09.04.1929
Neðri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Það eru aðeins örfá orð. Jeg sje enga ástæðu til að fara að blanda mjer inn í þær umr., sem hjer hafa orðið á seinustu stundu um þetta mál alment.

Jeg gerði nokkra grein fyrir því í framsöguræðu minni við 2. umr., hverjar ástæður lágu til þess, að landbn. mælir einhuga með þessu frv., og þykist ekki þurfa að endurtaka neitt af því. Jeg lít líka svo á, að við 2. umr. hafi vilji deildarinnar komið í ljós, þar sem hv. deild þá samþ. frv. grein fyrir grein. Jeg hugsa því, að þær umr., sem hjer verða, og einkum hjer á eftir, um það, hvort þetta frv. eigi yfirleitt að ganga í gegnum deildina eða ekki, sjeu heldur þýðingarlitlar. — Aðeins út af þeim athugasemdum, sem tveir hv. þm. hafa gert við till. n., var það, að jeg kvaddi mjer hljóðs.

Hv. 2. þm. Rang. vill láta fella niður 3. málsgr. 45. gr., en í þess stað láta 5. málsgr. standa. Jeg býst við, að allir hv. þdm. hafi tekið eftir því, hver munur er á þessari till. og till. n. Samkv. till. hv. 2. þm. Rang. er bankastjórninni aðeins heimilað að heimta viðbótartryggingu þegar búfje, annað en nautgripir, er sett að veði, en samkvæmt till. n. er það skylt að krefjast viðbótar við trygginguna. Þessi till. hv. þm. er náttúrlega fram komin vegna þess að hann telur, að búfje geti verið algerlega fullnægjandi veð, en jeg varð þó ekki var við, að hv. þm. hrekti það, sem jeg hafði áður fyrir hönd n. sagt um þetta efni. N. þykir það óvarlegt að fallast á þetta.

Hið sama kom fram hjá hv. þm. S.-Þ., eða svipað, en hv. þm. ljet þó sjerstaklega óánægju sína í ljós yfir því, að n. hefði felt niður, að það sje gert að skilyrði, að lántakandi sje í fóðurbirgðafjelagi; virðist hv. þm. því að nokkru leyti fallast á þá skoðun n., að veð í búfje sje ófullnægjandi trygging. Í þessu sambandi sagði hv. þm., sem og er rjett, að trygging nægilegra fóðurbirgða væri fyrsta skilyrði til þess, að búfje geti verið trygt sem veð. Í því sambandi mintist hv. þm. ennfremur á, að það væri mikið gagn að fóðurbirgðafjelögum og ekki væri nema gott til þess að vita, ef samþykt þessa frv. eða þessa ákvæðis yrði til þess að fjölga þeim. Jeg ætla ekki að fara langt út í það atriði, en aðeins geta þess, að jeg efast um, að það sje svo fjarska mikið gagn að þessum fóðurbirgðafjelögum fram yfir það, að sveitin fylgi forðagæslulögunum. En eins og jeg hefi oft bent á, eru fóðurbirgðafjelög blátt áfram ekki til nema á svo fáum stöðum, að þau koma varla til greina, þegar um þetta er að ræða. Þeim fjölgar, segir hv. þm. (IngB). Það er spádómur, sem enginn veit hvort rætist.

Þá talaði hv. þm. um það, að ef svo væri, að búfje þætti einhversstaðar algerlega trygt, hvers vegna þá mætti ekki lána út á það. Jeg vil aðeins spyrja: Er búfje nokkursstaðar trygt sem veð? Það getur komið fyrir fleira en fóðurskortur, t. d. sýki.

Þá mintist hv. þm. á það, að það væri ekkert ljettara eða betra fyrir lántakanda að fá hreppsábyrgð heldur en ábyrgð fóðurbirgðafjelaga. Það má náttúrlega halda þessu fram; jeg skal ekki bera á móti því, en jeg sje þá ekki heldur, að það sje neitt aðgengilegra fyrir manninn sjálfan að leita til fóðurbirgðafjelags heldur en til hreppsnefndar; en svo kemur þetta ekki til greina, af því að fjelögin eru ekki til, og þess vegna er ómögulegt að halda þessu ákvæði. Ef menn á annað borð ganga út frá því, að það sje nauðsynlegt að hafa viðbótartryggingu, þá er ómögulegt að binda það við fóðurbirgðafjelög eins og nú er ástatt, og á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í frv.

Jeg sagði í upphafi, að jeg ætlaði ekki að blanda mjer inn í þær almennu umr., sem orðið hafa um þetta mál, en þó ætla jeg aðeins að minnast á eitt atriði í ræðu hv. þm. Ísaf. Mjer skildist á hv. þm., að hann teldi, að ef þetta frv. yrði samþ., þá væri um leið gengið inn á þá braut, að hvor höfuðatvinnuvegur landsmanna ætti að hafa sína bankastofnun og teldi eðlilegt, að þá kæmi fram krafa um að stofna sjerstakan banka fyrir sjávarútveginn. Út af þessu ætla jeg aðeins að segja það, að jeg fyrir mitt leyti lít svo á, að sjávarútvegurinn hafi nú þegar 2 banka, Landsbankann og Íslandsbanka, og að honum muni ekki þörf á fleirum. Þó á þetta sjerstaklega við um stórútgerðina.