03.04.1929
Neðri deild: 35. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í B-deild Alþingistíðinda. (453)

83. mál, lögreglustjóri á Akranesi

Pjetur Ottesen:

Hv. frsm. hefir nú svarað flestu því, er þörf er að svara í ræðu hv. 2. þm. Árn.

Jeg vildi aðeins bæta við nokkrum orðum út af þeim ummælum hv. 2. þm. Árn., að honum fyndist undarlegt, að hreppsnefnd Akraneshrepps ætti að semja við ríkisstj. um kaup það, er lögreglustjórinn á að fá fyrir oddvitastarfið. Þetta kemur til af því, að í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir, að stj. skipi lögreglustjórann. Áður en sú skipun fer fram, verður að sjálfsögðu að vera fengin vissa fyrir því, hverrar borgunar lögreglustjórinn má vænta fyrir þann hluta starfsins, er hann innir af hendi fyrir hreppsfjelagið. Að þessu lúta þau ákvæði frv., sem þessi hv. þm. var nú að fetta fingur út í. Þetta vildi jeg taka fram út af fyrirspurn hv. þm.

Hv. þm. sagðist verða að líta öðrum augum á frv. eftir að það hafi komið í ljós, að lögreglustjóri ætti að vera nokkurskonar samgöngubót fyrir sýsluna. Það, sem jeg sagði um sambandið milli fjölmennra kauptúna og annara sýsluhluta, á vitanlega ekki frekar við á einum en öðrum stað, þar sem svo stendur á. Og jeg hjelt satt að segja, að jeg þyrfti ekki að upplýsa gamlan sýslumann um það, hvaða þýðingu það hefir fyrir sýslufjelögin að hafa fjölmenn kauptún innan síns lögsagnarumdæmis. En mjer þykir vænt um, að þetta ljós skyldi renna upp fyrir honum, og að það, sem hann áður hafði haft við frv. að athuga, skyldi algerlega verða að engu í þessu nýja ljósi.