12.03.1929
Neðri deild: 20. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Eins og nál. ber með sjer þá hefir n. klofnað og minni hl. komið fram með breyt. á frv., þó hann gangi ekki alveg á móti því. Mun hann gera grein fyrir sínu áliti sjerstaklega.

Stj. mun hafa átt frumkvæði að þessu frv., vegna ósamræmis, sem á sjer stað í núgildandi kosningalögum. En úr því að farið var að hreyfa við löggjöfinni á annað borð, mun henni hafa þótt rjett að nota tækifærið til að koma um leið fram fleiri breyt. á lögunum, svo sem rýmkun kosningarrjettar í lýðræðisáttina. Samkv. frv. færist aldurstakmarkið úr 25 árum niður í 21 ár. Þessi kosningarrjettaraldur er kominn á í öllum nágrannalöndunum, en er nú í fyrsta sinn settur inn í löggjöf hjer á landi. Önnur breyt. er í því fólgin, að menn, sem þiggja af sveit. fá að halda kosningarrjetti sínum óskertum, án þess að eiga þar undir ákvörðun pólitískra sveitarstjórna. Þriðja breyt. er á þá leið, að allir bæjarfulltrúar skulu kosnir í einu fjórða hvert ár, og auk þeirra varafulltrúar. Kosning varafulltrúa er nauðsynleg sparnaðarráðstöfun, til þess að ekki þurfi að efna til nýrra kosninga, ef aðalfulltrúi deyr eða forfallast. Þessu er eins fyrir komið og við landskjör þingmanna. Kosturinn við það að kjósa alla bæjarfulltrúana í einu er aðallega sá, að með því fyrirkomulagi geta minstu flokkarnir notið atkvæða sinna og komið að fulltrúum, þó að, þeim sje það ómögulegt undir núverandi fyrirkomulagi. Gert er ráð fyrir, að kosið verði í fyrsta sinn samkv. þessum l. árið 1930, svo að nýju kjósendurnir fái þá þegar tækifæri til að neyta kosningarrjettar síns.

Auk þeirra breyt., sem jeg nú hefi nefnt, er ætlast til, að borgarstjóri sje kosinn af bæjarstjórn, í stað þess að hann nú er kosinn af bæjarbúum. Þetta er nauðsynleg breyt., þar sem svo verður að líta á, að borgarstjóri sje ekkert annað en framkvæmdarstjóri bæjarstjórnar. Það er mjög óheppilegt að skapa tvenskonar vald til framkvæmda í bæjarmálum, eins og nú getur átt sjer stað, bæjarstjórn og borgarstjóra, sem hvorugt lúti öðru og geti stefnt sitt í hvora áttina. Loks er ákveðið, að bæjarstjórn Reykjavíkur megi kjósa tvo borgarstjóra og skifta störfum núv. borgarstjóra á milli þeirra. Borgarstjórastarfið í Reykjavík er nú orðið svo umfangsmikið og margþætt, að engin vanþörf væri á slíkri greiningu. Borgarstjóri hefir nú í sinni þjónustu sjerstakan skrifstofustjóra, auk gjaldkera og ýmissa sjerfræðinga. En í bæjarstjórninni hefir það oft komið til orða að skifta embættinu í tvent, og jafnvel að stofna bæjarráð í stað þeirra fastanefnda, er bæjarstjórnin nú kýs. Til þessara nefndastarfa fer mikill tími, og bæjarfulltrúarnir, sem sitja í nefndunum, eiga örðugt með að kynna sjer nógu vel málin til framkvæmda. Veitti því ekki af sjerstöku ráði til að annast þessi störf. í frv. er gefin heimild til að fara í þessu efni að dæmi erlendra borga.

Flestar aðrar breyt. frv. á gildandi lögum eru aðeins til þess að samræma þær breyt., sem jeg nú hefi lýst, við gildandi lög.

Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. með tveimur minniháttar brtt. Fyrri brtt. er við 8. gr.gr. ákveður, að kosning hreppsnefnda skuli fara fram á vorhreppaskilaþingi, en í brtt. er ákveðið, að kosning megi fara fram að haustinu. Er þessi brtt. borin fram vegna þess, að í sumum hreppum er hentugra að kjósa hreppsnefndir á haustin en vorin. Verður aðalfundur hreppsbúa að gera þessa samþykt, en hreppsnefnd getur það eigi upp á sitt eindæmi.

Hin brtt. er við 13. gr. frv. og getur tæplega talist efnisbreyting; hún er aðeins fólgin í því, að gert er ráð fyrir fleiri en einum lista, er fram kunni að koma til kjörstjórnar í tæka tíð við bæjarstjórnarkosningar, þar sem ekki sjeu fleiri á listum en á að kjósa, og kjörstjórn tekur því gilda.