29.04.1929
Efri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í B-deild Alþingistíðinda. (461)

83. mál, lögreglustjóri á Akranesi

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Allshn. hefir orðið sammála um, að þetta frv. eigi fram að ganga. Jeg vil taka það fram fyrir mína hönd, að þó að jeg sæi ekki ástæðu til að leggja á móti því, þá tel jeg hjer vera gengið inn á varhugaverða braut. Jeg minnist þess, að þegar frv. um bæjarstjórn í Neskaupstað í Norðfirði var hjer á ferðinni þing eftir þing, þá var það ein ástæðan, sem beitt var gegn því, að með því væri stigið nýtt spor til útgjaldaauka fyrir ríkissjóð. Því er ekki hægt að neita, að svo mun verið hafa. En með þessu frv. er stofnað til mjög svipaðs kostnaðar fyrir ríkissjóð eins og orðið hefir við að veita Neskaupstað bæjarrjettindi. Það mun óhætt að telja hann mjög lítið minni. En það vantar mikið til, að náð sje samskonar hagsmunum með þessu frv. og hinum lögunum. Það liggur í því, að þótt þetta frv. verði samþ., þá verður Ytri-Akraneshreppur í sambandi við sýsluna eftir sem áður og greiðir sitt gjald til hennar, en þar af leiðir, að jeg er hræddur um, að þeir hagsmunir, sem hreppurinn nýtur af þessu frv., verði miklu minni en verða mundi með bæjarstjórnarfyrirkomulaginu. Hins er ekki að dyljast, að þarfirnar um bæjarstjórnarfyrirkomulag á Akranesi eru ekki orðnar eins brýnar og á Nesi í Norðfirði, og þyrfti að bíða lengi eftir því. En jeg er þess alveg fullviss, að það líða ekki mörg ár þangað til Akranes fer fram á að fá fullkomna bæjarstjórn. Jeg skal ekki segja um hve langur tími það muni verða, en jeg hygg, að það fari mjög eftir því, hvernig samkomulagið verður á milli hreppsnefndar Ytri-Akraneshrepps og sýslunefndar Borgarfjarðarsýslu. Mig grunar, að sýslusjóðsgjald hreppsins nemi alt að 1/4 af öllum sýslusjóðsgjöldum, og svo lengi sem Ytri-Akraneshreppur þykist ekki í neinu afskiftur, getur verið gott samkomulag, en það kemur bráðlega að því, að Akranes fer fram á að fá bæjarrjettindi, og jeg álít líka, að þegar þörfin er orðin brýn fyrir slíkt fyrirkomulag, þá sje ekki rjett að standa á móti því.

En það er annað, sem jeg þykist sjá að leiði af þessu frv., og það er það, að það verða ekki svo fáir hreppar hjer á landi, sem hafa möguleika til að fara fram á hið sama. Mjer dettur fyrst í hug Húsavík í Þingeyjarsýslu, en það stendur reyndar alveg sjerstaklega á með hana, vegna þess að sýslumaðurinn er þar búsettur, svo jeg býst við, að hægt verði með nokkurnveginn sæmilegum rökum að standa á móti því, að hún þurfi að fá bæjarrjettindi. En það eru ýms önnur sjávarpláss, t. d. Búðir í Fáskrúðsfirði, Hólshreppur (Bolungarvík) í Ísafjarðarsýslu o. fl., og jeg sje þá ekki annað en að það mæli öll sanngirni með því, að líkt yrði að farið á þeim stöðum, svo að jeg vildi þá nú um leið benda á, að það er orðið ákaflega lítið úr þeirri meginröksemd, sem notuð var gegn bæjarrjettindum handa Neskaupstað, nefnilega kostnaðinum, ef þetta verður samþ. Það hlýtur að verða aukinn kostnaður við það, en ríkið verður að taka þann kostinn, sem þjóðskipulagið krefst.

Þó n. væri sammála um það, að þetta frv. fái að ganga fram, þá var hún ekki fyllilega sammála um að láta það ganga fram óbreytt. Meiri hl. n. leggur til, að á 1. gr. frv. verði gerð sú breyt., að í staðinn fyrir orðin „samkvæmt tillögum“ komi „að fengnum tillögum“. Þetta virðist ekki vera mjög stór brtt., en hún veldur töluvert miklu, vegna þess, að eftir því sem frv. hljóðar nú, þá er það svo, að ríkisstj. skipar ekki þennan lögreglustjóra á Akranesi, ef þetta stendur óbreytt í frv., þá ræður ríkisstj. engu um það, hvaða maður verður skipaður. Þetta mun ekki vera alment um þá menn, sem taldir eru starfsmenn ríkisins, en hann verður að teljast það, því að þótt frv. geri ráð fyrir, að hreppsnefndinni sje heimilt að velja þann mann fyrir oddvita, þá er það ekki nein skylda, og hvergi nærri víst, að það verði gert, þótt sennilegt sje að svo verði. Þess vegna vill n., eða meiri hl. hennar, gera þá breyt. á frv., sem jeg gat um áðan. Meiri hl. n. vill ekki ganga lengra en það, að hreppsnefndin í Ytri-Akraneshreppi hafi tillögurjett um lögreglustjórann, en ekki rjett til að skipa hann óbeinlínis. Mjer finst það vera ofureðlilegt, því að jeg hygg, að engum hafi dottið það í hug, þegar verið var að ræða um bæjarfógeta í Neskaupstað, að það ætti að vera hreppsnefndin þar, sem tilnefndi hann; var þó ekki síður ástæða til þess þar, því að í þeim lögum er kaupstaðnum gert að skyldu að greiða meira af launum hans en ríkissjóður. Ríkissjóður greiðir af launum hans 1500 kr. og dýrtíðaruppbót þar af, en hreppsfjelagið 3000 kr. með dýrtíðaruppbót. Þó datt engum í hug að fara fram á, að það ætti að vera hreppsnefnd Neshrepps, sem veldi manninn. Þetta er því alveg nýtt; veit jeg ekki til, að það hafi komið fyrir áður. Getur meiri hl. n. ekki sjeð neina ástæðu til þess og telur nægilega mikið tillit tekið til óska hreppsnefndar með því móti, að hún hafi tillögurjett, og jeg fyrir mitt leyti legg það mikla áherslu á þetta ákvæði, að komist það ekki að, þá mun jeg ekki sjá mjer fært að greiða frv. atkv., því að jeg tel, að það væri að ganga inn á alveg ranga braut, sem jeg tel mjög varhugavert fyrir þingið að ganga inn á.