurbirgðafjelaga sem víðast á landinu, og væri það vel farið. Jeg tala hjer um fóðurbirgðafjelögin sem nokkurs virði, en ekki að þau sjeu einungis á pappírnum, eins og hv. 2. þm. Rang. vill telja, að þau sjeu. Þegar svo er komið, að fóðrun sauðfjár er orðin fulltrygg, þá virðist fátt mæla á móti, að sauðfjáreigendur geti fengið lán út á þennan bústofn sinn.

Jeg kann því illa við þá till. n., að heimta hreppsábyrgð sem viðbótartryggingu. Það virðist mjög ósanngjarnt, að bankinn skuli ekki mega lána gegn tryggingu í sauðfje, þar sem svo er ástatt, að bankastjórnin getur talið þá tryggingu fullgilda. Það er meira en ósanngjarnt; það er beinlínis óhæfa. Jeg verð að taka undir með hv 2. þm. Rang., að jeg skoða ákvæðið um, að ætíð skuli heimtuð hreppsábyrgð í þessu sambandi, afar óheppilegt, og mundi enda oft og tíðum lítils virði. Og kynleg er sú skoðun hv. frsm. eða hv. n., að hreppsábyrgð sje góð leið, en hitt ótækt, að bankastjórnin geti, ef hún vill, heimtað ábyrgð allra fjelagsmanna gegn vanskilum eins fjelagsmanns, því þetta sýnist mjer mundi í reyndinni verða eitt og sama og hreppsábyrgð, því að fóðurbirgðafjelögin ná víðast yfir allan hreppinn, og þá er sama, hvort ábyrgðin legst á hreppsbúa gegnum fjelagsskapinn eða hreppsnefndina.

Sem sagt ætla jeg ekki að eyða fleiri orðum um þetta atriði að sinni. Jeg legg áherslu á, að þetta ákvæði um fóðurbirgðafjelög sje mjög þarflegt, og jeg álít það mikinn spilli, ef það væri felt burt. (GunnS: Við viljum ekki hafa það sem skilyrði). Þar einmitt skilur okkur á. Jeg vil hafa þetta sem skilyrði, sjerstakl. með það fyrir augum, að það muni stuðla að almennum búfjártryggingum gegn fóðurskorti. Vil jeg biðja hv. þdm. að hafa þetta ríkt í huga.