20.03.1929
Neðri deild: 27. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (547)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Pjetur Ottesen:

Af því að jeg sje, að hv. 2. þm. Árn. er fjarverandi, ætla jeg að geyma mjer að svara honum, en víkja nokkrum orðum fyrst að hv. þm. V.-Húnv.

Jeg þarf að vísu ekki miklu að svara hv. þm., því að þótt ræða hans ætti að vera andmæli gegn því, sem jeg hefi hjer haldið fram, þá fólst þó svo mikið af viðurkenningu á rjettmæti þess, er jeg hafði sagt, í ræðu hans, að jeg má vel við una.

Hann sagði, að fyrirkomulag það, sem hann er að berjast fyrir hjer, væri að safna vinsældum úti um landið. Jeg skal ekki mikið um þetta segja, en víst er um það, að þetta er í fyrsta skifti, sem rödd kemur fram um slíkt á Alþingi. En jeg held, að eigi að fara að taka sjálfsákvörðunarrjettinn af mönnum í þessum efnum, þá muni heyrast fleiri óánægju- en ánægjuraddir yfir þeirri ráðstöfun. Hv. þm. sagði, að komið gæti fyrir, að vilji hreppsnefndar kæmi í þessu efni í bága við vilja hreppsbúa. En sje sá vilji svo einlægur og víðtækur, að takandi sje tillit til hans, getur ekki hjá því farið, að hann eigi einhverja fylgis- og forsvarsmenn í hreppsnefndinni. Sje ekki svo, verður varla mikið á honum bygt, þegar um breyttar kosningaraðferðir er að ræða.

Hv. þm. sagði, að jeg væri breytingunum andstæður af því, að þær hefðu ekki tíðkast í mínu kjördæmi og jeg þekti þær því ekki. En jeg get sagt honum það, að það er fullkomlega sjálfstæð skoðun mín sjálfs, að breyt. sjeu til hins verra, enda hafa mjer borist frjettir, sem benda í þá átt, þaðan sem búið var að ákveða að viðhafa leynilega kosningu. Jeg get nefnt eitt dæmi. Í einum hreppi á Norðurlandi var þessi nýbreytni tekin upp eftir almennum óskum. Atti að kjósa í hreppsnefnd og aðra nefnd til. En þegar hreppsnefndarkosningunni var lokið, höfðu kjósendur fengið nóg af umstanginu og vildu einum rómi láta hina kosninguna fara fram með gamla laginu. Þessi fregn bendir til þess, að menn sjeu þegar farnir að hverfa aftur frá þessum kosningaraðferðum, og verður ekki sagt, að þetta beri vott um djúpsettan vilja kjósenda. (HJ: Hvar var þetta?). Jeg skal segja hv. þm. frá því síðar, og einnig hver heimildin er.

Hv. þm. þótti gagnrýni mín á hinum almenna vilja um hlutbundnar kosningar ekki á rökum bygð, en viðurkendi þó, að hinn eini rjetti grundvöllur fyrir hlutbundnar kosningar væri í núgildandi löggjöf. Mig undrar því, að hann skuli vera að fjarlægjast þennan grundvöll með breytingartillögum sínum.

Hv. þm. vildi marka afstöðu mína til þessa máls af því, að jeg tilheyrði sjerstökum þjóðmálaflokki. Það er engu líkara en að hann sje þar að stæla hv. 2. þm. Árn., enda þótt jeg búist ekki við, að hann hafi neina sjerstaka löngun til að taka þann hv. þm. sjer til fyrirmyndar. Mjer finst, satt að segja, þjóðmálastefna mín ekki koma þessu máli við, enda býst jeg við, að atkvgr. sanni það, að ekki hefir tekist að gera það pólitískt. Að minsta kosti væri þá eins rjett að nefna í því sambandi annan stjórnmálaflokk, sem hv. þm. stendur ekki langt frá.

Þá vil jeg snúa mjer að hv. 2. þm. Árn. Skal jeg taka það fram, að svar mitt verður á annan veg en ella mundi, vegna þess að hann er fjarverandi. Hann sagði, að það væri ríkjandi stefna að beita hlutfallskosningum. Getur verið, en sú stefna hlýtur að vera bundin við það eins og aðrar stefnur, að til sje grundvöllur fyrir hana. Hitt er stefnuleysi, að ætla sjer að þröngva hlutfallskosningum upp á menn, þar sem þær eiga ekki við. Eins og jeg hefi þegar sagt, er engin aðferð ákveðin í lögum, er sýslunefndir skuli nota, er þær kjósa í nefndir. Þeim er aðferðin í sjálfsvald sett, og ræður meiri hl., ef sýslunefndin er skift á annað borð. Það er því hjer eins og svo oft áður, þegar þessi hv. þm. er að gefa lögskýringar, að maður fellur alveg í stafi yfir því, að hann skuli um langt skeið hafa fengist við dómarastörf, svo miklar eru fjarstæðurnar.

Þá er spurning, sem jeg ætlaði að beina til þessa hv. þm., ef hann hefði verið hjer viðstaddur. Það er um það, hvernig hægt sje að koma við hlutfallskosningu, þar sem engin flokkaskifting er. Það yrði beinlínis að búa til flokkaskiftingu til þess að hægt væri að beita þessum vitlausu ákvæðum. Allir sjá, hvílík fjarstæða er hjer á ferðinni, enda þótt hv. 2. þm. Árn. komi ekki auga á hana.