13.03.1929
Neðri deild: 21. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í B-deild Alþingistíðinda. (524)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Hv. 2. þm. Reykv. sagði í ræðu sinni í gær, að ilt væri að eiga það undir náð sveitarstjórnarinnar, hvort styrkur skyldi endurgoldinn eða eigi. En það er engu síður styrkveitingin sjálf, er menn eiga undir náð sveitarstjórnarinnar, og getur þar oltið á afkomu styrkþega og fjölskyldu hans, hvort styrkur er veittur eða ekki.

Það, sem hv. þm. sagði um samband okkar hv. 2. þm. Skagf. og mín, er eigi svaravert, en hinsvegar get jeg vel sagt hv. þm. það, að jeg hefi eins oft leitað ráða hjá hv. samþingismanni mínum og hann hjá mjer.

Hv. 1. þm. N.-M. (HStef) sagði, að það gerði ekkert til, þótt slæpingjar hefðu kosningarrjett, því að þá væri ekki annað en svifta þá fjárforræði. Það væri þá tekið með annari hendinni, sem gefið væri með hinni. Samkv. 47. gr. fátækralaganna er svo kveðið á, að ef sannast, að menn þessir fari óráðvandlega með efni sín, megi gera þá ómynduga. Fyrir flestum þessum mönnum er það svo, að þeir eiga engin efni, og hefir það því ekkert að segja að gera þá ómynduga. Að þessu kynnu að verða einhver not til sveita, en í kaupstöðum er það með öllu þýðingarlaust.