12.03.1929
Neðri deild: 20. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Hæstv. atvmrh. hefir svarað hv. frsm. minni hl. svo rækilega, að jeg þarf eiginlega litlu við að bæta.

Hv. minni hl. segist ekki vera á móti 1. gr. frv., en af orðalaginu í nál. þeirra fjelaga virðist mega ráða það, að þeir sjeu ekki sjerstaklega meðmæltir 1. gr. Enda sagði hv. frsm. minni hl., að hann væri að minsta kosti á móti því, að allir þeir, sem þegið hafa sveitarstyrk, fái kosningarrjett. Það þarf eflaust engan að furða á þessu, sem man, hvaða undirtektir slík mál hafa fengið hjá hv. 1. þm. Skagf. á meðan hann var ráðherra.

Andstaða gegn þessu frv., sem hjer liggur fyrir, hefir aðallega komið frá andstæðingum hæstv. stj. Og eitt af því, sem stjórnarandstæðingar finna frv. til foráttu, er það, að heppilegt sje, að bæjar- og sveitarstjórnir skuli ákveða, hverjir þeirra, sem fengið hafa sveitarstyrk. hafi kosningarrjett og hverjir ekki. Þessi grein fátækralaganna er enn í gildi, en ómögulegt að vita, hvernig hún gefst enn sem komið er úti um land alt. Slíku ákvæði má náttúrlega misbeita á ýmsan hátt af hinu pólitíska valdi sveitarstjórna, og þótt sagt sje, að með þessu sje hægt að girða fyrir, að ónytjungar og letingjar hafi kosningarrjett, þá verður dómur sveitarstjórna í þeim málum varla einhlítur. Enda yrði þá aðeins gerður greinarmunur milli slíks fólks eftir því, hvort það sje fátækt eða ríkt, þannig að ef peningana vantar ekki, þá verði kosningarrjetturinn ekki af mönnum tekinn. Slíkur greinarmunur er ranglátur og er rjett að láta í því efni eitt yfir báða ganga, fátæka og ríka, enda er hægt nú að svifta ónytjunga fjárráðum með öllu, og er sú leið ólíkt eðlilegri til þess að hafa hemil á þeim.

Hv. frsm. minni hl. mintist lítið á 21 árs kosningarrjettinn, og er það skiljanlegt. Hann hefir verið móti slíkum till. áður og mun að líkindum vera það enn, þó hann þykist nú ætla að greiða atkv. með 1. gr. eins og hún er í frv. En á móti öllum öðrum gr. frv. eru þeir báðir, hv. 1. þm. Skagf. og hv. þm. Barð.

Annars vildi jeg segja, að jeg fyrir mitt leyti mundi geta fallist á að stytta kjörtímabilið úr 4 árum niður í 3 ár. örar breyt. á stjórnmálum gætu orðið þess valdandi, að mikil þörf væri á því, einkum þó í bæjunum, að kosningar færu fram á 3 ára fresti. En um þetta liggur ekkert fyrir, og þar sem öll bæjarstjórnin á að verða kosin í einu lagi og til 4 ára í senn, verður að telja það framför frá því, sem nú er, að kjósa helming 3. hvert ár. Með því móti tekur það 6 ár að ná meiri hluta um einstök mál, en eftir þessu frv. er þó hægt að skifta um á 4 ára fresti.

Hv. þm. var að gefa í skyn, að Íhaldsflokkurinn gæti tapað við að öll bæjarstjórnin væri kosin í einu. Þetta getur vel verið, en það getur líka hugsast það tilfelli, þar sem tveir aðalflokkar eru nú í bæjarstjórn, að ekki aðeins annar þeirra tapi við breytinguna, heldur jafnvel báðir, því að upp rísi þriðji flokkurinn, sem til sje í bænum, en hafi ekki áður haft afl til þess að koma manni að í bæjarstjórn og komi að t. d. 2 fulltrúum. í þessu sambandi mintist frsm. minni hl. á Neskaupstað í Norðfirði, sem nýbúinn er að fá bæjarrjettindi og bæjarstjórn. Ef hann hefir með því verið að tala fyrir sinn flokk sjerstaklega, þá held jeg, að hann hafi þar ekki miklu að tapa, því jeg veit ekki annað en að Íhaldsflokkurinn í Neskaupstað hafi við bæjarstjórnarkosningarnar í vetur aðeins fengið einn eða tvo menn talsins. En frá hálfu hinna flokkanna, sem sigruðu, er varla um eigingirni að ræða, þó að þeir leggi með því, að nýjar kosningar fari fram á næsta ári.

Enda er það ekki nema í alla staði eðlilegt, þegar fjöldi nýrra manna fær kosningarrjett, að þeim sje gefinn kostur á að neyta þess rjettar sem allra fyrst, svo að breyting sú, sem gera má ráð fyrir, að verða kunni á bæjarstjórnunum við það, að fjöldi nýrra manna fær að kjósa, komi sem fyrst í ljós.

Þá sagði hv. frsm. minni hl., að við jafnaðarmenn færum í þveröfuga átt við lýðræðisstefnu okkar með því að fallast á, að borgar- eða bæjarstjóri skuli hjer eftir kosinn af bæjarstjórn, en ekki af kjósendum bæjanna, eins og nú tíðkast, og skildist mjer ekki betur en að hæstv. atvmrh. ljeti þetta að nokkru leyti gott heita.

En jeg get ekki fallist á, að þetta fari að neinu leyti í bág við stefnu okkar jafnaðarmanna. Meira að segja held jeg, fyrir mitt leyti, að það muni reynast heppilegra til frambúðar, að bæjarstjórnin sjálf velji borgarstjóra heldur en að almenningur kjósi hann. Eins og þessu er háttað nú, er það vel hugsanlegt, að sá borgarstjóri geti risið upp, sem fari sínar eigin götur, án þess bæjarstjórn viti, og jafnvel getur borgarstjórinn farið svo langt í einræði sínu, að hann fari beinlínis á móti till. bæjarstjórnar. Og sjeð frá bæjardyrum okkar jafnaðarmanna í bæjarstjórn Reykjavíkur, þá er það kunnugt um núverandi borgarstjóra, að hann hefir í mörgum málum tekið sjer fult einræði í bæjarmálum, eins og dverg-Mussolini. Borgarstjórinn á vitanlega að framkvæma það, sem bæjarstjórn skipar fyrir um. En jeg gæti nefnt þess mörg dæmi, að þetta er ekki gert hjer í Reykjavík. Hinsvegar má gera ráð fyrir, þegar borgarstjórinn er kosinn af meiri hl. bæjarstjórnar, að hann mundi telja það skyldu sína að framkvæma alt það, sem bæjarstjórnin skipar fyrir um. Fulltrúarnir í bæjarstjórn framkvæma vilja bæjarbúa, og í samræmi við það á borgarstjórinn að haga sínum framkvæmdum. Þetta ákvæði frv. er því fullkomlega í anda lýðræðisins. Enda skal jeg bæta því við, að það eitt út af fyrir sig, að borgarstjóri, sem ekki er jafnframt bæjarfulltrúi, skuli hafa atkvæðisrjett, er þvert á móti lögmáli því, er hlutfallskosningar byggjast á. Með því er meiri hlutanum gefið eitt atkvæði í hvaða máli sem er, og getur það oft riðið baggamuninn.

Annars verð jeg að segja það, að mjer þótti það undarleg ályktun hjá hv. frsm. minni hl., er hann hjelt því fram, að ákvæðið um að kjósa alla bæjarfulltrúana í einu væri sett í frv. með tilliti til jafnaðarmanna. Miðað við þá atkvæðatölu, sem jafnaðarmannaflokkurinn fjekk við síðustu kosningar, er ekki líklegt, að hann bæti við fulltrúatölu sína þegar á næsta ári. En hitt er vitanlega rjett, að vaxandi flokkur hefir von um að geta bætt við sig síðar og bíður því betra tækifæris. En það er um annan flokk að ræða, sem segja mætti um, að þetta væri gert fyrir. Það er frjálslyndi flokkurinn, og þó að hann sje í andstöðu við jafnaðarmannaflokkinn og megi teljast fámennur, þá á hann þó rjett á að fá fulltrúa að tiltölu við hina flokkana. Þess vegna vænti jeg, að hv. þm. sjái og viðurkenni að þetta sje rjett, og þó að við jafnaðarmenn fylgjum þessu, að þá. sje það alls ekki í gróðaskyni gert eða til þess að fjölga okkar fulltrúum, heldur aðeins vegna þess, að við fylgjum yfirleitt jafnrjetti allra í þjóðmálum.

Þá varð hv. frsm. minni hl. tíðrætt um, að erfitt mundi fyrir suma kaupstaðina að losa sig við núverandi borgar- eða bæjarstjóra, af því að þeir væru ráðnir til lengri tíma, og nefndi í þessu skyni Akureyri og kaupstaðina á Austurlandi. Um þetta er náttúrlega engu að spá, en nefna mætti þó sem dæmi, að Alþingi hefir litið svo á, að það hefði vald til að gera slíkar skipanir, eins og t. d. í fyrra, er hv. 1. þm. Reykv. (MJ) varð nauðugur viljugur að hröklast úr bankaráði Landsbankans, vegna þeirra breytinga, er þingið gerði þá á lögum bankans. En þó aldrei nema svo kunni að fara, að sumir þessir bæjarstjórar verði endurkosnir, þá er það engin skylda bæjarstjórnar að gera það. Vilji meiri hl. bæjarstjórnar aftur á móti kjósa annan bæjarstjóra, þá gerir hann það, og getur aldrei af því leitt annað nje meira en það, að greiða fráfarandi bæjarstjóra laun fyrir þann tíma, sem eftir er. Gæti vel hugsast, að einhversstaðar á landinu, t. d. hjer í bænum, þætti svo mikilsvert að losna við núverandi borgar- eða bæjarstjóra, að slík launagreiðsla þætti vinnandi vegur. Og mjer finst ekki nema eðlilegt, að bæjarstjórnir ráði þessu hver út af fyrir sig.

Um að kærufrestur sje of stuttur, þarf jeg litlu að svara. Hæstv. atvmrh. tók flest fram um það, sem segja þurfti. Ef menn ætla sjer að kæra kosningu, þá eru flestir sjaldan lengi að átta sig á því, svo óþarft virðist þess vegna að hafa kærufrestinn lengri.

Að lokum skaut hv. frsm. minni hl. nokkrum orðum til okkar jafnaðarmanna og þótti sjerstaklega eftirtektarvert, að við skyldum fylgja þessu frv. En við það er ekkert undarlegt, þar sem frv. fer fram á að rýmka kosningarrjettinn á tvennan hátt: Í fyrsta lagi með því að færa aldurstakmarkið niður í 21 ár, og í öðru lagi að þeginn sveitarstyrkur skuli ekki svifta menn kosningarrjetti, en fyrir þessari rjettarbót höfum við jafnaðarmenn barist árum saman.

Það er einnig rangt, að frv. þetta sje eingöngu borið fram vegna bæjanna. Kosningarrjetturinn er hinn sami hvort sem er um sveit eða kaupstaði að ræða.

Jeg veit það, að við jafnaðarmenn hefðum haft frv. betra að ýmsu leyti, hefðum við samið það eftir geðþótta okkar. En eins og flokkum er skift í landinu sem stendur, þá tel jeg, að frv. sje vel við unandi og þess vegna eigi það að verða að lögum.