29.04.1929
Efri deild: 56. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í B-deild Alþingistíðinda. (465)

83. mál, lögreglustjóri á Akranesi

Halldór Steinsson:

Mjer finst það dálítið einkennileg röksemdafærsla hjá hv. 2. þm. S.-M., þar sem hann hjelt því fram, að eftir frv. eins og það væri úr garði gert væri auðsætt, að það fengist enginn hæfur maður í þetta embætti, vegna þess hvað það væri illa launað. Hv. þm. verður að athuga það, að þetta frv. er fram komið fyrir almenna ósk hreppsbúa, en sú ósk er sprottin af megnri þörf til að bæta úr því ástandi, sem nú ríkir þar. Hreppsbúar finna vel, að við það ástand er ekki unandi til lengdar, og þess vegna hafa þeir vitanlega gert sjer það ljóst, hvern kostnað þeir verða að bera fyrir breytt fyrirkomulag. Þeir gera ekki ráð fyrir, að þeir fái nokkurn mann til að gegna þessum störfum fyrir 2000 kr.; þeir gera sjálfsagt ráð fyrir 3000 kr., og ef til vill meiru. Þess vegna er þetta ekki nema fyrirsláttur hjá hv. þm., að þetta geti orðið málinu að falli, hve lítil laun eru ákveðin. Hreppsbúar hafa gert sjer ljóst, að þeir þurfa að leggja fram allmikla fjárupphæð til þessa embættismanns, auk þeirra launa, sem ríkissjóður greiðir. Þess vegna held jeg, að þetta í sjálfu sjer geti ekki verið nein ástæða á móti frv., og ef það er svo, að það megi slá því föstu, sem jeg hygg, að Ytri-Akraneshreppur greiði að minsta kosti heldur meiri upphæð til launanna heldur en ríkissjóður greiðir, og jafnvel mun meiri upphæð, þá er ekki nema sanngjarnt, að hann hafi meiri íhlutunarrjett um skipun þessa manns, sem þarna verður lögreglustjóri, heldur en ríkisvaldið.