13.03.1929
Neðri deild: 21. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Hannes Jónsson:

Það eru þegar orðnar alllangar umr. um þetta frv.; skal jeg því ekki bæta miklu við þær.

Það, sem jeg vildi sjerstaklega hreyfa nú, er það, að allvíða úti um sveitir landsins eru að verða háværar kröfur um það, að kosningar til hreppsnefnda og sýslunefnda skuli ætíð vera leynilegar. Nú hefði mjer fundist æskilegt, að hv. n. til 3. umr. athugaði þetta, hvort hún sæi sjer ekki fært að koma með brtt. í þessa átt.

Einnig virðist vera ástæða til þess, að í hreppsnefndum og sýslunefndum væri hægt að koma á hlutfallskosningu í nefndir, alveg eins og það er talið sjálfsagt í hinu háa Alþingi. Virðist það og vera rjettlátt, að í þessum nefndum fái minni hl. líka notið sín, sem hann ekki getur oft og tíðum, ef hlutfallskosning er ekki viðhöfð. Þetta óska jeg einnig, að hv. n. athugi til 3. umr.

Um það, sem umr. hafa aðallega snúist um, ætla jeg að geyma mjer að ræða. Jeg get þó ekki látið hjá líða að svara því, sem hv. 1. þm, Reykv. sagði nú um kosningu bæjarstjóra. Jeg get yfirleitt ekki fundið, að það sje á nokkurn hátt rjettlátara eða eðlilegra, að hann sje kosinn af kjósendum fremur en af bæjarstjórn, og ef það er talið sjálfsagt, að oddviti sje kosinn af hreppsnefnd, en ekki af öllum hreppsbúum, þá finst mjer, að eins megi vera með bæjarstjóra, því að þar er um svo svipað að ræða, þótt annað starfið sje auðvitað miklu yfirgripsmeira. (HK: Það er ekki sambærilegt). Það má vel vera, að það sje ekki sambærilegt hvað störfin snertir, en í eðli sínu get jeg ekki sjeð mun þar á.