12.03.1929
Neðri deild: 20. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (509)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg vil leyfa mjer að þakka hv. n. fyrir skjóta og góða afgr. þessa frv. Og þó að n. hafi ekki orðið sammála um afgr. málsins í heild, þá hefir það komið fram, og nú síðast í ræðu hv. frsm. minni hl., að einnig sá nefndarhluti gengur inn á það, að það á sjer stað ósamræmi í löggjöfinni um kosningar í málefnum sveita og kaupstaða, sem verður að laga.

Út af orðum hv. frsm. seinast í sinni ræðu um ósamræmið í lögunum og hvernig það hefði komist á, vil jeg aðeins bæta því við, að það ósamræmi byrjaði mjög skýrt í tíð hans sem atvmrh. Það var í hans tíð, að tvennar kosningar fóru fram samtímis í jan. 1927, önnur í Reykjavík, hin á Ísafirði, og kosið var með alveg ólíkum hætti í hvorum stað. Jeg áfellist þetta ekki, og get játað, að í þeim úrskurðum, sem gerðir hafa verið í atvinnumálaráðuneytinu í minni tíð, hefir verið farið eftir þeirri grundvallarreglu, sem hv. 1. þm. Skagf. byrjaði á, nefnilega að láta meiri hl. bæjarstjórnanna ráða, hvernig lögin yrðu framkvæmd, af því að ekki er hægt að fara að öllu leyti eftir bókstaf laganna.

Áður en jeg vík að einstökum atriðum, ætla jeg aðeins að víkja að síðustu orðum hv. frsm. minni hl. Hann sagði, að það væru sjerstaklega jafnaðarmenn, sem fengju allar sínar óskir uppfyltar með frv., og að þessar kosningar gæfu jafnaðarmönnum byr undir báða vængi. Ja, — það er þá bara af því, að hv. 1. þm. Skagf. álítur, að jafnaðarmenn eigi svo miklu meira fylgi að fagna hjá hinni ungu kynslóð. (HV: Rjett). Jeg verð að játa, að orð hv. 1. þm. Skagf. lýsa svo miklu vantrausti á hans eigin flokki og hans málefni, ef hann trúir því, að unga fólkið frá 21–25 ára muni einhliða fylkjast undir merki jafnaðarmanna. Jeg álít þetta fyrir minn flokk í öllum kringumstæðum gott, bæði að svo miklu leyti sem hann á fylgi í kauptúnum og eins gagnvart fylgi hans í sveitunum. Jeg hefi þá trú á þeim málstað, sem hann berst fyrir, að hann þurfi ekki að óttast unga fólkið. En hv. þm. má vita það, að ef honum og hans flokki stendur svona mikill ótti af ungu kynslóðinni, þá er stefna þess flokks dæmd. (MG: Má jeg skjóta inn í? Þetta er eina ákvæðið, sem minni hl. var ekki á móti). Hvað skyldi það þá vera, sem hv. þm. telur svo hættulegt? Að láta kjósa alla í einu er ekki annað en að láta hlutfallskosningu njóta sín fullkomlega og auka rjettlæti. Það væri æskilegt, ef hv. þm. vildi gera nánari grein fyrir þessum ótta sínum, — þó að mjer komi það auðvitað ósköp lítið við, hvernig þeir bítast einhversstaðar í bæjum, hv. 1. þm. Skagf. og hv. jafnaðarmenn. Jeg læt mig það mjög litlu skifta.

Þá vil jeg aðeins geta þess um brtt., sem meiri hl. flytur við frv., að við þær hefi jeg ekkert að athuga. Að vísu heyrði jeg ekki upphaf ræðu hv. frsm. meiri hl., en út frá því, sem jeg heyrði, býst jeg ekki við tilefni til aths.

En út af ræðu hv. frsm. minni hl. vildi jeg svo gera nokkrar aths. Hann hafði talsvert út á það að setja, að það væri ekki lengur skilyrði fyrir kosningarrjetti, að menn stæðu ekki í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk, og komst inn á það, að hann taldi verið að gefa slæpingjum og drykkjumönnum kosningarrjett. Hann fór allmörgum orðum um það, að þeir, sem ekki kunni fullkomlega að stjórna sínum eigin fjárhag, þannig að þeir yrðu vel efnum búnir, þeir ættu ekki að mega hafa áhrif á, hvernig hag bæjarfjelagsins sje stjórnað. Þessi mælikvarði getur leitt út í miklar öfgar. Það eru sumir af mætustu og mestu mönnum þessa lands, sem hafa átt við mjög þröngan fjárhag að búa, og það svo, að legið hefir við gjaldþroti. Jeg get nefnt merkasta búnaðarfrömuðinn á öldinni, sem leið, Torfa í Ólafsdal, og Jón Sigurðsson merkasta stjórnmálamanninn af öllum. Ef hv. þm. vill yfirleitt fara að verða mjög strangur í þessu efni og heimta af mönnum mikil efni til að mega vera afskiftasamir um opinber mál, þá geta afleiðingarnar orðið mjög óþægilegar. Jeg fyrir mitt leyti álít það blett á löggjöf okkar, að menn, ef til vill vegna óviðráðanlegra atvika, missi kosningarrjett. Hitt er rjett, sem hv. frsm. minni hl. drap á, að hjer er tiltölulega um mjög fáa menn að ræða. Einmitt þess vegna álít jeg, að þetta ákvæði eigi ekki að sjást í löggjöfinni.

Nokkur smáatriði nefndi hv. þm. Hann vildi ekki láta umboð niður falla 1930. En sje það ekki gert, þá verður árekstur, og það verður ekki hægt að framkvæma bæjarstjórnarkosningu í Reykjavík fyr en búið er að breyta lögunum. Hann var á móti því að stytta kjörtímabilið. En það stendur í nánu sambandi við hitt, að kjósa alla í einu. Það er ekki óeðlilegt að hafa kjörtímabilið sex ár, þegar á að endurnýja helminginn aðeins við hverja kosningu. Alt annað mál er, þegar kjósa á alla í einu.

Þá taldi hv. frsm. minni hl. óskýrt ákvæðið um leyfi til að skorast undan kosningu, hvort það næði til varamanna eða ekki, og spurði mig, hvernig jeg liti á það. Jeg er enginn lögfræðingur að vísu, en mjer skilst þetta atriði vera skýrt í 3. gr. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Þeim, er setið hafa samfleytt 4 ár í bæjarstjórn eða 6 ár í hreppsnefnd eða lengur, er þó óskylt að taka við kjöri fyr en jafnlangur tími er liðinn síðan hann átti þar síðast sæti“.

Mjer skilst þetta þýða það, að varamenn hafi því aðeins rjett til að skorast undan, að þeir hafi setið í bæjarstjórn. Frá mínu leikmannssjónarmiði lítur þetta svo út, að ekki sje um aðra að ræða en þá, sem starfað hafa í bæjarstjórn.

Hv. frsm. minni hl. gat þess ennfremur, að ákvæði frv. um kosningu borgarstjóra og bæjarstjóra stefndi ekki í lýðræðisáttina. Jeg er því sammála. Og þar með sjer hv. frsm., að meiningin með þessu frv. er ekki það, að stefna einhliða í lýðræðisátt, heldur það, að koma á því skipulagi, sem stj. álítur rjett og affarasælast. Stj. lítur svo á, að aðstaða borgarstjóra gagnvart bæjarstjórn sje hin sama og aðstaða ráðherra gagnvart Alþingi. Og þar sem það er sjálfsagt, að þingið tilnefni ráðherra, en þeir sjeu ekki kosnir um land alt, þá sje svipað farið í eðli sínu um borgarstjóra og bæjarstjóra. Sama gildir um það, að hreppsnefnd, en ekki hreppsbúar, kýs hreppsnefndaroddvita. Eins og jeg benti á við 1. umr., þá geta orðið óþægilegar afleiðingar af hinu skipulaginu. Vel getur bæjarstjóri verið í ósamræmi við meiri hl. bæjarstjórnarinnar, og er það með öllu óhafandi.

Þá gat hv. frsm. minni hl. þess, að búið væri að velja borgarstjóra í sumum bæjum til lengri tíma, og yrðu þeir að sleppa stöðunni áður en ráðningartími þeirra væri úti, mundu bæjarstjórnirnar verða að greiða full laun. Þetta má vel vera, en mjer finst þetta að nokkru leyti vera einkamál bæjarstjórnanna og það sje á þeirra valdi, hvernig þær ráða fram úr þessu. Annars mætti athuga þetta atriði nánar til 3. umr. og bera þá fram brtt., ef mönnum sýndist svo, að rjettara væri að tiltaka það í lögunum, að núverandi borgarstjórar gegndu starfi sínu þar til ráðningartími þeirra væri útrunninn.

Að málaferli gætu orðið út af því, ef núverandi borgarstjórar yrðu leystir frá starfinu áður en ráðningartími þeirra væri úti, finst mjer í sjálfu sjer ekki svo athugavert. Það er ekki lengra á að minnast en að hv. 1. þm. Skagf. hefir núna þessa dagana tapað máli, sem hann flutti fyrir hæstarjetti um líkt atriði. (MG: Það er ekki sama). Nei, jeg skal játa, að það var ekki sama að efni til, en þó mjög hliðstætt, og hv. þm. tapaði því hreinlega. En með þessum dómi er þá líka kunnugt orðið, hvernig hæstirjettur lítur á slík mál.

Að lokum hafði hv. frsm. minni hl. ýmislegt að athuga við kærufrestinn. Jeg býst nú við, að hann sjái, ef hann gáir betur að, að það sje ekkert óeðlilegt, þó að þetta atriði sje sett inn í lögin, því þar sem kjósa á alla bæjarstjórnina í einu, má ekki leika vafi á nema sem allra stystan tíma, að kosningin sje gild. Áður, á meðan bæjarstjórn var kosin í þrennu lagi, var hún altaf starfhæf og kom ekki að sök, þótt nokkum tíma tæki að úrskurða um gildi kosninga. En eftir að hún er kosin öll í einu lagi, er nauðsynlegt að hafa allan hraða á í þessu efni.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara að deila við hv. frsm. minni hl. um úrskurð þann, er jeg feldi um bæjarstjórnarkosningarnar á Akureyri nú fyrir skömmu. Jeg er ekki lögfróður maður og deili því ekki við lögfræðinga um slík mál. En jeg leitaði til manna, er betra vit hafa á þessu en jeg, og á áliti þeirra og lögskýringum bygði jeg úrskurð minn.

Jeg held, að það sjeu ekki fleiri atriði í ræðu hv. frsm. minni hl., er nokkru máli skifta eða ástæða er til að svara. Vænti jeg svo góðrar afgreiðslu um þetta mál.