03.04.1929
Neðri deild: 35. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (447)

83. mál, lögreglustjóri á Akranesi

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Hv. 2. þm. Árn. byrjaði ræðu sína með því að segja, að sjer hefði ekki verið gert svo hátt undir höfði, að álits síns hefði verið leitað um þetta mál. Jeg var hissa á að heyra þessi ummæli frá hv. 2. þm. Árn. Þegar málið var tekið fyrir í n., vildi svo til, að þessi hv. þm. var ekki staddur hjer í bænum, heldur austur á Eyrarbakka. (MT: Jeg var þar í dag). Já, og það var einmitt þann dag, sem málið fjekk sína úrslitameðferð í n. Það er auðvitað æskilegast, að allir geti verið á nefndarfundum, en jeg fæ ekki sjeð, að ástæða sje til að fella niður nefndarstörf, þó að einhvern kunni að vanta. Því að það má hv. 2. þm. Árn. vita, að við erum ekki svo hræddir við hann, að við af þeirri ástæðu færum að flýta okkur að afgr. málið í fjarveru hans.

Hvað það snertir, að málið hefir verið tekið á dagskrá í dag, þá er það ekki mín sök, heldur hæstv. forseta, eða ef til vill forsetanna, og þá ætti hv. 2. þm. Árn. síst að vera að álasa fyrir það.

Þá var hv. 2. þm. Árn. að bera sig upp undan því, að sjer og hv. 2. þm. Reykv. hefði ekki unnist tími til að skrifa nál. um málið. Nál. okkar hinna, sem sátum þennan umrædda fund n., er dagsett 25. mars, svo að jeg fæ ekki betur sjeð en að þeir hafi haft nægilegan tíma fyrir sjer.

Viðvíkjandi aðfinslum hv. 2. þm. Árn. við frv. vil jeg benda á það, að hjer er alls ekki um það að ræða, að verið sje að færa út valdsvið hreppstjórans á Akranesi, heldur þvert á móti að fella starf hans niður. Hreppstjórastörfin eru orðin svo umfangsmikil á þessum stað, að við það fyrirkomulag verður ekki lengur unað. Hitt má vel vera, að svo sje ástatt víðar á landinu og að nauðsynlegt sje að endurskoða launalög hreppstjóranna, en til þess vinst ekki tími á þessu þingi. Það er að svo mörgu að starfa hjer nú, að ekki er á það bætandi.

Hv. 2. þm. Árn. vildi halda því fram, að óvíst væri, að á Akranesi væri meiri þörf á breyt. í þessa átt en víða annarsstaðar á landinu. Um það er erfitt að segja, en eins og allir vita, þá er Akranes fjölmennasta kauptún landsins, og það miklum mun fjölmennara en Nes í Norðfirði, sem gert var að kaupstað á þinginu í fyrra. Jeg hefi það fyrir satt, að á Akranesi sjeu mikil viðskifti, enda hlýtur svo að vera eftir fólksfjöldanum. Og eins og jeg drap á í minni fyrri ræðu, hefir núv. hreppstjóra þar fallið svo orð við mig, að hreppstjórastarfið væri fullkomið starf fyrir eldri mann, sem hann væri, eins og hann komst sjálfur að orði.

Hv. 2. þm. Árn. var óánægður með orðalagið á 3. gr. frv. og fanst það vafamál, hvaðan borgunin ætti að koma fyrir oddvitastörfin. En jeg fæ með engu móti skilið, að vafi geti leikið á þessu. Eins og kunnugt er, þá greiða hreppssjóðirnir allan kostnað við oddvitastörfin, og jeg tók það skýrt fram í minni fyrri ræðu, að það væri ekki tilgangurinn, að ríkissjóður legði fram meira en þessar 2000 kr., og af því leiðir, að oddvitastörfin eiga að greiðast úr hreppssjóðinum. Og þar sem rætt er um samning í niðurlagi 1. gr., er átt við það, að ríkisstj. skipi mann í þetta embætti, en hve launin verða mikil, er samkomulagsatriði milli ríkisstj., hreppsstjórnarinnar og mannsins sjálfs. Mjer finst því mótbárur hv. 2. þm. Árn. svo lítilfjörlegar, og jeg skal ekki trúa fyr en jeg tek á, að hann greiði atkv. móti frv. fyrir þær. Ef það á annað borð er viðurkent — og það gerði hv. þm. í sinni ræðu —, að sá staður, sem er jafnmargmennur og þessi. þurfi að fá breyt. á sinni stj., þá getur hann ekki verið á móti þessu frv. bara vegna þess, að það kunni að vera ástæða annarsstaðar til að hækka laun hjá oddvita eða hreppstjóra eða hvorumtveggja.