12.03.1929
Neðri deild: 20. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Sigurður Eggerz:

Jeg er hæstv. forsrh. þakklátur fyrir það, að hann vildi leggja til að gerður væri fyrirvari um þá menn, sem hefðu samning. En jeg skildi ekki, hvað það átti að þýða hjá honum að fara að blanda gengismálinu inn í þessar umræður, því væri farið að tala um það af alvöru, gæti kannske lengst í þeim. Annars kemur mjer það dálítið undarlega fyrir, að ekkert stýfingarfrumvarp skuli vera komið fram ennþá, þar sem jeg hefi heyrt úr ráðherrastólnum, að það væri sama sem búið að stýfa, og hið sama hefi jeg sjeð í útlendum blöðum. Hefi jeg því leitað með logandi ljósi eftir þessu frv., spurt eftir því hjá skjalaverði, í skrifstofunni o. v., en enginn hefir um það vitað. Mun jeg því að þessu sinni ekki ræða frekar um gengismálið við hæstv. ráðherra; læt það bíða þar til stýfingarfrv. kemur fram.

Það var alveg rjett hjá hæstv. ráðherra, að það væri í meira samræmi við lýðræðishugsjónina, að bæjarstjórinn væri kosinn af borgurunum. Jeg get því trúað, að brúnin fari að síga á einhverjum jafnaðarmanninum, þegar þeir heyra, að fulltrúar þeirra á Alþingi fylgi ákvæðum, sem draga úr rjetti almennings, með öðrum orðum víki af braut lýðræðisins. En það eru þeir að gera með því að fylgja ákvæði frv. þessa um kosningu bæjarstjóranna. (MJ: Svona eru þeir inn við beinið. — ÓTh: Það eru ljótu karlarnir). Jeg vænti því, að hv. jafnaðarmenn þessarar deildar athugi þessi rök mín og hverfi frá villu síns vegar og greiði að minsta kosti atkvæði með því, að kosning bæjar- og borgarstjóra verði með sama hætti hjer eftir sem hingað til.

Hv. þm. Vestm. og hv. 1. þm. Skagf. mega ekki blanda hjer saman parlamentariskum reglum, sem gilda á Alþingi, og reglum þeim, sem gilda í bæjarstjórnum. Hjer á Alþingi eru þær reglur, að stjórnirnar fara frá völdum, komi þær ekki gegnum þingið stór principmálum. Um ekkert slíkt er að ræða í bæjarstjórnunum, Borgarstjórarnir sitja eftir sem áður, þó að þeir komi ekki málum sínum fram í bæjarstjórninni.

Hvað snertir kosningarrjett þeirra manna, sem þegið hafa sveitarstyrk, þá fæ jeg ekki sjeð, að hægt sje að girða fyrir það með öllu, að enginn fái hann, sem ekki er hans maklegur. Annaðhvort virðist mjer, að allir slíkir menn eigi að hafa hann eða enginn, því jeg fæ ekki sjeð, að það geti komið til mála að velja þar sauðina frá höfrunum. Að leggja þannig helgustu rjettindi borgaranna í hendur örfárra manna, getur ekki talist sæmandi í siðuðu þjóðfjelagi. (HK: Þannig er það þó í gildandi lögum). Mjer er öldungis sama, þó aldrei nema það sje í gildandi lögum; það er blettur á löggjöfinni, sem þarf að þurka burtu, og það hefir verið blettur á löggjöfinni að taka rjettindi af mönnum, enda þótt þeir hafi þegið af sveit, því að með því hafa margir heiðvirðustu borgarar þjóðfjelagsins verið settir á bekk með glæpamönnum.

Þá sagði hæstv. ráðherra, að hann hefði ekki kosið mig sem borgarstjóra, þegar jeg var í kjöri við þær kosningar. Fyrir það er jeg hæstv. ráðherra beinlínis þakklátur, því að jeg bauð mig fram nauðugur, gerði það aðeins fyrir þrábeiðni ýmsra manna, og er því þakklátur öllum þeim, sem ekki kusu mig, því að jeg er sannfærður um, að mjer hefði aldrei fallið sú staða. Að jeg fór að minnast á þetta nú, var af því, að jeg mundi eftir núverandi sambandi hæstv. ráðherra og jafnaðarmanna. Við þessa borgarstjórakosningu mun jeg hafa fengið allmörg atkvæði frá jafnaðarmönnum. En hæstv. ráðh. kaus mig ekki, af því að hann var þá gallharður heimastjórnarmaður. En nú er það alt breytt. Já, tíminn breytir mönnum. „Tíminn“ breytir mönnum.

Að öðru leyti vísa jeg til þess, sem jeg hefi áður sagt um frv. þetta. Jeg tel það til bóta, en vona, að ákvæði það, sem er í gildandi lögum um kosningu borgarstjóra, fái að standa óbreytt.