09.04.1929
Neðri deild: 40. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Magnús Jónsson:

Þó að talsvert hafi verið yrt á mig hjer, get jeg komist af með stutta athugasemd, því að það er ekki svo mikið nýtt, sem kemur fram í þessu.

Jeg varð fyrir dálitlum vonbrigðum eftir ræðu hv. þm. Ísaf., sem hafði dregið svo skýrt fram rökin á móti þessari aðferð, sem stjórnin hafði tekið upp á hjer. Kom það dálítið undarlega fyrir, þegar hv. þm. ætlar svo að greiða atkv. með frv. En þetta skýrðist, þegar hv. þm. sagðist vonast eftir góðum undirtektum undir annað mál, sem hann er með hjer. Er vonandi, að hv. þm. verði að trú sinni.

Það var annars hv. þm. Mýr., sem gerði mína síðari ræðu að umtalsefni. Mjer skildist á hv. þm., að hann væri eitthvað að tala um það, að það hefði ekki verið nema meiri hl. bankaráðsins, sem hefði gefið n. þessar upplýsingar. (BÁ: Já, mjer skildist það af ræðu hv. þm.). Nei, það var víst alt bankaráðið, en einn bankaráðsmaðurinn skrifaði víst undir með fyrirvara, að mig minnir, og jeg er að vonast til þess, að sá fyrirvari hafi verið um málið sjálft, en að hann hafi ef til vill ekki kært sig um að vera að gefa út sjerstakt álit um málið.

Það var alveg misskilningur hjá hv. þm. Mýr., þegar hann hjelt, að jeg hefði verið að bera saman aðstöðu bankans og svo einstaklings, sem ætti bankann. Það er svo sem auðvitað, að ef einstaklingur ætti bankann, þá mundi hann verja hagsmuni hans í líf og blóð, en bankaráðið á vitanlega ekki að feta í hans fótspor. Það, sem jeg sagði, var það, að ef einstaklingur ætti Landsbankann og ætlaði að setja svona stofnun á stað, þá myndi honum aldrei detta í hug að setja á stofn annan banka í samkepni við fyrri banka sinn, heldur aðeins auka við þeim starfskröftum og því fje, sem til þyrfti; honum myndi aldrei detta í hug að fara að setja upp þríhöfðaða stjórn, byggja nýtt hús yfir bankann o. fl. o. fl., sem yrði aukakostnaður án þess að ná nokkru meiri árangri heldur en að stofna sjerstaka deild innan Landsbankans í þessu skyni. Auðvitað dettur mjer ekki í hug að halda annað en að bankaráðið hafi svarað með hagsmuni ríkisins fyrir augum, en mjer finst, að það, sem hjer er prentað eftir því, sje svo „þunt“, svo vitlaust, ef það orð má nota, þar sem það heldur því fram, að það geri bankanum ekkert til, þó það sje sett upp samkepnisstofnun, sem tæki frá honum nokkuð af starfsfjenu, hálf ríkisábyrgðin o. s. frv. Þar sem bankinn heldur því fram, að hann hafi ráð til að halda í sparisjóðsfje með vaxtakjörum, þá hefi jeg sýnt fram á það áður, að bankinn hefir alls ekki neina aðra möguleika til þess en hinn bankinn.

Jeg get ekki kannast við, að jeg sje í neinni mótsögn við sjálfan mig, þó jeg telji nú erfitt fyrir Landsbankann að missa af því sparisjóðsfje, er hann hefir þegar fengið, enda þótt jeg væri á móti ríkisábyrgð á bankanum í fyrra, af þeim ástæðum, að of mikið sparisjóðsfje mundi þá safnast að honum. Þá taldi jeg það skaðlegt vegna þess, að það mundi draga um of frá öðrum peningastofnunum, og auk þess taldi jeg ekki gott, að mikið af fje hrúgaðist að bankanum á þessum tímum, er gengið væri ekki fastara en nú er. Þetta er alt annars eðlis en hitt, hvort gott er fyrir bankann að missa af því fje, er hann þegar hefir fengið og fest í viðskiftunum. En hafi jeg nú þrátt fyrir alt skift um skoðun, sem jeg þó mótmæli algerlega, þá hafa andstæðingar mínir frá í fyrra ekki síður gert það. Jeg hefi ávalt talið það nauðsynlegt og heilbrigt, að Landsbankinn væri sem allra sterkastur, og er því vitanlega á móti því

að rýra hann á nokkurn hátt. Og jeg á eftir að sjá, hvernig bankaráðið, eftir að það hefir lagt blessun sína yfir þessa tilraun til að rýra bankann, ætlar sjer að bjarga honum úr þeim örðugleikum, sem hann á við að stríða. Jeg er hálfhræddur um, að þeir verði ekki sjerstaklega glaðlegir og verði þess brátt varir, að honum hefði ekki veitt af öllu sínu til þess að hafa sig upp.

Það var ofmælt hjá hv. þm. Mýr., er hann kvað mig hafa sagt, að landbúnaðurinn væri alls ekki fær um að ávaxta þetta fje, er hann á að fá til afnota. Þetta hefi jeg aldrei sagt, þó jeg sje hinsvegar þeirrar skoðunar, að landbúnaðurinn eins og hann er nú eigi mjög erfitt með að bera mikil lán. Sjerstaklega allur smærri búskapur. Það, sem jeg var aðallega að mótmæla, var það, að ekkert tapaðist á landbúnaðinum. Jeg taldi hollara og rjettara að styðja að aukinni ræktun með styrkjum úr ríkissjóði samkv. jarðræktarlögunum, eins og þegar hefir verið gert. Því undirstaða þess, að landbúnaðurinn geti borið lán, er aukin ræktun.

Ef tími væri til, gæti jeg rætt nokkuð við hæstv. forsrh. um útibúið á Selfossi, en verð að sleppa því nú að mestu leyti. Hann sagði, að það hefðu verið sjerstaklega slæmir tímar og því hefði útibúið tapað. En hann verður að gæta að því, að við verðum altaf að vera viðbúnir sjerstökum tímum og vitanlega töpuðu bankarnir engu, ef slíkir tímar kæmu ekki altaf öðruhvoru. Þetta ætti að vera nóg til þess að hrinda þeirri trúarsetningu, að ekkert af þeim lánum, er bændum eru veitt, tapist. Og þó ekki sje búið að afskrifa nema ca. 300 þús. kr. á Selfossi, þá bið jeg menn athuga það vel, að ekki er ennþá búið að innheimta allar útistandandi skuldir, og mjer kæmi ekki á óvart, þó það kæmi ekki alt með fullum skilum. Munurinn á sjávarútvegi og landbúnaði í þessu falli er aðallega sá, að hagur útgerðarinnar er fyr gerður upp, svo töp hans koma fyr í ljós. Af þessu er jeg því miður hræddur um, að meira tapist á útibúinu á Selfossi en búist er við. (LH: Það er ekki ennþá búið að gera upp lán sjávarútvegsins).

Jeg get ekki farið að ræða um gengismálið í þessu sambandi, en það er vitanlega fjarstæða hjá hæstv. forsrh., að töpin austanfjalls stafi öll af gengishækkuninni.

Svo skal jeg ekki teygja þetta lengur. Hæstv. forsrh. hefir játað, að það muni hafa aukakostnað í för með sjer að setja upp þennan nýja banka. En jeg fullyrði, að hægt hefði verið að koma honum upp án nokkurs aukakostnaðar, hefði hann verið hafður í sambandi við Landsbankann. Væntanlegur kostnaður af honum verður því gersamlega að óþörfu til orðinn.