21.03.1929
Neðri deild: 28. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

83. mál, lögreglustjóri á Akranesi

Flm. (Pjetur Ottesen):

Jeg hjelt, að það hefði komið skýrt fram í ræðu minni, og sömuleiðis sje það skýrt fram tekið í frv., að tilætlunin sje, að starfi þessa manns verði hagað þannig, að hann jafnframt lögreglustjórastarfinu hafi á hendi oddvitastörfin.

Um launin er það að segja, að upphæð sú, sem hjer er nefnd, er aðeins sá hluti launanna, sem ætlast er til, að greiddur verði úr ríkissjóði. En hitt leiðir af sjálfu sjer, að hreppsfjelagið greiðir sjálft fyrir þau störf, sem fyrir það eru unnin. Út af ummælum hv. 2. þm. Rang. um umr. þær, sem fóru fram hjer í fyrra í sambandi við frv. um bæjarstjórn á Norðfirði, vil jeg taka það fram, að við deildum ekki um það, að ekki væri nauðsyn á að breyta til á Norðfirði, heldur hitt, hvort nauðsyn bæri til að taka þar upp bæjarrjettindi í venjulegum skilningi. Jeg hjelt því þá fram, að það fyrirkomulag, sem hjer um ræðir, gæti komið Norðfjarðarbúum að fullum notum, en hv. 2. þm. Rang. því gagnstæða.