03.04.1929
Neðri deild: 35. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (450)

83. mál, lögreglustjóri á Akranesi

Pjetur Ottesen:

Jeg ætla ekki að blanda mjer inn í umr., sem orðið hafa milli allshn.-manna um afgr. þessa máls í n. Jeg vil bara þakka hv. meiri hl., sem afgr. hefir hjer nál., fyrir það, að hann hefir komið málinu áleiðis. Og jeg verð að segja, að mjer virðist ekki hafa verið viðhafður neinn sjerstakur flýtir á afgreiðslu þessa máls. Eins og kunnugt er, er liðinn nokkuð langur tími síðan málið var til 1. umr. Og venjulega hefir það verið á þann veginn, þegar menn hafa eitthvað haft við afgr. n. að athuga, þá hefir verið talað um seina afgr., en ekki hið gagnstæða.

Mjer þykir mjög vænt um, að þetta frv. hefir fengið jafngóðar undirtektir eins og raun ber vitni. Hv. 2. þm. Reykv. færði engar ástæður fyrir því, að hann væri á móti frv., og varð enda varla skilið, hvort hann væri í raun og veru á móti því eða ekki. Hann vitnaði aðeins í það, að komið hefðu fram till. á síðasta þingi um að vísa öðru máli hliðstæðu til stj. til nánari athugunar. En eins og kunnugt er, greiddu hann og hv. 2. þm. Árn. báðir atkv. móti því, að slík rannsókn skyldi gerð, eða að málið yrði athugað á þann hátt. Hv. 2. þm. Ám. fjelst fullkomlega á það, að nauðsyn mundi á sumum stöðum að gera breyt. á núv. fyrirkomulagi um sveitarstjórn og hreppstjórn. En hann vitnaði til þess aðeins, að þessa lagfæringu mætti e. t. v. gera á þann hátt, að breyta lögum um hreppstjóra með því að auka valdsvið þeirra, og einnig sveitarstjórnarlögum, og býst jeg við, að hann hafi átt við að bæta eitthvað launakjör oddvita. En jeg bendi hv. þm. á það, að þesskonar umbót mundi alls ekki koma að notum á þessum stað. Það mundi samt sem áður ekki verða að ræða um aðra en einhverja af borgurum staðarins til þess að taka að sjer þetta starf, en þar er ekki um að ræða aðra menn en þá, sem eru fullhlaðnir störfum fyrir. En svo er komið á Akranesi — eins og jeg hefi gert áður grein fyrir —, að bæði hreppstjórnarstarfið og oddvitastarfið er fullkomið starf fyrir einn mann, auk þess sem sá maður hefði innheimtu fyrir ríkissjóð á staðnum.

Það, sem hjer er um að ræða, er því einungis það, hvort eigi að fara þessa leið til þess að bæta úr erfiðleikunum, sem þarna eru orðnir, eða þá taka upp bæjarrjettindi. Eins og kunnugt er, hefir niðurstaðan á því að fá úr þessu bætt að undanförnu orðið sú, að tekin hafa verið upp bæjarrjettindi. Það er vitanlegt, að þetta fyrirkomulag hefir verið allkostnaðarsamt fyrir ríkissjóð, því að alt þangað til í fyrra hefir ríkissjóður orðið að borga að fullu laun viðkomandi bæjarfógeta. Raunar var svo ákveðið, þegar Siglufjörður fjekk bæjarrjettindi, að kaupstaðurinn greiddi laun bæjarfógeta að nokkru leyti, en þessu var skjótt breytt í það horf, að ríkissjóður greiddi launin að fullu. En á síðasta þingi var það aftur tekið upp, að viðkomandi kaupstaður borgaði launin að nokkru. Hinsvegar hefi jeg alstaðar sömu spurnirnar af því, að þar, sem bæjarrjettindi eru tekin upp, hafa útgjöld bæja vaxið ákaflega mikið. Og það er einmitt með þetta fyrir augum, að við viljum freista þess, að bæta úr þeim erfiðleikum, sem þarna eru fyrir hendi í þessu efni, án þess að íþyngja ríkissjóði að mun, og án þess að stofna til mjög aukinna útgjalda fyrir kauptúnið.

Það hagar því svo til þarna, að það er ekki um að ræða nema þær tvær leiðir, sem jeg nú hefi nefnt, til þess að ráða bót á ástandinu. Og jeg held sannast að segja, að þetta fyrirkomulag, sem hjer er lagt til að taka upp, sje svo einfalt og óbrotið, að það verði ekki gert óbrotnara, eða að því verði haganlegar fyrir komið, þótt málinu verði vísað til stj. til frekari undirbúnings.

Bæði hv. 2. þm. Árn. og hv. 2. þm. Reykv. þótti órannsakað mál, hvort ekki stæði líkt á í þessu efni í öðrum kauptúnum landsins. Í tilefni af því vil jeg benda á, að eftir manntalinu 1927 eru hin kauptúnin, þau sem fólksflest eru, ekki nema hálfdrættingar við Akranes, eða þar um, hvað fólksfjölda snertir. Af þessu leiðir, að Akranes hefir algera sjerstöðu, og hana svo greinilega, að samanburður við önnur kauptún hvað þetta snertir kemst ekki að. Hinsvegar er vitanlegt, að nú er á Akranesi a. m. k. eitthvað fleira fólk en í tveimur kaupstöðum hjer á landi. Það eru nokkuð fleiri íbúar þar en á Norðfirði og líklega 400 fleiri en á Seyðisfirði. Þetta er þess vegna ekki sambærilegt.

Hv. 2. þm. Árn. var að nefna Hólshrepp í þessu sambandi. Jeg get bent honum á, að þar eru rúm 600 manna, og hefir fólkinu fækkað þar síðustu árin. Á Akranesi hefir fólki aftur á móti fjölgað allmikið síðari árin. Og nú allra síðustu árin hefir einmitt sú breyt. orðið þar, að auðsætt er, að fólki fjölgar þar á næstu árum. Það er bæði af því, að aðstaða til fiskiveiða hefir breytst mikið og sömuleiðis aðstaðan til að reka landbúnað. Í þriðja lagi eru að verða þær breyt. í samgöngum milli efri hluta hjeraðsins og kauptúnsins, að verslun hjeraðsbúa hlýtur að aukast þar mikið í náinni framtíð.

Út af því, sem tekið var fram af hv. 2. þm. Árn. og hv. 2. þm. Reykv., að mig minnir, að bein viðskifti við útlönd væru þarna afarlítil, þarf jeg að segja fáein orð. Hv. 2. þm. Árn. ljet og orð falla um það, að þar væri ekki neinn vaður af ferðamönnum, eins og hann orðaði það.

Hvað verslunina við útlönd snertir, þá er þessi fullyrðing algerlega á ókunnugleika bygð, því að megnið af innfluttum vörum kemur þangað beint frá útlöndum, eða þannig, að tollur af þeim er innheimtur þar. Þegar frá eru teknar kartöflur og nokkur hluti sláturafurðanna, þá eru allar aðrar framleiðsluvörur kauptúnsins fluttar beint til útlanda. Og jeg get bent á það því til sönnunar, að atvinnuvegir eru í miklum vexti á Akranesi, að þaðan voru fluttar út árið 1927 vörur fyrir rúma eina miljón kr., en 1928 má gera ráð fyrir, að útflutningur verði a. m. k. 11/2 milj. kr.

Jeg held jeg þurfi ekki að svara fleiru, sem fram hefir komið um þetta mál. Hv. frsm. hefir svarað hv. 2. þm. Árn. skýrt um það, hver ætti að greiða lögreglustjóra fyrir þau störf, sem gert er ráð fyrir, að hann vinni fyrir hreppsfjelagið. Eins og hv. þm. benti á, er hjer um að ræða oddvitastarf, og það er vitanlegt, að oddvitum eru engin laun greidd úr ríkissjóði. Af því leiðir vitanlega, að hreppsfjelagið greiðir fyrir þetta starf. Hinsvegar hefi jeg ekkert á móti því að taka þetta nánar fram í frv. Annars hygg jeg þetta ákvæði vera fullskýrt, eins og hv. 1. þm. Skagf. benti á.

Það er þá ekki fleira, sem jeg hefi ástæðu til að svara í ræðum þeirra hv. 2. þm. Árn. og 2. þm. Reykv. Jeg vil þó að lokum árjetta það, að á þennan hátt fæst reynsla fyrir því, hvort ekki er hægt að bæta úr þörf þeirra kauptúna, þar sem ekki verður lengur unað við ákvæði sveitarstjórnarlaga um sveitarstjórnina og ákvæði hreppsstjórnarlaga hvað lögreglustjórn og innheimtu snertir. Jeg álít einmitt mjög mikils vert, að hægt sje að leysa þessi vandkvæði á þennan hátt; því að það eru vitanlega miklar búsifjar fyrir sýslufjelögin að missa kauptúnin út úr umboði sínu. Því að vitanlega leggja kauptúnin drjúgan skerf í sýslusjóð til sýsluvega og annara framkvæmda. Jeg veit, að fyrir Borgarfjarðarsýslu mundi slík skifting ekki heppileg. Jeg verð að segja, að frá sjónarmiði þeirra manna, sem telja nauðsynlegt að efla og bæta samgöngur hjeraðanna, þá er mjög óráðlegt að styðja að því, að kauptúnin slíti sambandi við sýslurnar.