03.05.1929
Efri deild: 60. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

106. mál, kynbætur hesta

Jón Jónsson:

Þetta litla frv. er breyt. á lögunum um kynbætur hesta. Það fer aðeins fram á að heimila atvmrn. að setja reglugerð til nánari skýringar á lögunum, en það stafar af því, að það kom í ljós við framkvæmd laganna, að það eru einstök atriði skilin nokkuð misjafnt úti um sveitirnar. Eitt atriðið er t. d. um það, hvernig eigi að jafna niður kostnaði við kynbætur. Það er gert ráð fyrir því, að kostnaðinum eigi að jafna niður á folaldafjöldann í hjeraðinu, en þá greinir menn á um það, hvort eigi að jafna niður eftir folaldafjöldanum á reikningsárinu eða næsta ár á eftir. Sömuleiðis er nokkur ágreiningur um það, hvort kynbótanefnd geti keypt kynbótahest án þess að bera það undir almennan sveitarfund; og svona er um ýms einstök atriði, sem nokkur ágreiningur hefir orðið um í einstökum sveitum. Eitt er t. d. um það, hvort hrossaræktarfjelag, sem allir hjeraðsbúar eru ekki í, geti verið laust við að taka þátt í kostnaði sveitarinnar í heild.

N. virðist þess vegna, eftir þessum upplýsingum, að það sje ástæða til að veita stj. heimild til að gefa skýringar um slík atriði, til þess að slá föstu einhverju um þau í eitt skifti fyrir öll. Af þessu leggur n. til, að frv. verði samþykt. Jeg skal geta þess, að það er flutt eftir beiðni ráðunautsins í hrossarækt, sem Búnaðarfjelag Íslands hefir. Skal jeg svo ekki fjölyrða frekar um málið, en aðeins óska þess, að hv. deild leyfi því að ganga fram.