12.03.1929
Neðri deild: 20. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Hæstv. forsrh. segir, að vandræðin yfir ósamræminu í lögunum um kosningar í málefnum sveita og bæja hafi byrjað strax í minni stjórnartíð. Jeg man ekki eftir neinum vandræðum. En eftir því man jeg, að jeg átti tal við bæjarstjóra á þeim stöðum, sem kosið var, og gaf þeim ýmsar leiðbeiningar til þess að losna við kærur, og það varð líka til þess, að engar kærur komu fram. Hefði þessu verið fylgt áfram, hefði verið hægt að fyrirbyggja alt það vafstur, sem kosningakærur hafa í för með sjer.

Annars er ástæðulaust að vera að deila um þetta við hæstv. atvmrh. Minni hl. vill bæta inn í frv. heimild fyrir atvmrh. til þess að samræma þau atriði í lögunum, sem hjer er um að ræða.

Þá var hæstv. ráðh. að tala um, að jeg vantreysti mínum flokki, er jeg taldi, að hann mundi hafa skaða og tapa fylgi við rýmkun kosningarrjettarins. Þetta er alveg út í hött og jeg hefi ekkert um þetta sagt, en úr því að jeg set mig ekki móti breyt. á kosningaaldrinum, þá ætti hæstv. ráðh. að geta ályktað af því, að jeg muni ekki telja þetta stórskaða fyrir þann flokk, sem jeg telst til. Það er ekki svo, að jeg haldi, að hlutföllin milli flokkanna muni raskast, þótt kosningaaldurinn verði færður niður. En hitt dylst engum, sem þessum málum er kunnugur og þekkir makk stjórnarinnar og jafnaðarmanna, að sú stytting kjörtímabilsins, sem í frv. felst, er gerð eingöngu til að þóknast jafnaðarmönnum, enda er það þeirra háttur, að vilja, að altaf sje verið að breyta til. (HG: Já, til hins betra). Það er nú venjulega aukaatriði hjá þeim, hitt er aðalatriðið, að ekkert fái að standa óhaggað, hvorki lög nje annað.

Hæstv. forsrh. sagði sig litlu skifta, hvort jafnaðarmenn eða íhaldsmenn væru ofan á í bæjunum. Hann virtist hugsa eitthvað á þessa leið: „Þeir einir eigast hjer við, er jeg hirði ekki, hvort lifa eða drepast“. Jeg hjelt satt að segja, að hæstv. forsrh. mundi farast vingjarnlegar orð í garð jafnaðarmanna, bandamanna sinna. En ef svo er, að honum er jafnsárt um íhaldsmenn og jafnaðarmenn, þá hefir hugur hans breytst mjög frá því í fyrra, og stórum til bóta, og gleður það mig auðvitað mjög mikið.

Jeg verð að segja það, að jeg skil ekki, hvað hæstv. forsrh. er að fara, þegar hann talar um Torfa í Ólafsdal og Jón Sigurðsson í sambandi við sveitarstyrki. (MJ: Sjálfsagt það, að þeir hafi verið ónytjungar). Jeg talaði aðeins um slæpingja, og jeg á bágt með að skilja, hvernig hæstv. forsrh. gat dottið þessir menn í hug í því sambandi. Enda þótt þeir hafi ekki Verið neinir ríkismenn, lá þó aldrei við, að þeir þyrftu að leita opinbers styrks, nje þiggja sveitarstyrk, og allra síst hefði það verið fyrir slæpingsskap.

Jeg gerði þá fyrirspurn til hæstv. forsrh., hvort varamaður gæti skorast undan kosningu. Svaraði hann því neitandi, og þar við vill hann láta sitja. En það kemur hvergi fram í frv., að þetta sje vilji löggjafans um þetta efni. Að vísu má segja, að ef einhver skyldi skorast undan kosningu, þá mætti vísa til þeirra umr., sem hjer hafa fram farið um málið, og tækju þær þá af skarið og útilokuðu allan misskilning. Hæstv. forsrh. fanst jeg ætti að vera glaður yfir því, að ekki væri haldið einhliða í lýðræðisáttina. En jeg verð að segja það, að það er í mínum augum enginn kostur á þessu frv., þótt það stefni til baka í sumum atriðum. Þvert á móti. Annars veit jeg það vel, að jafnaðarmenn vilja ekki kannast við, að frv. sje í eðli sínu andstætt lýðræðishugsun þeirra.

Jeg get ekki annað en verið hv. þm. Dal. samþykkur um það, að eðlilegast væri, að borgar- og bæjarstjóri sje kosinn af bæjarbúum, en ekki af bæjarfulltrúunum. Hann er umboðsmaður allra bæjarbúa fyrst og fremst, en ekki sjerstaklega bæjarstjórnarinnar. (HV: Vitleysa). Hv. 2. þm. Reykv. telur borgarstjóra aðeins þjón bæjarstjórnarinnar, en slíkt er mesti misskilningur. (MJ: Menn leita til borgarstjóra í þúsundatali). Þetta er einmitt ágæt upplýsing hjá hv. 1. þm. Reykv. Bæjarbúar leita til borgarstjóra í þúsundatali, af því þeir ná ekki til bæjarstjórnarinnar. (HV: Menn leita einnig í þúsundatali til hafnarstjóra og rafmagnsstjóra). Það er því nokkuð hart, ef bæjarmenn eiga ekki að hafa neinn beinan íhlutunarrjett um kosningu borgarstjóra. Hvað það atriði snertir, að borgarstjóri geti verið í beinu ósamræmi og jafnvel andstöðu við meiri hl. bæjarstjórnarinnar, þá er það að vísu alveg rjett, en slíkt getur einnig og ekki síður komið fyrir, þótt borgarstjóri sje kosinn af bæjarstjórn. Veðrabrigði verða oft á skemri tíma en 4 árum; sá, sem meiri hl. bæjarfulltrúa kýs, getur hæglega snúist til andstöðu á þeim tíma, og gagnkvæmt.

Viðvíkjandi ráðningartíma og samningum bæjar- og borgarstjóra í kaupstöðum virtist hæstv. forsrh. ganga inn á, að vert væri að athuga það, sem minni hl. hefir sagt um það atriði. En hann vili leggja það á vald bæjarstjórnanna að lagfæra það, en gæfir þess ekki, að slíkt er þeim venjulega ómögulegt. Samkv. þessu frv. á að kjósa 1930, og bæjarstjórnirnar geta því ekki haldið samningana, nema framlengja ráðningartímann. Og mjer þætti fróðlegt að vita, hvað hv. 2. þm. Reykv. segði um það, ef ætti að fara að framlengja ráðningartíma borgarstjórans í Reykjavík, eins vel(!) og þessi hv. þm. ber honum söguna. Auðsætt er, að ekki er hægt að skylda bæjarstjórnir til að kjósa áfram sama manninn, þótt hann sje ráðinn með samningi. Jeg benti á þetta í nefndinni, en meiri hl. áleit frv. svo heilagt, að það mætti ekki setja slíkan blett á það, eða hreyfa við því að neinu leyti.

Þá mintist ráðh. á úrskurð þann, sem hann gaf á yfirstandandi vetri út af kosningadeilunni á Akureyri. Virtist helst mega skilja á orðum hans, að úrskurður þessi væri á ábyrgð skrifstofustjóra þess, sem hefði með slík mál að gera. (Forsrh.: Það sagði jeg ekki). Mjer er að vísu ókunnugt um, hvað skrifstofustjórinn hefir lagt til úrskurðarins, en hinsvegar get jeg bent á úrskurði frá stjórnarráðinu, sem benda í gagnstæða átt.

Þá láðist hæstv. forsrh. það, að svara aðfinslum mínum um ýms veruleg atriði frv., t. d. kærufrest í sveitum. Reyndar sagði hann eitthvað á þá leið, að í kaupstöðum væri nauðsynlegt að fá að vita sem fyrst, hvort bæjarstjórn sje löglega kosin eða ekki. Það er að vísu alveg rjett, en þá vil jeg benda hæstv. ráðherra á það, að þótt ákvæði þessa frv. verði að lögum, stendur alt við það sama í því efni eftir sem áður. Eftir núgildandi lögum á að setja kæruna í póst með viku fyrirvara, og verður þetta einnig svo framvegis, nema hvað bætt er við ákvæði um þetta símskeyti, sem auðvitað er alveg gagnslaust, því að engan úrskurð er hægt að kveða upp fyr en skjölin koma.

Jeg þarf litlu að svara hv. 2. þm. Reykv. Hann sagði, að jeg og mínir flokksmenn hefðum komið í gegn 43. gr. fátækralaganna frá 1927. Þetta er auðsæ missögn hjá hv. þm., því að við vorum í minni hl. þá á þinginu, og hefðum því ekki getað komið þessari grein inn í lögin án tilstyrks frá öðrum flokkum. Hinsvegar álít jeg það langt frá því að vera níð um minn flokk, þótt sagt sje, að við höfum komið því þarfa ákvæði, sem felst í 43. gr., inn í lögin. Þegar jeg hefi komist að raun um, að sveitarstjórnirnar fari ekki rjett með þá grein, þá mun jeg vera breyt. fylgjandi, en fyr ekki að óreyndu máli. Annars er alls ekki hægt að ganga nær stjórnarskránni en sú grein gerir, og ef ganga á lengra á þessari braut, verður að breyta henni. Sjálf. er greinin skýr og tekur yfir öll tilfelli, þar sem það er lagt í vald sveitarstjórna að ákveða um, hvort maður skuli teljast hafa þegið sveitarstyrk eða ekki. Að öðru leyti ljet þessi hv. þm. það í ljós, að frv. þetta væri ekki eins gott og það gæti verið og að hann hefði ef til vill getað gert það betur úr garði sjálfur. En jeg verð nú að draga það stórlega í efa; að minsta kosti ber ekki nál. vitni um, að hann hafi haft mikið við frv. að athuga, enda eru breytingar þær, sem meiri hl. vill gera við frv., mjög fáar og lítilfjörlegar, og ein af þeim snertir eingöngu sveitirnar, svo að ætla má, að hún sje ekki frá honum runnin.

Þá gat þessi hv. þm. þess, að í Neskaupstað myndi minn flokkur ekki skaðast á því, þótt kosið væri eftir þessu frv. Hjer kemur greinilega í ljós sú skoðun hv. þm., að öll mál eigi að afgerast eftir flokkshagsmunum. Jeg álít þetta rangt og háskasamlegt í mörgum tilfellum. Það ætti alls ekki að kjósa í bæjarstjórnir eftir pólitískum flokkshagsmunum.

Þm. neitaði því, að það væri að hverfa af lýðræðisbrautinni að láta bæjarstjórn kjósa borgarstjóra í stað bæjarbúa. Jeg vil vísa til þess, sem jeg hefi áður sagt um það atriði. Annars vil jeg benda á það, að hæstv. stjórn hefir venjulega verið svo eftirlát við þennan hv. þm., að hún hefir haldið í lýðræðisáttina, þegar hann hefir óskað, og til baka, hafi þm. óskað þess, og svo mun og vera í þessu tilfelli, þótt hvorugur aðili vilji kannast við það.

Að lokum skal jeg lítillega snúa mjer að hv. þm. Dal. Jeg þarf ekki að svara honum miklu, því flest, sem hann sagði, studdi minn málstað. Þó erum við ósammála um aðra breyt. á 1. gr. Jeg held, að hann hafi ekki tekið eftir því, að jeg sagði, og leiddi rök að, að samkv. 1. gr. núgildandi laga eru þeir einir útilokaðir frá kosningu, sem vegna óreglu og slæpingsskapar ekki geta sjeð sjer farborða. Hv. þm. Dal. heldur þó sennilega ekki, að slíka menn ætti að setja í opinberar trúnaðarstöður, svo sem bæjarstjórnir og þvílíkt. En eftir síðari brtt. á 1. gr. er ekkert til fyrirstöðu, að slíkt gæti komið fyrir. Þegar ekki er hægt að skilja þessa menn frá fjöldanum, þá verður auðvitað ekki girt fyrir slíkt. En ákvæði núgildandi laga gera einmitt nokkuð til að skilja sauðina frá höfrunum.