13.03.1929
Neðri deild: 21. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í B-deild Alþingistíðinda. (527)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Jeg vildi aðeins segja nokkur orð út af ræðu hv. 2. þm. Skagf.

Jeg gat þess í fyrri ræðu minni, að þessi hv. þm., sem auðvitað er ekki annað en bergmál af hv. 1. þm. Skagf., hefði runnið um allan Skagafjörð til þess að gera hreppsnefndarkosningar og sýslunefndarkosningu pólitískar. Nú vill hv. þm. ekki viðurkenna, að þetta sje satt. Jeg veit, að þetta er satt, þótt hv. þm. þræti fyrir það að mestu, því að þetta hafa sagt mjer menn, sem eru miklu merkari en hv. þm. og enga ástæðu hafa til að segja annað en sannleikann í þessu máli.

Þá sagði hv. þm. í lok máls síns, að hann gæti ekki fylgt mjer nje málstað mínum, sökum þess, að jeg væri ekki góður drengur og málefnið, sem jeg berðist fyrir, væri ekki gott. Jeg hefi aldrei búist við því, að önnur eins íhaldssál eins og hv. þm. er nú orðinn muni fylgja sömu málum sem jeg. En um drengskap minn hygg jeg, að hv. þm. ætti sem minst að tala.

Þessi hv. þm. þekkir mig ekkert, hvorki hugarfar mitt nje breytni nú nje fyr. Jeg læt mjer álit hans því í ljettu rúmi liggja og legg jeg jafnmikið upp úr ummælum hans og jeg hygg, að aðrir hv. þm. yfirleitt leggi upp úr orðum hans í flestum eða öllum málum.