20.03.1929
Neðri deild: 27. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (548)

3. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Hannes Jónsson:

Jeg þarf ekki að svara hv. þm. (PO) mörgu út af brtt. minni um leynilegar kosningar. Deilur um hana eru þýðingarlitlar. En jeg gleymdi að svara einu atriði úr fyrri ræðu hans, er hann endurtók nú. Það var um grundvöllinn fyrir rjettmæti hlutfallskosningar. Hver er hann að dómi hv. þm.? (PO: Fyrirfram ákveðin flokkaskifting). Jeg held, að hv. þm. hafi of mikið í huga hina pólitísku flokka í landinu og vilji ekki ýta undir þátttöku þeirra í stjórn sveitar- og sýslumála, og skal jeg ekki ásaka hann fyrir það. En hjer er um aðra flokkaskiftingu að ræða, sem á fullan rjett á sjer. Í mörgum þýðingarmiklum framfaramálum sveitanna greinir menn mjög á um það, hvað setja skuli markið hátt og hverjar leiðir sjeu valdar að því. Flokkaskifting, sem verður til á þennan hátt, tel jeg fullkomlega rjettmætan grundvöll til þess að byggja á hlutfallskosningar. Við megum ekki einblína á hina pólitísku flokkaskiftingu. Hún ræður sjaldnast afstöðu manna í innanhjeraðsmálum. En skoðanir sem flestra aðilja eiga að fá að njóta sín í undirbúningi hjeraðsmála. Og það er best trygt á þann hátt, að minni hlutanum sje trygður sá rjettur, er hlutbundnar kosningar fela í sjer. Því vil jeg greiða fyrir þessari kosningaraðferð í sveitum.