20.03.1929
Neðri deild: 27. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (544)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Magnús Torfason:

Jeg þarf að fara frá og þess vegna hefir hv. þm. V.-Húnv. leyft mjer að ljúka fyrst máli mínu. Jeg er hissa á þeim gusti, sem leggur á móti þessari brtt. minni. Sú stefna hefir ríkt hjer á Alþingi, að innleiða hlutfallskosningar þar, sem hægt er að koma því við, og á móti því hefir ekki verið risið. Jeg kom á þing 1924, og þá var gerð hörð hríð út af því, að innleiða átti hlutbundnar kosningar í Hafnarfirði. Þm. þeirra mótmælti því harðlega, en þá gat jeg gefið upplýsingar um það, hvernig aðstaðan var á Ísafirði áður en hlutfallskosningar voru þar innleiddar. Jeg gat þess þá, að svo gæti farið, að sá flokkur, sem þá var öflugastur, kynni að verða því feginn síðar, að þetta fyrirkomulag væri viðhaft, og nú er það komið á daginn. Hv. þm. Borgf. kom með ýmsar mótbárur gegn þessari brtt., en allar eru þær ljettar á metunum. Hann hjelt því fram, að verið væri að skerða sjálfráðarjett manna, en það er rangt, því sýslunefndir eru engan veginn sjálfráðar að því, hvaða kosningaaðferð er viðhöfð, eins og nú standa sakir. (PO: Hvar stendur það í lögunum?). Það hefir altaf verið litið svo á, að hlutbundnar kosningar mætti ekki nota nema þar, sem það væri sjerstaklega tekið fram, að svo skyldi vera. (PO: Þetta er lögskýring hv. 2. þm. Árn.). Þetta er hin vanalega lögskýring og menn hafa alment litið svo á, að hlutbundin kosning væri ekki leyfileg nema þar, sem svo væri ákveðið, og því er ekki að ræða um neina nýja skýringu frá minni hendi. Jeg hygg, að þessar mótbárur hv. þm. Borgf. sjeu nú niður kveðnar með öllu. (PO: Við skulum nú sjá til). Það hefir einnig verið talað um það, að leynilegar kosningar hafi ekki verið um hönd hafðar, en það er líka misskilningur; í sýslunefnd er altaf kosið leynilega. Sje jeg svo ekki ástæðu til að hrekja þetta frekar.