13.03.1929
Neðri deild: 21. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í B-deild Alþingistíðinda. (525)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Jón Sigurðsson:

Jeg hafði kvatt mjer hljóðs í gær til þess að bera af mjer sakir. Hv. 2. þm. Reykv. fór að seilast til mín í gær, enda þótt jeg hafi ekki komið nærri þessum umræðum. Má segja um þann hv. þm., „að sjaldan bregður mær vana sínum“.

Hv. þm. sagði, að jeg hefði farið eins og þeytispjald um allan Skagafjörð til þess að koma íhaldsmönnum í hreppsnefndir og sýslunefnd. Greip jeg fram í fyrir honum í gær og lýsti þetta ósatt mál. Og því til árjettingar vil jeg geta þess, að í þeim hreppi, sem jeg bý í, var pólitískur andstæðingur minn kosinn í hreppsnefnd með atkv. mínu og míns heimafólks.

Um sýslunefndarkosninguna er það að segja, að jeg átti fund með bændum í tveim hreppum sýslunnar af 14, áður en sýslunefndarkosningar fóru fram, en í öðrum þeim hreppi fór engin kosning fram. Það er sagt, að fáir ljúgi meira en helming, en hjer hefir hv. þm. komist margfaldlega yfir það mark.

Þá sagði hv. þm., að jeg væri mjög fús á að fylgja hv. 1. þm. Skagf. Jeg er ætíð fús til þess að veita góðum dreng brautargengi til góðs málefnis, og þá hv. 1. þm. Skagf. ekki síður en öðrum En hv. 2. þm. Reykv. hefi jeg aldrei stutt, því að þar hefir hvorugt verið fyrir hendi.