20.03.1929
Neðri deild: 27. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í B-deild Alþingistíðinda. (546)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Hannes Jónsson:

Mjer þykir hafa andað nokkuð kalt gegn brtt. á þskj. 149 og 159, en jeg mun þó ekki fara í neinn hita út af því, en vil aðeins staðfesta það, að í sveitum landsins sem annarsstaðar fer fylgi leynilegra kosninga altaf vaxandi. Það er ekki nema að nokkru leyti rjett hjá hv. þm. Borgf., að kjósendum hafi verið í sjálfsvald sett, hvaða kosningaraðferðir væru notaðar. Eins og nú er getur hreppsnefnd ákveðið, að kosning verði leynileg, þó allir aðrir kjósendur í hreppnum væru því andvígir; hjer er því ekki vilji kjósenda, sem ræður, heldur örfárra manna, sem kannske af tilviljun eiga sæti í hreppsnefnd. Ákveði hreppsnefnd ekki leynilega kosningu, getur 1/3 kjósenda krafist hennar. Hjer kemur aðeins til greina vilji 1/3 kjósenda, og er því hæpið að segja, að kjósendur ráði. Ef því er haldið fram, að þessar brtt. mínar sjeu til þess að taka ákvörðunarrjettinn af kjósendum, má alveg eins segja, að það sje þegar búið, með því að fá hann í hendur hreppsnefnd eða 1/3 kjósenda. Jeg get ekki sjeð, að rjettur þessara aðilja sje meiri eða eigi að vera meiri en rjettur 2/3 kjósenda, sem þá verður að beygja sig fyrir þessum litla minni hl. Nei, í þessu efni er best að sleppa öllum slagorðum um rjettindarán. Við vitum það allir, að þegar nýir menn taka sæti í nefndum þessum, kunna skoðanir líka að breytast, og því getur svo farið, að oft verði breytt um kosningaraðferðir, en það er auðvitað ákaflega ilt og vitlaust, og það brýtur beinlínis í bága við heilbrigða skynsemi að hafa það þannig.

Hv. þm. sagði, að engum verulegum mótmælum hafi verið hreyft gegn því fyrirkomulagi, sem nú gildir. Það kann vel að vera rjett, en jeg verð þá að minna hann á það, að tiltölulega stutt er síðan núgildandi lög um þetta voru sett, og þess vegna ekki við því að búast, að miklum mótmælum hafi verið hreyft. Jeg verð að segja það, að jeg sje enga frekari ástæðu til að hafa kosningar til Alþingis leynilegar heldur en innanhjeraðskosningar, því að jeg sje ekki, að á þeim sje svo ýkjamikill eðlismunur.

Hv. þm. sló því fram, að leynilegar kosningar hefðu mikla fyrirhöfn í för með sjer og gat þess, að þá þyrfti að útbúa kjörmiða og búa til herbergi í þinghúsinu, þar sem menn skyldu kjósa. Jeg hygg nú, að það sje ekki svo mikið verk að búa til miðana, og í öllum þinghúsum munu vera til afhýsi, sem nota má til slíks, því að á slíku herbergi eða klefa er altaf þörf. Þá sagði hv. þm. Borgf., að við þetta myndi tími eyðast að óþörfu. Þótt hv. þm. Borgf. sje íhaldsmaður, verð jeg að segja honum það, að jeg þekki hreppsnefnd, sem er samsett af tómum íhaldsmönnum, sem eru ennþá íhaldssamari en hv. þm., og er þó langt til jafnað. Hún var þó ekki íhaldssamari en það, að hún tók upp leynilegar kosningar og taldi það ekki á sig, þótt það kynni að taka lengri tíma, og enginn mun hafa áfelst hreppsnefndina fyrir það, en þeir, sem máske hafa verið á móti því, hafa þó sætt sig við það.

Brtt. mín á þskj. 149, 1,4 er, eins og jeg hefi áður tekið fram, ekkert annað en rýmkun á rjetti manna til hlutbundinna kosninga. Jeg get ekki hugsað mjer, að um slíka kosningaraðferð sje beðið nema rjettmætar ástæður sjeu fyrir hendi. Og hvers vegna á þá að standa á móti því? Nú má telja víst, að þeir, sem slíks æsktu, myndu sækja hreppsnefndarkosningu, en annars er sú kosning ávalt heldur illa sótt, svo að vel sótt þykir, ef sækja hana 40–50 af 100 kjósendum. Af þessum 40–50 er þá ætlast til, að 20 geti krafist hlutbundinna kosninga, og virðist ekkert óeðlilegt við það.

Þá var hv. þm. (PO) að vita, að í brtt. II á þskj. 149 væri vísað til 21. gr., sem þó væri ætlast til, að fjelli niður. Þetta er að vísu rjett, en þó ber þess að gæta, að vísað er til 21.–27. gr. Þessi tilvísun breytist af sjálfu sjer eftir þeim breytingum, sem verða á lögunum. Jeg bar undir skrifstofustjóra þingsins í gær, hvort þetta gæti staðist, og kvaðst hann eigi sjá annað en svo væri.

Jeg hefi þá svarað hv. þm. Borgf. Jeg býst við, að andstaða hans gegn breytingum þessum sje af þeim rótum runnin, að þessar kosningaraðferðir hafi ekki tíðkast í hans kjördæmi. En sem sannur íhaldsmaður ályktar hann sem svo, að allar breytingar hljóti að verða til bölvunar. En breytingar geta líka verið til bóta, og eru það jafnvel oftast. Að minsta kosti hygg jeg, að svo muni vera um þær breytingar, sem gerðar hafa verið á kosningalögunum í seinni tíð.

Hv. þm. V.-Sk. var á sama máli og hv. þm. Borgf. um þetta efni, og hefi jeg því gert honum skil í svari mínu til þess hv. þm. Þó gekk hv. þm. V.-Sk. svo langt, að hann kvaðst helst kjósa, að þingkosningar væru einnig opinberar. Hv. þm. er hjer sjálfum sjer samkvæmur, og er ekkert um það að segja. En ekki hefi jeg trú á, að opinberar kosningar til Alþingis yrðu til neinnar blessunar. Það vita allir, að aldrei hefir verið boðið jafnákaft í kjósendur og á meðan sú kosningaraðferð tíðkaðist. (LH: Hefir það verið betra síðan?). Jeg hefi heyrt, að í síðasta skiftið er slíkar kosningar fóru fram hafi brennivínið, sem gefið var háttvirtum kjósendum á kjördegi, eigi verið mælt í flöskum eða kútum, heldur tunnum, og ýmiskonar mútur viðhafðar. Það má vera, að vald brennivínsins yfir kjósendum yrði minna nú, þótt breytt væri um, — en ætli að einhver önnur öfl gætu ekki komið í staðinn, sem hefðu svipuð áhrif á kosninguna ?